Barnakirkja

4. júní 2020

Barnakirkja

Hafnarfjarðarkirkja - frá uppskeruhátíð barnastarfsins í fyrra

Kirkjuhúsin eru mörg í þéttbýli. Sameining sókna getur vakið upp spurningar um hve lengi eigi að reka tvö kirkjuhús eða fleiri í prestakallinu.

Danir hafa farið þá leið í sumum tilvikum að nota einstaka kirkjur fyrir sérstaka aldurshópa. Í Árósum er til dæmis ein fyrrum sóknarkirkja nýtt sem kirkja fyrir þau sem eru á aldrinum 18- 30 ára. Og á Vesturbrú í Kaupmannahöfn er kirkja sem tekin var sérstaklega til nota fyrir ungt fólk, Ungkirkjan heitir þar. Í Horsens var ein kirkja, Miðbæjarkirkja, kalla þeir hana, tekin sérstaklega frá fyrir fólk frá tvítugu og upp í fertugt.

Þetta eru allt athyglisverðar tilraunir í kirkjustarfsemi sem kirkjan.is las nýverið um í Kristeligt Dagblad.

Ekki vantar að hægt sé að kynna sér list, sögu og menningu í borgunum. Söfn bjóða upp á margvíslegar leiðir upplifunar fyrir börn og unglinga.

Börn njóta lifsins eins og hin fullorðnu – og þau glíma líka við það með sínum hætti.

Deigla trúar og tilvistar Hvar skyldu börn og unglingar geta fegnið útrás fyrir trúartilfinningar sínar og svör við tilvistarlegum spurningum sínum og vangaveltum og fleiru sem því er skylt? Svör og viðbrögð sem hæfa aldri þeirra, þroska og aðstæðum?

Nú horfa Danir til þess að finna kirkjuhús sem hægt er að nota sérstaklega fyrir barnakirkju. Margir telja að það gæti orðið styrkur fyrir hið blómlega barnastarf sem fer fram mjög víða úti í söfnuðum landsins. 

Barnakirkjan á að vera í Kaupamannahöfn - það er ekki búið að ákveða hvaða kirkja verði fyrir valinu – já, og stundum eru þeir svo hátíðlegir að tala um dómkirkju barnanna

Stefnt er að því að þar verði hafðar um hönd sérstakar barnaguðsþjónustur, fyrir börn og fullorðna, ásamt alls konar starfsemi með uppbyggilegri afþreyingu og fræðslu við barna hæfi. Markmiðið er meðal annars að styrkja tengsl milli barnafjölskyldna og kirkjunnar.

Sumir telja að danska þjóðkirkjan eyði drjúgum tíma og býsna miklu fjármagni í starf meðal aldraðra – sem sé gott út af fyrir sig – en hugi ekki sem skyldi að yngsta kirkjuhópnum sem sé framtíð kirkjunnar. Mikilvægt sé að taka tilliti til þess sem trúaruppeldisfræðingar hafa að segja um uppeldi barna í meira og minna afhelguðu samfélagi.

„Um þetta verðum við að hugsa ef við ætlum okkur að vera þjóðkirkja eftir hálfa öld,“ er meðal annars haft eftir málsmetandi kirkjunnar manni, séra Jóhannesi Gregers Jensen, sóknarpresti í St. Nicolai kirkju í Rønne – og prófasti þeirra Borgundarhólmverja.

Fjölbreytilegt starf og lifandi Barnakirkjan í Kaupamannahöfn á að vera sem dráttarbátur, og flaggskip, sem og fyrirmynd fyrir barna- og æskulýðsstarf í borginni – og jafnvel landið allt. Auk þess að bjóða upp á barnaguðsþjónustur, þá verða þar barnamálstofur, verkstæði, vinnustofur, boðið verði upp á sameiginlegar máltíðir; þá starfi sorgarhópar fyrir börn allt upp að tólf ára aldri – og líka fyrir foreldra þeirra. Allt starfið verði barnmiðlægt en jafnframt foreldramiðað.

Búið er að tryggja fjármagn til að kosta prest, organista og dagskrárstjóra. En ekki er búið að sjá út hvaða kirkjubygging er á lausu og hentar fyrir barnakirkju af þessu tagi. Þar sem þessi kirkja á að vera fyrir alla Kaupmannahöfn verður hún að standa mjög svo miðsvæðis í borginni og samgöngur til hennar verða að vera greiðar.

Þau sem standa að undirbúningi barnakirkjunnar segja að hún verði að tengjast veruleika barnanna, hversdegi þeirra og lífi. Kirkjan verði að koma fram með hætti að hún skipti einhverju máli fyrir líf þeirra nú og síðar. Framtíð kirkjunnar hefjist við skírnarlaugina.

Spennandi verður að sjá hvort sérstök barnakirkja muni rísa hér á landi og ef: þá hvenær.

hsh/Kristeligt Dagblad


  • Barnastarf

  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Nýjung

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi