Helgihald tekur kipp

30. maí 2020

Helgihald tekur kipp

Lágafellskirkja - á morgun verða þar þrjár fermingarguðsþjónustur

Það er ljóst af auglýsingum frá kirkjunum um helgihald þessa hvítasunnuna að allt er að þokast í rétta átt eftir kórónuveirutímann enda þótt altarisgöngur fari ekki fram.

Sóknarbörn eiga að geta sótt kirkjur sínar á hátíð andans, og stofndegi kristinnar kirkju, og notið helgihaldsins hvort heldur í öruggri tveggja metra fjarlægð eða ekki. Hver og einn kirkjugestur velur hvort hann eða hún vill styðjast við regluna eða ekki.

Allt er að koma til baka. Eða eins og segir í messuauglýsingu frá Lindakirkju fyrir morgundaginn: „Kór Lindakirkju kemur til baka eftir samkomubann og syngur...“

Víða eru auglýstar hátíðarguðsþjónustur, messur, fjölskyldumessur og helgistundir. Í nokkrum kirkjum fara fermingar fram: „Fermd verða tvö börn,“ segir til dæmis í auglýsingu frá Áskirkju í Fellum. Og Árbæjarkirkja í Reykjavík auglýsir „helgi- og fermingarstund.“ Fermingarmessa verður í Dómkirkjunni í Reykjavík og í Guðríðarkirkju - og Kotstrandarkirkju. Og í Lágafellskirkju þrjár fermingarguðsþjónustur, klukkan hálfellefu, tólf og eitt – þar er ekki slegið slöku við! Fermt verður í Skálholtsdómkirkju og í dómkirkjunni á Hólum verður hátíðarguðsþjónusta þar sem vígslubiskupinn þjónar fyrir altari og prédikar.

Alþjóðlegi söfnuðurinn í Breiðholti auglýsir guðsþjónustu á farsi. Og Hafnarfjarðarkirkja býður upp á hátíðarsöng sr. Bjarna Þorsteinssonar. Í Brautarholtssókn á Kjalarnesi fer fram göngumessa, gengið verður frá Brautarholtskirkju að útialtarinu við Esjuberg, þar bænastund og hressing. En það eru ekki bara Kjalnesingar sem reima á sig kirkjugönguskóna heldur og Seyðfirðingar sem taka þátt í Hreyfiviku í samstarfi við Gönguklúbb Seyðisfjarðar: Boðið er til gönguguðsþjónustu á hátíð heilags anda.

Rás 1 kl. 11.00 Útvarpsmessan er að sjálfsögðu á sínum stað kl. 11.00 á Rás 1 og nú frá Hallgrímskirkju. Þar þjóna prestarnir sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir og sr. Sigurður Árni Þórðarson – sr. Irma Sjöfn prédikar. Mótettukór Hallgrímskirkju syngur undir stjórn Harðar Áskelssonar. Við orgelið verður Björn Steinar Sólbergsson.

Helgihald hvítasunnuhátíðarinnar er um allt land fjölbreytilegt og kröftugt.

Hér hafa aðeins verið tekin nokkur dæmi úr messuauglýsingum. Sem fyrr er gott yfirlit yfir helgihaldið að finna í Morgunblaðinu og á heimasíðum kirkna sem og Facebókarsíðum þeirra.

Kirkjan.is óskar lesendum sínum gleðilegrar hvítasunnuhátíðar!

hsh


  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi