Las úr elstu sjóferðabæninni

8. júní 2020

Las úr elstu sjóferðabæninni

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur ávarp á sjómannadaginn í Grindavíkurkirkju. Fjær situr sr. Elínborg Gísladóttir

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur víða um land í gær. Það var þó annar bragur á en áður vegna kórónuveirunnar og minna um almenn hátíðahöld en áður.

En það var í mörgu að snúast þegar kirkjan.is kom í Grindavíkurkirkju um tíuleytið í gærmorgun. Hanna Margrétardóttir, kirkjuvörðurinn, var í önnum, eins sóknarpresturinn sr. Elínborg Gísladóttir, og Arnþrúður Margrét Jónasdóttir sem undirbjó léttar veitingar, hellti upp á kaffi og lagði á borð kirkjukleinur og konfekt. Og kirkjukórinn skaut á stuttri æfingu undir stjórn Erlu Rutar Káradóttur, kantors. Einsöngvarinn Berta Dröfn Ómarsdóttir fór líka yfir sitt prógramm.

Það var ekki bara sjómannadagurinn heldur var von á forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni sem ætlaði að flytja hugleiðingu í tilefni dagsins. 

Athöfnin hófst á því að forseti gekk í kirkju ásamt sr. Elínborgu, Fannari Jónassyni, bæjarstjóra og Hrafnhildi Kristjánsdóttur, eiginkonu hans, og Einari Harðarsyni, formanni sjómannafélags Grindavíkur, sem lagði blómsveig við altarisgrátur.

Guðni forseti hóf hugleiðingu sína á því að hvetja áheyrendur til að hugsa hlýtt til þeirra sem misst hafa ástvini vegna kórónuveirunnar, missirinn væri sár. En vonin væri björt, þegar horft væri til viðbragða yfirvalda, vísindalegrar þekkingar og reynslu.

Forsetinn tengdi saman sögu og samtíð.

Farsóttir væru ekki nýjar af nálinni, í Aþenu til forna geisaði þung sótt og plágan mikla í Flórens á 14du öld. Sú pest kom til Íslands sem svartidauði og eirði fáum. Hann vitnaði gamla annála um pestina, og gat um svokallaðan ætternisstapa á Gautlandi í Svíþjóð sem sagt væri frá í fornri sögu, en þar var gömlu og lasburða fólki steypt ofan – heimildir eru til um að til svipaðra ráða hafi verið gripið í hallærum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.

Sagan geymdi mörg dæmi um hörku og grimmd, sagði forsetinn. Síðan sagði hann margar fréttir innan lands sem utan hryggja okkur eða reita til reiði: „Stundum veldur eitt atvik straumhvörfum. Stundum breytist eitt ódæðisverk í sannleiksmerki um djúpstætt misrétti,“ sagði Guðni og að morðið á George Floyd hefði orðið að slíku tákni og hrundið af stað mótmælaöldu sem ekki sæi fyrir endann á. Hann sagði að fyrrum forsetar þar vestra ásamt mörgum öðrum leiðtogum hefðu fordæmt ódæðið og látið þá ósk sína í ljós um að kerfisbundnu ranglæti og rótgróinni kynþáttahyggju yrði nú að linna. Undir það hlytum við að taka. Einmitt í þessu húsi, í guðsþjónustu. „Því hvaða réttur er dýrmætari en sá en að mega draga andann?“ sagði Guðni. Floyd var sviptur honum. Og kristinn siður hlyti að taka undir þau orð um þann rétt og lýsa andúð sinni á óréttlætinu. Og spurði hvort væri betra að: „Stuðla að sátt, eða kynda undir ófriðarbál?“

Mildi og mannúð Enda þótt hörku og grimmd væri að finna í heiminum þá væri líka víða að finna mildi og mannúð og svo hafi verið lengi. Sagði hann frá kunnum mannfræðingi sem hafi verið spurður hvað það væri sem henni hefði þótt merkilegasti fundurinn á ferli sínum og merki um menningu. Hún nefndi ævafornan lærlegg úr manni sem augljóslega hefði brotnað og verið bundið um í lækningaskyni. Það sýndi umhyggju og mannúð - sýndi mennsku – hinn lærbrotni var ekki skilinn eftir úti í auðninni til að mæta örlögum sínum heldur hefði samfélag hans sýnt honum kærleika. Hið forna samfélag lét sér líka annt um fólk og nefndi forseti til dæmis að eitt orð hefði greinst á fornu rúnakefli og það var orðið ást – keflið er ein elsta heimild um íslenska skrift. „Í öflugu og réttlátu samfélagi lærum við af reynslu liðins tíma,“ sagði Guðni og þangað ættum við að sækja okkur vísdóm sem gagnast mætti og líka að læra af vítum til að varast.

Góðum árangur náðist í baráttu við veiruna vegna þess að traust var lagt á vísindi og þekkingu. Það væri gleðiefni. Á sjómannadegi væri gott að minnast þess að framþróun í tækni og vísindum hefði dregið úr slysum og óhöppum á sjó. Fyrir það bæri að þakka. En hættur hafsins yrði engu að síður að virða í stað þess að falla í freistni oflætisins.

Kærleikurinn mikilvægur „En veiran skæða minnti okkur á vanmátt okkar og smæð þrátt fyrir alla okkar vísindalegu þekkingu,“ sagði forsetinn. „Allar okkar framfarir virðast lítils virði og geta jafnvel verið varasamar margar hverjar án kristilegs kærleiks,“ sagði hann.

Hann minntist þess að sjómenn hefðu fyrrum tekið ofan höfuðföt sín áður en ýtt var úr vör og lesið sjóferðabæn – meðal annars í Grindavík.

Guðni gerði að lokaorðum sínum upphafsorð úr elstu íslensku sjóferðabæninni sem varðveist hefur og er úr kaþólskri tíð:                          

                                        Guð faðir og hans sonur og hinn heilagi andi,
                                        sjái og signi lýði og lýði
                                        unga menn og gamla,
                                        farm og fjalir,
                                        stefnu og stýri,
                                        þóftur og þiljur,
                                        árar og austurstrog
                                        og allan vorn reiða.

Eftir guðsþjónustuna var gengið í safnaðarheimili kirkjunnar þar sem boðið var upp á kirkjukaffið. Það var glatt yfir fólki og það var augljóslega ánægt með daginn og ræðumanninn og hafði um margt að spjalla.

Sr. Elínborg sagði tíðindamanni að í prestakallinu byggju um 3.500 manns. Þar af um 600 manns af erlendu bergi brotið, og í þeim hópi 400 Pólverjar. Hún sagðist hafa fyrir nokkru jarðsungið pólskan mann og með henni í þeirri athöfn var kaþólskur prestur. Það er gott dæmi um samvinnu ólíkra kirkjudeilda og til fyrirmyndar.

Sjóferðabænin öll
Guð faðir og hans sonur og hinn heilagi andi,
sjái og signi lýði og lýði
unga menn og gamla,
farm og fjalir,
stefnu og stýri,
þóftur og þiljur,
árar og austurstrog
og allan vorn reiða; 
virðist allt eftir
vilja drottins míns.
Heilir komu
að höfninni bestu,
þar á land að leggja,
sem vér kjósum á.
Heilagur kross yfir skipi voru
gefi oss byr
og blíðan sjó
eftir þá hina blíðu bæn jómfrú
Maríu, móður hans,
það veitir vor lausnari.
Nú skulum vér biðja fyrir þeim öllum
sem að sitt líf hafa látið,
Íslandshafið, Sólundar hafið,
sem kristnir menn plaga yfir að sigla.
Látum skip skíða
sól vor til eilífslegs friðar
pater noster á mann
syngi hver, sem kann,
þrjár á formann.
Verði nú so formálans endir,
vér séum allir af almáttugum
Guði vorum himneska föður sendir.
Látum oss formálann enda.

hsh


Sjómannadagskransinn við altarisgrátur


Kirkjuvörður og klerkur stilla saman strengi fyrir komu forsetans


Í kirkjukaffinu - frá vinstri: Margrét Gunnarsdóttir, djákni, 
Heiðar Hrafn Eiríksson, Gunnar Tómasson, og Guðni forseti.


  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju