Stutta viðtalið: Kirkjukaffikarlar

27. júní 2020

Stutta viðtalið: Kirkjukaffikarlar

Kaffikarlar Seltjarnarneskirkju í Mjólkursamlagi KS á Sauðárkróki

Í mörgum kirkjum starfa litlir hópar sem koma reglulega saman. Sumir hópanna koma saman til bænahalds og ritningarlesturs, aðrir til að lyfta upp prjónum sínum, og enn aðrir koma saman af öðrum ólíkum tilefnum. Svo eru einfaldlega þau sem hittast samfélagsins vegna, ræða málin, og njóta félagsskapar saman í kirkjunni.

Kirkjustarf sem ekki fer hátt um Þetta eru ekki stórir hópar og stærðin hæfir hverjum og einum, kannski frá fimm manns upp í tuttugu. Í sumum eru aðeins karlar og konur í öðrum. Þetta er fullorðið fólk og það kynnist býsna vel ef það þekkist ekki eitthvað áður. Það fer ekki mikið fyrir þessum hópum en þeir eru víða hluti af grónu kirkjustarfi. Þátttakendum líður vel í kirkjunni sinni og eru henni þakklátir og trúir. Auk þess er alltaf tækifæri til að stofna nýja og nýja hópa ef út í það er farið.

Í Seltjarnarneskirkju er starfandi hópur sem kallar sig kaffikarla. Þetta eru karlar sem komnir eru á löglegan aldur og þaðan af eldri. Þeir koma saman tvisvar í viku í safnaðarheimili kirkjunnar til skrafs og ráðagerða.

Fyrir nokkrum dögum héldu kaffikarlarnir í Skagarfjarðarferð frá Seltjarnarneskirkju. Þeir fóru sautján saman.

Fararstjóri var sóknarpresturinn, sr. Bjarni Þór Bjarnason. Kirkjan.is tók hann tali. 

„Við ókum á Sauðarárkrók um Þverárfjall,“ segir sr. Bjarni Þór. „Á Króknum tók á móti okkur í höfuðstöðvum Kaupfélagsins, Sigurjón Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga.“ Sr. Bjarni Þór segir að hann hafi flutt fræðandi og skemmtilegt erindi í máli og myndum um starfsemi Kaupfélagsins. Það kom þeim kaffikörlum á óvart hversu fjölbreytileg starfsemi Kaupfélagsins er á mörgum sviðum. Kaupfélagið er framúrskarandi fyrirtæki sem hefur í kringum eitt þúsund manns í vinnu, bæði á Sauðárkróki og víðar á landinu.

Síðan fór kaupfélagsstjórinn með hópinn yfir í hús Mjólkursamlags KS.

Mynd ársins? „Þar fór hver maður í sérstakan hlífðarslopp, setti hárnet á höfuðið og skóhlífar yfir skó sína,“ sagði sr. Bjarni Þór, „menn höfðu gaman af því að fara í þessa múnderingu en hreinlætið er sett þarna á oddinn eins og skiljanlegt er.“ Svo var mynd smellt af hópnum - kannski er það fréttamynd ársins á Seltjarnarnesi en hana má sjá hér með fréttinni.

Kaffikarlarnir voru leiddir um framleiðslusali og fengu að smakka á nýjum ostategundum sem komu á markaðinn nýlega sem heita Goðdalir: Grettir, Reykir og Feykir.

Málaður ostur „Og alltaf sjá menn eitthvað nýtt,“ sagði sr. Bjarni Þór, „einn starfsmannanna bar sérstaka ostamálningu á ostana.“ Slíkt höfðu menn ekki séð áður. Hann segir að það þurfi að fara átta sinnum með pensilinn á ostana með sérstakri ostamálningu. „Hún á að minnka vatnsinnihald og fyrir vikið verður osturinn bragðsterkari.“

Áfram héldu kaffikarlarnir för sinni á Króknum.

„Við fengum að vita allt um Steinullarverksmiðjuna,“ segir sr. Bjarni Þór. Kaffikörlunum þótti gaman að heyra um verksmiðjuna, starfsemi hennar og sögu. Verksmiðjan tekur um tíu þúsund tonn af sandi árlega úr vesturósi Héraðsvatna til að framleiða sína steinull. Enginn skortur er á sandinum því sjórinn sér um að fylla á svo engin ummerki sjást um sandtöku frá degi til dags.

Kaffikarlarnir skoðuðu svo Sauðárkrókskirkju og það var sóknarpresturinn, sr. Sigríður Gunnarsdóttir, sem fræddi þá um kirkjuna og sagði frá safnaðarstarfinu. „Sauðárkrókskirkja er vinakirkja Seltjarnarneskirkju, hefur verið það frá 2013,“ segir sr. Bjarni Þór.

„Kirkjunnar fólk sem fer um Skagafjörð getur ekki látið hjá líða að koma við á Löngumýri,“ segir sr. Bjarni Þór.

Gunnar Rögnvaldsson, forstöðumaður á Löngumýri, tók á móti hópnum, hress og glaður að vanda.

Afmæli og lambalæri á Löngumýri „Sóknarnefndarformaðurinn okkar, hann Guðmundur Einarsson, átti afmæli þennan dag,“ segir sr. Bjarni Þór, „og við gengum til Löngumýrarstofu og sungum afmælissönginn fyrir hann og lyftum glösum í tilefni dagsins.“ Síðan snæddi hópurinn lambalæri á Löngumýri en það svíkur engan að sögn sr. Bjarna Þórs. „Lísa á Varmalæk sá um það af alkunnri snilld ásamt samstarfskonum sínum, þeim Dagnýju Erlu Gunnarsdóttur og Sigurlaugu Guðmundsdóttur.“

Kaffikarlarnir voru því vel saddir þegar þeir kvöddu Skagafjörðinn – nú og allir vita svosem að matur er mannsins megin. Það voru því orkumiklir kaffikarlar sem stigu upp í bílana tvo sem fluttu þá norður – og nú suður sextán klukkustundum frá brottför.

Kaffikarlarnir voru hæstánægðir með ferð sína um Skagafjörðinn.

„Við vorum heppnir með veður,“ segir sr. Bjarni Þór, „sól og blíða norðan heiða.“

Víst er þá kaffikarlar Seltjarnarneskirkju hittast næst að margt verður um að spjalla.

hsh


Guðmundur Einarssonar, formaður sóknarnefndar, og sr. Bjarni Þór Bjarnason.
Milli þeirra er stytta af Marteini Lúther. Myndin er tekin í Seltjarnarneskirkju í vetur.







  • Frétt

  • Leikmenn

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Fræðsla

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju