Vegleg gjöf

31. maí 2020

Vegleg gjöf

Siglufjarðarkirkja - bekkir verða vel setnir í dag þegar nýja hljóðkerfið verður tekið í notkun

Allir vita að mikilvægt er að í stærri kirkjum sé gott hljóðkerfi svo ekkert fari framhjá þeim sem sitja á kirkjubekk.

Í hvítasunnuguðsþjónustu sem hefst á eftir kl.11.00 í Siglufjarðarkirkju verður tekið formlega í notkun nýtt hljóðkerfi

„Gamla hljóðkerfið í kirkjunni var komið til ára sinna og meira en það,“ segir sr. Sigurður Ægisson, sóknarprestur.

Siglufjarðarkirkja á hollvini sem hugsa vel til kirkjunnar sinnar. Einn þeirra er Þórleifur Jóhann Haraldsson. Hann tekur sig til og ákveður að færa kirkjunni sinni að gjöf vandað hljóðkerfi.

„Þetta er hátalarakerfi og ýmis tól frá hinu þekkta vörumerki Bose, þar á meðal tvær hljóðstangir sem hvor um sig er með níu hátölurum í, og eitt bassabox, en svo að hluta til líka frá Yamaha,“ segir sr. Sigurður og er augljóslega búinn að setja sig mjög inn í tæknimálin og bætir við að hljóðkerfið bjóði upp á allt það nýjasta á markaðnum, eins og blátönn, og svo sé það nettengt.

„Gjöfin er að verðmæti hátt á aðra milljón króna,“ segir sr. Sigurður „og er hún stórhöfðingleg.“ Hann segir Siglfirðinga vera afa þakkláta fyrir þessa gjöf.

Þegar kirkjan.is innti sr. Sigurð eftir því hvort einhver sérstök ástæða hafi verið fyrir hinni glæsilegu gjöf Þórleifs svaraði hann: 

Kampurinn á klerki Þórleifur rifjaði það upp við mig í gær, að hann hefði skammað mig einhverju sinni eftir jarðarför - þetta var í erfidrykkjunni - fyrir það, að það heyrðist ekkert í mér fyrir skegginu. Ég mundi þetta ekki sisona, en þakkaði honum kærlega fyrir upprifjunina og kvaðst mundu koma því á framfæri hér eftir, að þetta hefði verið ástæðan fyrir því að hann ákvað að gefa öflugra kerfi en fyrir væri, í þeirri von að eitthvað heyrðist framvegis í gegnum þykkan og mikinn kampinn. Þetta væri sumsé mér að þakka. Þá brosti gefandinn.

Í guðsþjónustunni á eftir mun Sigurður Hlöðversson, formaður sóknarnefndar, taka formlega við gjöfinni og þakka Þórleifi fyrir.

Segja má að það sé tvöfaldur hátíðisdagur hjá þeim Siglfirðingum, hátíð heilags anda, hvítasunnuhátíðin, og hátíð þegar nýja hljóðkerfið verður tekið í notkun í fyrsta sinn.

Það er því óhætt að óska þeim til hamingju með nýja hljóðkerfið og gleðilegrar hvítasunnuhátíðar!

sæ/hsh


Gefandinn Þórleifur Jóhann Haraldsson við aðra hljóðstöngina


  • Leikmenn

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut