Stutta viðtalið: Góðverk fyrir norðan

16. júní 2020

Stutta viðtalið: Góðverk fyrir norðan

Góðverkavika á Akureyri - leikbrúður

Nýlokið er í Akureyrarkirkju svokallaðri góðverkaviku fyrir börn í 4. – 6. bekk. Börnin komu þá viku í kirkjuna upp úr níu á morgnana og fóru um hádegisbil.

Af þessu tilefni ræddi kirkjan.is við Sonju Kro, æskulýðsfulltrúa Akureyrarkirkju en hún hafði veg og vanda af skipulagningu góðverkavikunnar. Þetta er í annað sinn sem hún stendur fyrir góðverkavikunni en hugmyndin er hennar. 

„Um hvað snýst góðverkavikan?“ spyr kirkjan.is.

„Verkefni vikunnar snúa að góðverkum af ýmsu tagi,“ segir Sonja. „Fyrsta daginn var farið í hópeflileiki og spil til að þjappa hópnum saman og hrista feimnina úr börnunum.“ Segir Sonja að það hafi tekist fljótt og vel.

Sonja segir að börnin hafi unnið gleðikort í vikunni þegar tími gafst frá öðru. Á gleðikort eru skrifuð falleg orð og setningar sem eru jákvæð og hvetjandi í erli dagsins.

„Einn daginn var svo farið niður í bæ og kortin gefin,“ segir Sonja. Það voru helst starfsmenn verslana sem nutu þessarar gjafmildi sem og gangandi vegfarendur. Þeir kunnu svo sannarlega að meta þessar gjafir. „Börnin fengu miklar þakkir fyrir þessi fallegu kort sem glöddu fólkið,“ segir Sonja og bætir því við að börnunum hafi þótt mjög gaman að gefa kortin.

Sonja sagði frá öðru skemmtilegu verkefni sem börnin unnu í góðverkavikunni. Skapandi verkefni sem reynir vissulega á. En skemmtilegu.

„Þau sömdu brúðuleikrit fyrir leikskólabörn og sýndu þau,“ segir hún. Börnin höfðu frjálst val um efni leikritanna og fékk sköpunargleði þeirra að njóta sín. Hún segir að um fimmtíu leikskólabörn hafi komið ásamt kennurum sínum til að horfa á fimm stutt brúðuleikrit.

„Þetta gerði mikla lukku,“ segir Sonja.

Og svo er söngurinn aldrei langt undan í kirkjustarfi. Börnin sungu mikið saman og þá sunnudagaskólalögin.

„Einn daginn þegar sól skein blítt fórum við í Lystigarð okkar Akureyringa og þar fengu börnin það verkefni að snyrta gróðurbeðin og kynnast garðyrkju,“ segir Sonja glöð og ánægð. Hún segir að forstöðumaðurinn hafi verið mjög ánægður með þetta framtak og góðverk – enda viti allir sem hafa komið nálægt görðum og garðyrkju að þar eru alltaf næg verkefni. „Og börnin borðuðu nestið sitt í Lystigarðinum og fóru í leiki,“ segir Sonja. „Þetta var ógleymanlegur dagur.“

Sonja segir að dagskrá vikunnar hafi verið þétt. Og það voru ekki bara góðverk sem voru á dagskrá heldur líka alls konar leikir. Síðasta daginn var bingó og þá færðist nú heldur betur fjör í leikinn. Það var líka haldin falleg kveðjustund og allir fengu smágjöf frá kirkjunni sem þakklætisvott og hvatningu.

„Við fórum daglega með mismunandi bænir og lásum framhaldssögu um hamingju,“ segir Sonja. Hún segir að samtal við börnin um góðverk almennt hafi tekist vel og vonar hún að börnin séu nú einhvers vísari um góðverk. „Þau láta örugglega ekki sitt eftir liggja við að vinna þau eins oft og hægt er ef þau fá tækifæri til þess,“ sagði Sonja í lokin. Þá segist hún vera þakklát tveimur aðstoðarstúlkum sem voru henni innan handar með góðverkavikuna. 

Víst er að framtak þeirra Akureyringanna í þessu efni getur verið öðrum góð fyrirmynd. Alltaf er hægt að gera einhverjum gott – vinna góðverk til að gleðja og styðja þau sem eru hjálparþurfi.

Nú kann einhver að spyrja hvort fólk sé komið út á hálan ís með því að efna til góðverkaviku.

Hvað skyldi gamli góði Lúther segja um það? Hann samdi ritling árið 1520 sem heitir Um góðu verkin – kom út á íslensku 1974. Saminn til að svara ásökunum um að hann væri á móti góðum verkum! Trúin var í augum Lúthers uppspretta alls og ekkert mátti skyggja á hana, hún var aflgjafinn. Gott verk sem spratt af trúnni var svo sannarlega gott verk – en enginn gat unnið hylli Guð né öðlat sáluhjálp með því að benda á öll sín góðu verk hafi þau verið unnin í eigin ábataskyni. Trúin ein skipti öllu máli, ekkert annað.

Góðverkavikan á Akureyri er sprottin af trú. Þess vegna eru verkin góð og í anda siðbótamannsins Marteins Lúthers.

Hvað eru góð verk? „Kristin manneskja sem setur allt traust sitt á Guð veit mæta vel hvað hún á að gera. Allt innir hún af hendi með glöðu geði og af frjálsum huga og ekki til þess að safna viðurkenningum eða góðum verkum. Og það sem rekur hana áfram til góðra verka er hinn mikli fögnuður sem felst í því að gleðja Guð og þjóna honum án þess að leiða hugann að endurgjaldi fyrir verkin, og vita að Guði fellur sú hugsun í geð.“ (Úr: Um góðu verkin -rit Marteins Lúthers, Weimar-útgáfan, 6. bindi, bls. 207, þýð. HSH).
hsh


Í Lystigarðinum á Akureyri - nostrað við beðin - gaman saman


    Sr. Guðrún Karls Helgudóttir á biskupssofu

    Fyrsti vinnudagurinn annasamur

    01. júl. 2024
    ...hjá nýjum biskupi Íslands
    For hope and future.jpg - mynd

    Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins gríðarlega mikilvægt

    01. júl. 2024
    ...varaforseti skrifar um hjálparstarfið