Fólkið í litlu sókninni

16. júlí 2020

Fólkið í litlu sókninni

Konur í forystu - sóknarnefnd Sleðbrjótskirkju, frá vinstri: Ragnheiður Haraldsdóttir, Stefanía Malen Stefánsdóttir, formaður, og Þórey Birna Jónsdóttir

Stefanía Malen Stefánsdóttir er sóknarnefndarformaður í Sleðbrjótssókn, Egilsstaðaprestakalli. Hún er skólastjóri Brúarásskóla og kirkjunnar kona. Hún er frá Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð en býr á Skriðufelli.

„Ég hef alltaf verið viðloðandi kirkjustarf,“ segir Stefanía Malen, „var smákrakki þegar ég byrjaði að syngja í kirkjukórnum.“

Sleðbrjótssókn er lítil sókn með rúmlega þrjátíu sóknarbörn.

„Það er búið á tólf bæjum í Jökulsárhlíð,“ segir Stefanía Malen.

Í Sleðbrjótskirkju er messað reglulega og kórinn er sameiginlegur með Kirkjubæjarkirkju.

„Það eru fimmtán manns í kórnum,“ segir Stefanía Malen. En það vantar karlaraddir eins og svo víða. „Ekki skortur á kvenröddum og bassinn er þokkalega sterkur.“ Organisti og söngstjóri er Jón Ólafur Sigurðsson.

Hver skapar sóknina?

Sóknir koma og fara. Þær verða til þegar aðstæður knýja þær fram – með sjálfsögðum og eðlilegum hætti. Eða hægt og bítandi.

Sóknir verða til vegna þess að fólk vill góða kirkjulega þjónustu. Svo hefur sennilega ætíð verið.

Sumar eru fámennar og aðrar fjölmennar. Þær fámennu eru stundum lagðar til næstu sóknar – til að styrkja báðar.

Fólkið sem þarf þjónustu skapar sóknina.

Margur byrjar á því að staldra við nafnið.

Sleðbrjótur?

Þjóðsagan segir þræla hafa brotið sleða sína nálægt bænum en aðrir segja nafnið til komið vegna sleðatorleiðis um móaflæmið meðfram Jökulsá.

Stefanía Malen tók við sóknarnefndarformennsku af föður sínum sem hafði sinnt henni í aldarfjórðung. Hún ber enda sterkar taugar til kirkjunnar. Föðurafi hennar, Geir Stefánsson var fæddur í Sleðbrjót (1915-2004), og kirkjunnar maður. Langafi hennar, Stefán Sigurðsson í Sleðbrjót, var einn af forvígismönnum kirkjunnar á sinni tíð og einn af bændunum fimm sem gengust í ábyrgð fyrir hana og síðar verður greint frá.

Hún kann að segja sögu kirkjunnar og vísar þá gjarnan í framúrskarandi góða grein eftir afa sinn, hann Geir. Hana má finna í Múlaþingi, 21. árg., 1994.

Nýi tíminn og gamli

Það fólk sem kom að því fyrir um öld að reisa kirkju í Sleðbrjót og stofna nýja sókn, Sleðbrjótssókn, hefði ekki órað fyrir því að sókninni yrði svo sinnt síðar frá Egilsstöðum. Presturinn sæti ekki einu sinni á Kirkjubæ þaðan sem þeim í Jökulsárhlíðinni var þjónað á sinni tíð – nú og þar væri enginn prestur. Heldur tveir á Héraði sem færu um auk Seyðisfjarðarprests sem einnig þjónar nú í þessu víðfeðma pestakalli. Og áin brúuð – eitt stærsta vatnsfall Íslands. En svona er tíminn.

„Egilsstaðir eru miðkjarninn, þjónustukjarni, á okkar slóðum,“ segir Stefanía Malen. „Þangað sækja börnin til dæmis tómstundir – taka þar þátt í íþróttum og mörgu öðru.“

„Börnin úr Sleðbrjótssókn fara inn á Egilsstaði í fermingarfræðsluna,“ segir Stefanía Malen.

Það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi. Líka þegar Egilsstaðir voru ekki til.

Sókn og kirkja í Sleðbrjót sáu dagsins ljós vegna samgönguerfiðleika á sínum tíma.

Nútímafólk á stundum erfitt með að skilja hvernig fólk fór að því að fara á milli sveita fyrrum – það voru svo ekki allir á ferð eins og nú – út og suður – og engin borgarlína í sjónmáli, aðeins hafið og fjöllin. Móar og mýrar. En fyrri tíðar fólk gat líka verið þreytt á samgöngubasli. Það tók til sinna ráða ef með þurfti. Kirkjan var mikilvægur þáttur í lífa margra.

Af hverju þurfti kirkjan okkar að vera hinum megin við ána? Mátti ekki reisa nýja – hérna megin við ána?

Jökulsáin gat verið ófrýnileg. Og veðrið tók líka í þegar síst skyldi. Af hverju að setja sig í lífshættu til að fara að heyra guðsorð?

Og þau sem bjuggu í Jökulsárhlíðinni þurftu að fara yfir vatnsfallið til kirkju sinnar í Kirkjubæ í Hróarstungu. Það gat ekki aðeins verið dálítið umhendis fyrir hina lifandi heldur og ekki síður hina dauðu þegar þurfti að koma einhverjum úr Hlíðinni í gröfina. Og snúnara var það náttúrlega þegar vetur lá yfir og jarðbönn. 

Merkileg saga

Og framliðnir koma ögn við sögu þessarar sóknar. Reyndar engir miðilsfundir!

Rétt fyrir aldamótin 1900 deyr bóndinn á Sleðbrjót. Hann er grafinn í heimagrafreit á staðnum sem ekkjan lét gera í óþökk prófastsins og jafnvel biskupsins – hafði hún þó hvorki meira né minna en bréf upp það frá sjálfum kónginum, Kristjáni IX., um að grafa mætti í Hlíðinni.


Kristján IX., gjörir kunnugt...

En rekum var ekki einu sinni kastað. Og reiturinn óvígður. Einhver ólund í hinum vígðu þjónum vegna einbeitts vilja fólksins? Og kannski trúðu þeir því ekki að ekkjan hefði fengið bréf frá Kristjáni IX? Nokkru eftir aldamótin dó annar maður og var hann jarðaður í sama reit. Og nú var reiturinn vígður og rekum kastað í leiðinni á þann sem legið hafði í gröf sinn í fimmtán ár. Síðar fóru fjórir til viðbótar í reitinn. Seinna eða árið 1921 var nýr kirkjugarður tekinn í notkun og svo þegar kirkjan var risin 1926 var gerður grafreitur í kringum hana og öll líkin úr gamla garðinum flutt þangað. Biskup gaf leyfi til þessa – sendir símskeyti til prófastsins í Norður-Múlasýslu 1927 eins og lesa má í bréfabók embættisins:

Sú staðreynd að sveitafólkið fékk að hvíla á heimaslóðum sínum í Hlíðinni að lokinni jarðvist hefur eflaust minnt hina lifandi á að það væri ekki frágangssök að reisa kirkju á staðnum.

Jökulsárhlíðingar höfðu reyndar þegar allnokkru fyrir aldamótin 1900 imprað á því að fá kirkju – og þótt lítið gerðist í þeim málum var sú hugsun ætíð vakandi meðal þeirra.

Dropinn holar steininn. Kirkjan myndi koma fyrr eða síðar.

Mál komust vel á skrið upp úr aldamótunum og heimamenn því hvergi af baki dottnir þegar fyrirhugaða kirkjubyggingu bar á góma. Það lá svo sannarlega í loftinu að kirkja yrði reist.

Fundir voru haldnir 1919 og 1920 og lagt á ráðin með hvernig Kirkjubæjarsókn skyldi skipt í tvennt og var einhugur um það: „...ræður Jökulsá mörkum milli sókna.“ Það var kjarni málsins.

En menn fóru sér ekkert óðslega.

„...hreyfing uppi í Hlíðinni...“

Í bréfabók biskupsembættisins má finna svar biskupsins dr. Jóns Helgasonar við bréfi prófastsins í Norður-Múlasýslu, sr. Einars Jónssonar, dagsett 25. febrúar 1924, en í bréfinu greindi prófasturinn meðal annars frá umræðum um skiptingu Kirkjubæjarsóknar:

Biskupinn skrifar „Í annan stað skýrið þér mér frá því, að hreyfing sé uppi í Hlíðinni að byrja helst í vor á bygging kirkjunnar, og hafið þér verið beðinn að spurjast fyrir um, hvort eigi muni mega eiga víst samþykki kirkjustjórnarinnar að samþykki héraðsfundar fengnu, svo að þeim sé óhætt að byrja á undirbúningi verksins. Viðvíkjandi þessu síðastnefnda atriði, get ég gefið yfirlýsingu um, að af minni hálfu er ekkert því til fyrirstöðu að Hlíðarmenn byrja nú þegar að undirbúa verkið, svo sem þeir óska, því að ég fæ ekki séð neitt það geti héðan af komið fyrir sem gæti orðið sóknarskifting þessari að fótakefli hjá kirkjustjórninni.“

Þetta var í febrúar 1924. Eitthvað gerist í málinu fram í desember því að þá er komið annað hljóð í strokkinn hjá dr. Jóni því að nú er hans herradómi mjög í mun að seinka verkinu. Í bréfabókinni segir:

Áskorun
„Sóknarnefnd skrifað um væntanlega kirkjubyggingu á Sleðbrjót. Skorað á sóknarefnd að athuga hvort ekki væri heppilegast að fresta byggingu vegna kostnaðar á nálægum tíma. Ennfremur skorað á sóknarnefnd að vinna að því, með nýjum samningum við eigendur Sleðbrjóts, að fengist gæti hentugra kirkjustæði nær bænum og tekið fram, að hvorki fáist samþykki til kirkjubyggingar svo fjarri mannbústöðum vegna þess eftirlitsleysis sem af fjarlægðum leiði, né heldur nokkurt lán úr hinum almenna kirkjusjóði.“

Þetta leit greinilega ekki vel út frá sjónarhorni biskupsskrifborðsins í henni Reykjavík í desember 1924.

Svo rennur árið 1926 upp og þá er kannað hvað Hlíðarmenn eiga í sjóði Kirkjubæjarkirkju – í þeirra hlut renna kr. 5. 700. Svo þurfti að útvega byggingarefni. Þetta var hreint ekkert auðvelt mál. 

Í ársbyrjun 1926 fer fram lokaumræða um að reisa kirkju á Sleðbrjót. Biskupinn, dr. Jón, dregur ekkert úr að þessu sinni heldur mælist til þess 1926 að sóknarnefnd verði kosin um leið og byrjað verði á kirkjubyggingunni.

Enda þótt menn vildu sumsé sína kirkju í Hlíðina þá voru ekki allir á einu máli. Svo er ætíð.

Manntalshreppsfundur var haldinn á Sleðbrjót í byrjun febrúar 1926. Á þeim fundi átti að ákveða endanlega hvort reist yrði kirkja eða ekki. Málið mætti allnokkurri andstöðu. Sumum leist ekki á kostnaðinn við að reisa kirkjuna þar sem sóknin væri lítil. Öðrum fannst kannski nærtækara að reisa samkomuhús. Menn spurðu: Er þetta skuldabaggi? „Horfði nú óvænlega hvað það snerti að kirkja yrði byggð,“ segir Geir Stefánsson, afi Stefaníu Malenar í grein sinni í Múlaþingi.

Þá stigu fimm bændur fram. Þeir lýstu því yfir á manntalsfundinum að þeir myndu ábyrgjast að koma kirkjunni upp fyrir 8000 krónur og jafnað yrði á bændur og búalið að flytja efni til byggingarinnar.

Bændurnir fimm

Elías Jónsson, Hallgeirsstöðum
Gunnar Jónsson, Fossvöllum
Björn Guðmundsson, Sleðbrjótsseli
Björn Sigbjörnsson, Surtsstöðum
Stefán Sigurðsson, Sleðbrjót

Þessi ákvörðun skipti sköpum. Og kirkjan reis.

Stefán bóndi Sigurðsson á Sleðbrjót var langafi Stefaníu Malenar, sóknarnefndarformanns. Tengslanetið nær oft langt aftur í sveitinni. 

„Fyrir ofan Sleðbrjótskirkju er minningarlundur um þá bændur sem stóðu að því að reisa kirkjuna. Það er fallegur hringlaga lundur með minnismerki um hina gömlu skörunga,“ segir Stefanía Malen stolt í bragði.

Þannig fór sú saga

Út úr Kirkjubæjarsókn var stofnuð ný sókn, Sleðbrjótssókn; til hennar voru lagðir bæir frá Ketilsstöðum og að Fossvöllum. Sóknarmörkin gátu svosem ekki verið skýrari og höfðu verið þarna um aldir en það var sjálf Jökulsá á Brú. En sóknin varð ekki til fyrr en kirkjan reis.

Kirkjan er steypt. Og víst er að handhrært var í hana. Það hefur verið mikið verk. Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, teiknaði.

Sleðbrjótskirkja var vígð á sumardegi, 10. júlí 1927. Það var prófasturinn sr. Einar Jónsson sem vígði. Biskupinn dr. Jón Helgason vísiteraði hana aldrei. Kannski stóð bara þannig á hjá honum því að hann var jafnan duglegur að vísitera.

Biskup á Sleðbrjót

Eftirmaður dr. Jóns Helgasonar, herra Sigurgeir Sigurðsson, vísiteraði Sleðbrjótskirkju fyrstur biskupa í júlíbyrjun 1941. Sonur hans, Pétur Sigurgeirsson, síðar biskup, var ritari í þessari vísitasíu - þá 22ja ára gamall, og skrifar:

„Kirkjan stendur á Sleðbrjótsmóum ... hún er turnlaus í kapellustíl.“

Og faðir hans biskupinn veltir vöngum og fer á flug – kominn í málaragallann – og sonurinn skrifar:

„...biskup kom að ýmsu er verða mætti til þess að fegra hana og skreyta að innan. T.d. að mála að nýju kórinn, loftið himinblátt með gylltum stjörnum. Ennfremur að mála bogann fyrir aftan myndina bláan. Hvelfingu kirkjunnar einnig bláa, en veggi alla og prédikunarstól hvítan.“

Það hefur eitt og annað breyst frá þessari vísitasíu herra Sigurgeirs.

En kirkjan stendur þarna í Hlíðinni. Falleg og reisuleg. Utan sem innan. Með sína sögu og sitt fólk. Nú er komið aðstöðuhús skammt frá sem auðveldar margt í kirkjustarfinu. En það sem er fyrir mestu að fólk er ánægt með kirkju sína og ann henni. Það þekkir sögu hennar og enda þótt samgöngur séu allt aðrar í nútímanum en fyrrum: góðir vegir og öflugir bílar, þá breytir það engu.

Þetta er kirkja fólksins í Hlíðinni.

Þetta er ein af litlu sóknum landsins.

Þetta er þjóðkirkjan.

hsh


Sleðbrjótskirkja


Sameiginlegur kór Sleðbrjótskirkju og Kirkjubæjarkirkju - Jón Ólafur Sigurðsson við orgelið

  • Leikmenn

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Frétt

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði