Laugarneskirkja er listaverk

11. júní 2020

Laugarneskirkja er listaverk

Kórveggur Laugarneskirkju - sprungan fyllt með gylltu efni

Um nokkra hríð hafa staðið yfir viðgerðir á Laugarneskirkju. Kirkjan var reist á stríðsárunum og vígð 1949.

Segja má að hún sé eitt af mestu listaverkum Guðjóns Samúelssonar, (1887-1950), arkitekts og húsameistara ríkisins, þar sem hún stendur hógvær og prúð í túnfæti hverfisins. Allt öðruvísi en önnur guðshús - sterk og kyrr í vel hugsuðu formi sínu. Hún átti að verða miðpunktur hverfisins og varð það svo sannarlega.

Sprunga var í kórvegg og hvað gera menn þegar slíkt blasir við augum? Fylla upp í sprunguna svo ekkert sjáist og mála yfir? Allt sem fyrrum? Slétt og fellt?

Það gerðu þau ekki í Laugarnesinu.

Þau fylltu upp í sprunguna með gylltu efni. Hún sést. Enda er hún hluti af sögu hússins – ör á kórvegg, listaör.

„Ég var búinn að standa lengi við altarið og horfa á sprunguna,“ sagði sóknarpresturinn sr. Davíð Þór Jónsson þegar kirkjan.is innti hann eftir þessu. „Hugmyndin kom svo hægt og rólega í huga mínum um hvað gera skyldi.“ Hann segist hafa borið hana undir sóknarnefndina og leist henni vel á hana. Steingrímur Þorvaldsson, listmálari, var fenginn til að gylla sprunguna. Hann lagaði líka skemmdir á skrautmálningu í kirkjunni, í lofti og veggjum.

Japönsk áhrif Japanir hafa þann sið að gera við leirgripi eins og potta, skálar og könnur, með því að fella saman brotin með gyllingu. Sú aðferð kallast kintsugi. Þar býr sú hugsun að baki að sóa ekki heldur að nýta. Auk þess sem sprungan segir sögu gripsins – segir að eitthvað hafi komið fyrir og minnir svo mjög á líf mannanna sem skilur eftir sig ör hér og þar. Sum eru sýnileg en önnur ekki. Enginn á að fyrirverða sig fyrir þau áföll sem hafa skekið sál og líkama á lífsgöngunni. En örin og áföllin geta verið sem dýrgripir í sögu hlutar og einstaklings þegar horft er til baka. Gyllingin sýnir líka kærleika sem rennt var í sprungu sálar eða húss til að lina sársauka og minningar.

Sprungan á kórvegg Laugarneskirkju gengur að hluta til samsíða krossinum og er sterkt tákn og talar til fólks sem gengur veg kristinnar trúar. Hinn trúaði gengur veginn með meistaranum frá Nasaret. Á þeirri göngu hendir margt.

Sólríkur var gærdagurinn þegar kirkjan.is skoðaði kirkjuna eftir viðgerðir og tók tali kraftmikla múrara sem voru að bera himinblátt efni á kirkjutröppurnar. Þeir sögðu þetta vera gert til að múrinn festist betur við tröppurnar – himinblái liturinn á efninu hefði ekkert með það gera þótt tröppurnar leiddu fólk inn í kirkjuna. „En það getur vel verið að eins og múrinn dregst að þessu himinbláa efni þá dragist fólk betur að boðskap frelsarans þegar inn í kirkju er komið,“ sagði annar þeirra með bros á vör og vissi kannski ekki að þarna mælti hann býsna vel og af þó nokkurri speki.

hsh


Himneskir múrarar að störfum?


    processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

    Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

    23. des. 2024
    Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
    Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

    Þorláksmessa í Skálholti

    23. des. 2024
    ...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
    Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

    Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

    23. des. 2024
    ...fjölbreytt dagská í boði