Kraftaklerkar í útvarpinu

20. júní 2020

Kraftaklerkar í útvarpinu

Sr. Kristján Valur og sr. Jón Helgi í Hafnarfjarðarkirkju

Jónsmessan er 24. júní n.k. Þá minnast menn fæðingar Jóhannesar skírara en Jón og Jóhannes eru afbrigði sama nafns - stundum kallaður reyndar Jóan. Jóhannes var sonur Elísabetar, frændi Jesú og hálfu ári eldri en hann. 

Kirkjan.is gekk fram á aðra frændur, þremenningana sr. Kristján Val Ingólfsson, og sr. Jón Helga Þórarinsson, þar sem þeir voru að undirbúa útvarpsmessu morgundagsins, sem er 21. júní, en henni verður útvarpað frá Hafnarfjarðarkirkju.

Temað er Jónsmessan og textar hennar verða lesnir. 

„Jónsmessusálma eigum við því miður enga eftir þó einn hafi verið ágætur í Hólabókinni forðum og í Gröllurunum,“ sagði sr. Kristján Valur, „og sá var: Eilífum föður öll hans hjörð, af hjarta syngi þakkargjörð,með sinnar náðar sætu orð, sendi Johannem oss á jörð!“ Sálminn orti Filippus Melankton, samverkamaður Lúthers.

Það var létt yfir þeim frændum eins og gjarnan er yfir Þingeyingum og þeir enda menn sviðsins hvar sem þeir eru staddir. Já, svo mikill þungi var í helgihaldinu hjá þeim frændum að tíðindamanni sýndist ekki betur en að það sigi ögn úr einu dekki útvarpsupptökubílsins. Þetta fannst þeim frændum og klerkum harla skiljanlegt og gott til afspurnar. Bendir ótvírætt til þess að á morgun verði hægt að hlýða á kröftuga guðsþjónustu frá Hafnarfjarðarkirkju. Sr. Kristján Valur, vígslubiskup emeritus, prédikar og sr. Jón Helgi sér um altarisþjónustu.

Við orgelið er Guðmundur Sigurðsson og félagar úr Barbörukórnum syngja undir stjórn hans. 

Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að hlusta á útvarpsmessu morgundagsins sem og endranær.

Jónsmessan er við sumarsólstöður en jól, fæðingarhátíð Krists, við vetrarsólstöður. Jónsmessunótt var talin mögnuð nótt á sama hátt og jólanótt, nýjársnótt og þrettándanótt en þær allar standa nær sólhvörfum.

Árið 1770 var Jónsmessunni kippt út með lögum sem messuskyldum helgidegi.

Jóhannes verndardýrlingur Margar kirkjur á Íslandi voru fyrrum helgaðar Jóhannesi skírara, hann var m.ö.o. nafndýrlingur sautján guðshúsa og verndardýrlingur tíu. Mætti sem dæmi nefna hér Stað í Grunnavík, Miklaholtskirkju á Snæfellsnesi, Auðkúlukirkja í Austur-Húnavatnssýslu og Viðey. 

Hér er hægt að hlusta á guðsþjónustuna. 

hsh


Útvarpsbíllinn fyrir utan Hafnarfjarðarkirkju - örin bendir á hve sigið hefur úr dekkinu

 

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju