Viðtalið: Þurfum að komast úr spennitreyju „prestakirkjunnar“

17. júlí 2020

Viðtalið: Þurfum að komast úr spennitreyju „prestakirkjunnar“

Dr. Hjalti Hugason, prófessor

Fyrir nokkru var vakin athygli hér á kirkjan.is á viðbrögðum danskra við yfirvofandi prestaskorti í Danmörku. Danir hyggjast bregðast við með þeim hætti að gera fólki kleift að sækja um prestsembætti enda þótt það hafi ekki að baki hefðbundna guðfræðimenntun sem krafist hefur verið hingað til. Til þess þarf lagabreytingu og hefur danski kirkjumálráðherrann, Joy Mogesen, lagt fram frumvarp þess efnis. Frumvarp ráðherrans gerir ráð fyrir því að hinir nýju prestar hafi háskólamenntun enda þótt hún sé í öðrum greinum en guðfræði en þeim verði gert skylt að heyja sér menntun í henni. Þau sem hyggjast ganga til þjónustu við kirkjuna eftir þessari nýju leið þurfa semsé að sækja danska prestaskólann og afla sér auk þess margvíslegrar viðbótarmenntunar. Þessi viðbótarmenntun verði fléttuð úr greinum sem taki mið af þeirri menntun umsækjandans sem hann eða hún hefur þegar fengið.

Nokkur umræða hefur farið á milli íslenskra presta um málið.

Maður sem þekkir til
Kirkjan.is ræddi við dr. Hjalta Hugason, prófessor við guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands, um málið, en hann er þaulkunnugur menntunarmálum presta í fortíð og nútíð. Auk þess hefur hann setið á kirkjuþingi sem fulltrúi deildar sinnar og látið að sér kveða í umræðum um skipulag kirkju og fleira sem að því lýtur.

Afhjúpar margt áhugavert

Hvað líst þér á þessar hugmyndir eins og þær koma í frumvarpi danska ráðherrans?

„Hér er auðvitað engin róttæk nýjung á ferðinni. Þvert á móti er sú leið sem boðuð er í danska frumvarpinu algengasta úrræðið sem beitt er til að bregðast við „prestaskorti“. Þar á ég við að skilyrðum til embættisgengis er breytt með því að rýmka þær mentunarkröfur sem gerðar eru til verðandi presta,” segir dr. Hjalti og bætir við að á hinn bóginn afhjúpi frumvarpið ýmis áhugaverð atriði hvað varðar stöðu dönsku kirkjunnar og samband hennar við ríkið.

Kirkjan ráði en ekki ríkið 
Dr. Hjalti segir: „Það er t.a.m. athyglisvert að það skuli vera verkefni ráðherra að bregðast við „prestaskorti“. Samkvæmt núgildandi þjóðkirkjulögum okkar væri það vissulega eins hér þar sem lagabreytingu þyrfti til og það væri hlutverk ráðherra að bera fram frumvarp þar að lútandi. Þetta sýnir í hve ríkum mæli þjóðkirkjurnar tvær, sú danska og íslenska, eru enn í raun miklar ríkiskirkjur. Í endurskoðuðum þjóðkirkjulögum hér er nauðsynlegt að búa svo um hnútana að málefni af þessu tagi verði alfarið á borði kirkjunnar sjálfrar.”

Kirkjan að missa ítök

Dr. Hjalti segir að frumvarpið sýni ljóslega að danska kirkjan sé að missa ítök í samfélaginu og á meðal þjóðarinnar þar sem nýliðun er orðin svo treg að hún kalli á breytingu af þessu tagi. Það geti einnig verið að vandinn sem frumvarpinu sé ætlað að leysa afhjúpi ákveðinn galla á danskri prestsmenntun sem honum hefur virst vilja dragast nokkuð mikið á langinn hjá mörgum guðfræðistúdentum.

Hann tekur þó fram að mat hans byggi á kynnum sem hann öðlaðist á málefninu fyrir nokkuð löngu síðan og hugmyndir hans í þessu efni kunni því að vera löngu úreltar.

Felst í þessum tillögum einhvers konar gjaldfelling á guðfræðinámi? Eða er þetta bara tímabundin útfærsla í ákveðnum aðstæðum?

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir endurskoðun að áratug liðnum. Þetta gæti því orðið tímabundið úrræði. Það er þó ekkert víst. Hvort sem um aðstreymis- eða frástreymisvanda er að ræða í hefðbundinni danskri prestsmenntun breytast aðstæður ekki af sjálfu sér á tíu árum. Þvert á móti þarf að bregðast við með einhverju móti. Mér finnst satt að segja ekkert sérstaklega líklegt að horfið verði til núverandi ástands eftir tíu ár. Það er hugsanlega heldur ekkert æskilegt.

Mér sýnist alls ekki að frumvarpið gjaldfelli hefðbundið guðfræðinám á neinn hátt. Það er raunar dálítið íhaldssamt að því leyti að það gefur engan afslátt hvað menntunarskilyrði áhrærir. Þvert á móti má segja að aukið sé í. Víða þar sem brugðið hefur verið á svipað ráð hefur verið slegið af kröfunum þótt oft hafi þá verið gert ráð fyrir að fólk lyki guðfræðinámi meðfram starfi.”

Klæðskerasaumað nám eins og hempa

Dr. Hjalti segir að samkvæmt frumvarpinu sé áfram gert ráð fyrir að prestsefni hafi lokið kandídatsnámi eða ígildi þess frá viðurkenndum háskóla þótt það þurfi ekki að vera á sviði guðfræðinnar. Þá sé gert ráð fyrir að fyrir vígslu hafi umsækjendur lokið 2–3 ára námi í þeim greinum guðfræðinnar sem sérstök hæfisnefnd telur hvern og einn helst þurfa á að halda miðað við fyrra nám og loks að viðkomandi hafi lokið námi í kennimannlegum fræðum við prestaskólann eða „Pastoralseminariet“. Sá eða sú sem fái vígslu að þessum kröfum uppfylltum hafi því raunar meiri en ekki minni menntun en guðfræðikandidat. Menntunin sé bara öðru vísi saman sett.

„Það sem kennari rekur augun þó í að kröfurnar um viðbótarmenntunina eru svolítið loðnar hvað umfang varðar,” segir dr. Hjalti, „gert er ráð fyrir tveggja til þriggja ára námi. Kennari mundi auðvitað frekar vilja að umfangið væri tilgreint í námseiningum. Leiðin sem farin er ræðst þó líklega af því að viðbótarnáminu er ætlað að vera klæðskerasaumað á hvern og einn líkt og hempan! Það þarf því bæði að vera til staðar sveigjanleiki hvað inntak og umfang áhrærir reikna ég með.”

Kirkjan.is spyr hvort með tillögunum sé sleginn nýr tónn og ferskur vinkill settur á guðfræðinámið þar sem bakgrunnur prestsefnis kunni að verða mun fjölbreytilegri en hingað til.

„Hér er vissulega um viðbrögð við upp komnum vanda að ræða og það kann að ráða miklu um framkvæmdina og þau áhrif sem breytingin hefur. Eftir sem áður er embættispróf í guðfræði grunnviðmiðun varðandi embættisgengi. Af þeim ástæðum er hætt við að gömlu kandídatarnir gefi tóninn og allir reyni að leika eftir þeim í prestsskapnum. Allt öðru máli væri að gegna ef gengið væri róttækar til verks og skilyrðin fyrir embættisgengi væru skilgreind alveg upp á nýtt. — Nú eða prestsmenntunin endurhugsuð frá grunni. Við þær aðstæður er líklegra að sveigjanleg skilyrði og mismunandi menntun nýttust í raun og veru sem breytingaafl.”

Fjölbreyttur námsbakgrunnur æskilegur

Dr. Hjalti segir að hann hafi lengi verið þeirrar skoðunar að það væri ekkert sérstaklega æskilegt — nema síður væri — að allir prestar kirkjunnar hefðu nákvæmlega sömu menntunina.

Prestsstarfið í nútímanum mjög fjölbreytt
„Raunar er samræmt embættispróf í guðfræði arfur frá einveldistímanum,” segir dr. Hjalti, „og var svo sem eðlilegt að þess væri krafist meðan prestar voru konunglegir embættismenn. Nú á dögum er prestsstarfið — að ekki sé nú talað um kirkjulega þjónustu almennt — á hinn bóginn svo fjölbreytt að það er raunar alveg fráleitt að gæði prestsmenntunarinnar séu best tryggð með samræmdu mag. theol.-prófi eða hliðstæðu þess.”

Kirkja sem umhverfishreyfing og mannréttindahreyfing

Hann segir það ekki vera ókost í kirkju sem vilji líta á sig sem umhverfishreyfingu að sumir prestar hennar hafi menntun í náttúruvísindum. Kirkja sem vilji líta á sig sem mannréttindahreyfingu hljóti að græða á því að hluti af starfsmönnum hennar hafi félagsvísindamenntun af ýmsu tagi. Þá gæti það verið kostur að hluti af prestunum væri menntaður í menningarfræðum af einhverjum toga og svo mætti lengi telja.

„Ég tel raunar brýnt að endurskoða prestsmenntun okkar út frá þessu sjónarhorni, þ.e. að stórauka fjölbreytnina án þess að endilega sé slakað á kröfum um kennimannleg fræði. Það fyrirbæri má svo skilgreina ansi vítt,” segir dr. Hjalti og bætir því við að í huga hans sé t.d. ekkert langsótt að líta á kirkjusögu sem kennimannlega grein!

„Í þessu samband hef ég stagast á því við samstarfsfólk mitt við guðfræði- og trúarbragðafræðideildina að á tímabilinu 2020–2022 sé upp undir helmingur kennaranna í úreldingarferli. Þar á meðal ég sjálfur!” segir prófessorinn með bros á vör. „Þetta tækifæri á auðvitað að grípa til að endurhugsa guðfræðinámið frá grunni þar sem samsetning kennarahópsins er mesta bremsan þegar að breytingum kemur. Það þarf sem sé að tryggja öllum næga kennslu. Fram til 2022 er aftur á móti svigrúm til að hugsa frítt. Ég er nú ekkert sérstaklega bjartsýnn á að það verði gert!”


Getur komið að því að við þurfum að grípa til svipaðra aðgerða og Danir hyggjast fyrir?

„Það fer nú eftir ýmsu. Ef við gerum ekkert og látum tímann líða reikna ég alveg með að það komi upp svipaðar aðstæður hér,” segir dr. Hjalti. „Kringum síðustu aldamót kallaði ég ákaft eftir að gerð væri áætlun um væntanlega þörf kirkjunnar fyrir presta næstu áratugina. Viðmælendum mínum í kirkjunni fannst það hreinn óþarfi. Þörfin væri alveg þekkt, svona 1–2 prestar á ári. Ég fékk ekki einu sinni upplýsingar um aldursdreifingu prestanna til að skoða þetta sjálfur. Nú eru aftur á móti ýmsir farnir að óttast „prestaskort“ hvað sem það nú merkir í nútímanum.”

Vandað skipulag – eða skipulagsvandi?
„Það er köllun þjóðkirkjunnar og ætti að vera lögboðin skylda hennar að halda uppi vandaðri kirkjulegri þjónustu um land allt og tryggja að landsmenn allir fái notið hennar eftir því sem hver og einn óskar — innan skynsamlegra marka auðvitað!” segir dr. Hjalti. „Þetta þýðir alls ekki að til þess þurfi kirkjan einhvern fast ákveðinn fjölda presta, t.d. þannig að mögulegt sé að manna öll núverandi prestaköll. Ég get ekki séð að um „prestaskort“ geti verið að ræða fyrr en verulegur biðlisti er kominn eftir að fá skírn eða kvöldmáltíð, þ.e. að sakramentum kirkjunnar. Ef svipaðar aðstæður myndast sem sé í kirkjunni og eru í heilbrigðiskerfinu nú skal ég skrifa upp á að „prestaskortur“ sé til staðar. Annars er bara um skipulagsvanda og/eða íhaldssemi í starfsháttum að ræða. Líklega er danska frumvarpið fyrst og fremst vísbending um einhvern slíkan vanda.”

Hann segir að ef kirkjan nýti sér ekki það svigrúm sem hún hefur nú fengið til að endurhugsa starfshætti sína og mannauðsstefnu með tilliti til hlutverks síns og samfélagsaðstæðna þá telji hann að við þurfum í sjálfu sér alls ekki að endurhugsa skilyrðin fyrir embættisgengi hér í náinni framtíð.

Hvernig gætu djáknar komið við sögu þar sem presta skortir?

„Ég held að mörg okkar spyrji sig þessarar spurningar en hún er alveg yfirgengilega geld í raun og veru!” segir prófessorinn ákveðinn á svip. „Eins og ég drap á áður er langt í að hér geti komið upp einhver raunverulegur „prestaskortur“ enda er merking þess orðs gríðarlega afstæð. Þetta er allt spurning um starfshætti.”

Hann segir að djáknum sé ekki ætlað að hlaupa í skarðið fyrir presta eða koma í staðinn fyrir þá. Kirkjan sé bæði biðjandi, boðandi og þjónandi og inn í þann veruleika er prestum og djáknum ætlað að koma hverjum og einum út frá eigin forsendum.

Úr spennitreyjunni 
Dr. Hjalti segir: „Við þyrftum að komast úr spennitreyju „prestakirkjunnar“. Í náinni framtíð þarf að marka nýja stefnu í skipulagi og starfsháttum þar sem gengið er út frá þörfum landsmanna bæði í þéttbýli og dreifbýli fyrir kirkjulega þjónustu. Markmiðið ætti að vera að tryggja fjölbreytni í þjónustunni um land allt. Til þess þarf skipulag sem ekki gengur endilega út frá prestaköllum og blandaða starfshópa þar sem prestar, djáknar, kirkjutónlistarfólk, æskulýðsleiðtogar og ýmsir aðrir starfa saman á þann hátt sem þörfin krefur á hverjum stað.”

Nýtt tækifæri sem verður að nota

„Ef kirkjan notar þær nýju aðstæður sem upp eru komnar eftir endurskoðun kirkjujarðasamkomulagsins og vonandi þjóðkirkjulaganna í náinni framtíð er langt, langt í að „prestaskortur“ geri vart við sig hér. Nú, ef við á hinn bóginn höfumst ekkert að er hann væntanlega á næsta leyti. Við honum verður þá sjálfsagt brugðist á klassískan hátt líkt og Danir eru að gera nú en ósköp væri það nú bágt!” segir dr. Hjalti að lokum.

hsh
  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Lilja Dögg og forsetahjónin

„Sögustaðir efla samkennd okkar“

22. júl. 2024
...segir menningarráðherra á Skálholtshátíð
Forseti Íslands kom á málstofuna

"Húmorinn var aldrei langt undan"

20. júl. 2024
...málstofa til minningar um sr. Karl Sigurbjörnsson
Málþingið var fjölsótt

"Stríðið gæti þróast yfir á Vesturbakkann"

20. júl. 2024
...áhrifamikið málþing á Skálholtshátíð