Sólin skein á eldri borgara

21. maí 2020

Sólin skein á eldri borgara

Sr. Jónína Ólafsdóttir, blessar söfnuðinn í Garðalundi

Ekkert er upplagðara á kórónuveirutíma en að halda helgistund úti við.

En hvað þarf?

Gott veður, fallegt umhverfi, fólk, prest og kannski veitingar. Já, og söng.

Þetta var allt fyrir hendi í Garðalundi á Akranesi í morgun.

Sr. Jónínu Ólafsdóttur flaug þetta snjallræði í hug að hafa helgistund á kirkjulegum degi eldri borgara í hinum einstaklega fallega trjálundi þeirra Skagamanna.

Og sólin skein, fólkið kom og boðið var upp á heitt kakó.

Hljómur, kór eldri borgara söng. Organisti kirkjunnar, Sveinn Arnar Sæmundsson, lék undir.

Gat það verið nokkuð betra?

Sr. Jónína sagði frá því í ræðu sinni að þetta væru tímamót. Hún er nýkomin svo að segja að norðan, frá Dalvík,í prestsþjónustu á Akranesi og tímarnir hafa verið meira en lítið óvenjulegir. Fjöldatakmörkun og nálægðartakmörkun hefur sett kirkjulegu starfi stól fyrir dyr – já, stól fyrir kirkjudyrnar! En nú horfir fólk bjartsýnum augum til tíma rýmkunar enda þótt allir fari að með gát á veirutíð. Það væri mikið gleðiefni að sjá svo margt fólk við helgistundina og hún sagðist hlakka til góðrar samvinnu við það þegar allt færi að komast sem næst hinu fyrra horfi.

Hátt í eitt hundrað manns sóttu stundina. Flestir stóðu, aðrir sátu, og enn aðrir höfðu verið svo forsjálir að hafa með sér stól. Fólk var á því að helgistund hefði ekki verið áður höfð um hönd á þessum stað og til öryggis var einn fyrrum sóknarnefndarformaður spurður að því sérstaklega og rak hann ekki minni til þess.

Helgistundir úti í náttúrunni eru umvafðar sköpun Guðs hvert sem litið er. Það eitt og sér er býsna góð prédikun; sýnir sköpunarkraft Guðs og umhyggju hans fyrir manneskjunni.

Það var létt yfir fólkinu og margt var spjallað, gott samfélag eins og vera ber við kristna helgistund. Einn maður sveif að prestinum og sagðist vera Þingeyingur eins og hún. Síðan ræddu Þingeyingar málin eins og þeim er einum lagið. Þá er eins gott að óbreyttir Reykvíkingar hafi sig á brott.

Sælureitur Garðalundur er sælureitur þeirra Akurnesinga. Í lundinum er minnismerki sem Páll á Húsafelli gerði um Guðmund Jónsson (1906-1988) en hann var frumkvöðull í skógrækt á Akranesi.

hsh


Minnismerkið um skógræktarmanninn Guðmund Jónsson


Heit hressing í lok helgistundar


Frá vinstri: Sigurbjörg Jónsdóttir, Sigríður Kr. Valdimarsdóttir,
Þorbjörg Helgadóttir, Jóhannes Ingibjartsson, fyrrverandi sóknarnefndarformaður, og Sigríður H. Ketilsdóttir.


    Frá úthlutuninni

    Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

    02. jan. 2025
    ...úr Líknarsjóði kirkjunnar
    processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

    Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

    23. des. 2024
    Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
    Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

    Þorláksmessa í Skálholti

    23. des. 2024
    ...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð