Prestaskortur

12. júlí 2020

Prestaskortur

Prestakragi frá 19. öld

Danski kirkjumálaráðherrann, Joy Mogensen, hyggst leggja fram á hausti komandi frumvarp til laga fyrir þingið sem gerir fólki kleift að sækja um prestsembætti enda þótt það hafi ekki að baki hefðbundna guðfræðimenntun sem krafist hefur verið hingað til.

Ástæða þessa er meðal annars aukinn prestaskortur um allt landið en þó einkum í jaðarbyggðum. Þá er óvenjuhátt hlutfall presta að fara á eftirlaun á næstu árum. Guðfræðideildir dönsku háskólanna sjá ekki fram á að útskrifa það marga kandidata að unnt verði að manna allar stöður. Ráðherrann segir að ríkisstjórninni sé umhugað um að gæta jafnvægis í byggð landsins og mikilvægt í því efni sé að allir hafi aðgang að kirkjulegri þjónustu. Hún segist vera harla vongóð um framgang frumvarpsins þar sem ekki sé annað að sjá en að breið samstaða sé um málið.

Viðbótarmenntun Tillaga ráðherrans gerir ráð fyrir því að hinir nýju prestar hafi háskólamenntun enda þótt hún sé í öðrum greinum en guðfræði en þeim verði gert skylt að heyja sér menntun í henni. Þau sem hyggjast ganga til þjónustu við kirkjuna eftir þessari nýju leið þurfa semsé að sækja danska prestaskólann og afla sér auk þess margvíslegrar viðbótarmenntunar. Þessi viðbótarmenntun verði fléttuð úr greinum sem taki mið af þeirri menntun umsækjandans sem hann eða hún hefur þegar fengið.

Frumvarp ráðherrans til laga breytir því ekki að nú sem áður er háskólapróf í guðfræði (cand.theol./mag.theol) meginskilyrði þess að geta orðið prestur í dönsku þjóðkirkjunni enda þótt unnt sé að víkja frá því tímabundið með vissum skilyrðum.

Þessi nýju dönsku lög munu taka gildi á næsta ári og falla niður að tíu árum liðnum.

Sjá yfirlýsingu frá danska kirkjumálaráðuneytinu hér.

Sjá frumvarpið hér hér (athyglisvert að í 9da lið um frumvarpið er metið hvort það hafi umhverfisáhrif eða ekki – svo er reyndar ekki og kemur svosem engum á óvart).

Segja má að kirkjuleg þjónusta standi á tímamótum hjá frændum vorum og frænkum, Dönum. 

Ekki er ljóst hvernig staðan er hér á landi. Allajafna sækja alltaf einhverjir um laus prestaköll og önnur störf presta. Til dæmis sóttu tvær konur um Ólafsfjörð fyrir skömmu, og þrjár um Húsavík. Um Stafholt í Borgarfirði sóttu átta guðfræðingar. Kanna þyrfti hvert framboð verður af guðfræðingum með starfsgengi á næstu árum með tilliti til fjölda prestsstarfa í landinu og aldurs þjónandi presta.

hsh/Kristeligt Dagblad
  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Frétt

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir á biskupssofu

Fyrsti vinnudagurinn annasamur

01. júl. 2024
...hjá nýjum biskupi Íslands
For hope and future.jpg - mynd

Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins gríðarlega mikilvægt

01. júl. 2024
...varaforseti skrifar um hjálparstarfið