Viðtalið: Ungur maður og forn fræði

23. júlí 2020

Viðtalið: Ungur maður og forn fræði

Sigurður Már Hannesson, í Seltjarnarneskirkju en þar var hann í starfsþjálfun

Leiðir fólks í lífinu eru margar og ekki alltaf ljóst hvað rekur fólk á þá staði sem það fer um.

Skyndilega er fólk komið á stað sem því datt ekki í hug að það kæmi á en þó veldur það því ekki alltaf mikilli undrun eða uppnámi. Kemur kannski ekki á óvart þegar öllu er á botninn hvolft og segir kannski við sjálft sig, já, einmitt, mér flaug það stundum í hug. En þó. Jahérna.

Í kringum ungan mann er fólk sem menntað er í viðskiptum og hagfræði.

Sigurður Már Hannesson er fæddur árið 1990

og fer í Verzlunarskólann sem er flottur skóli og frægur. Enda eftirsóttur. Og með zetu – geri aðrir skólar betur! Stúdentshúfa sett upp með pompi og prakt. Og hvað annað en að fara í viðskiptafræði í háskólanum?

Á sumrin vinnur hann hjá Vegagerðinni allt frá unglingsárum. Kann vel við sig í útivinnu, síðast sem flokksstjóri með nokkra starfsmenn sem fást við að mála kanta, laga vegastikur og sitthvað annað á vegum úti sem ekki allir sjá nema það sé ekki eins og það á að vera. Allt gert til þess að halda fólki á hinum rétta vegi – þó ekki of breiða vegi því að hann liggur til glötunar samkvæmt Matteusarguðspjalli 7.13.

En það er önnur saga!

Hann hafði alltaf litið á sig sem kristinn mann. Einhvern veginn inngróið í hann strax í foreldrahúsum að bera virðingu fyrir kirkju og kristinni trú án þess að einlægt væri verið að boða honum guðsorð fyrir utan það sem hann tók upp í sunnudagaskóla og TTT-starfi kirkjunnar.

En hann velti oft vöngum yfir trúnni og merkingu hennar. Og segir að hann hafi „áunninn áhuga,“ á kristinni trú sem hafi skilað honum þangað sem hann er nú staddur í lífinu.

Ungur hugsandi maður.

Þeir eru margir slíkir – og fleiri en okkur grunar.

Og leiðir þeirra í lífinu eru margar.

Dropinn holar steininn. Eða gott orð ber ávöxt.

En viðskiptafræðin átti ekki huga hans – hann fann það eftir tvö ár þar.

Gömul frænka áhrifavaldur

Sigurður Már bankar upp á í guðfræðinni. Þar finnur hann sig. Í fornum fræðum og nýjum. Í háskólagrein sem er samofin fortíð, nútíð, list, sögu og samtali. Manneskja og Guð eigast við – eins og á öllum öldum. Þá og núna.

Gömul frænka Sigurðar Más arfleiðir hann að Viðeyjarbiblíunni sem kom út 1841. Það er stór og falleg bók.

„Já, og ég ákvað að skrifa BA-ritgerð um þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar á Jesajabók í Viðeyjarbiblíunni,“ segir Sigurður Már.

Sveinbjörn Egilsson
Menn hafa löngum talið Viðeyjarbiblíuna vera góða þýðingu og vel heppnaða. Sá kunni maður lærdóms og anda Sveinbjörn Egilsson (1791-1852) var talinn eiga þar drjúgan þátt. Í BA-ritgerð sinni rakti Sigurður Már í stuttu máli útgáfusögu Biblíunnar á íslensku, athugaði hverjir stóðu að þýðingu Viðeyjarbiblíunnar. Rýndi svo í nokkur þýðingardæmi úr Jesajabókinni og bar þau saman við eldri sem nýrri þýðingar og spurði hver væru þýðingareinkenni Sveinbjarnar og sérstaða þýðingar hans í Viðeyjarbiblíunni umfram aðrar íslenskar biblíuþýðingar.

Meginniðurstaðan hjá Sigurði Má um þýðingu Sveinbjarnar á þeim textabrotum sem hann skoðaði í ritgerð sinni er að þýðandinn hafi gert textann auðlæsilegan til dæmis hvað snertir orðaröð í setningum. Þá hafi stafsetning Viðeyjarbiblíunnar verið mikil framför frá fyrri þýðingum. Sigurður Már segir Viðeyjarbiblíuna vera dæmi um „vel heppnaða málrækt.“ Sveinbjörn þýði ekki alltaf orðrétt úr frumtexta og taki sér stundum skáldaleyfi.

Þannig bar arfur gömlu frænkunnar ávöxt með sínum hætti og hún eflaust sæl með það í sælureitnum góða og eilífa.

Biblíuútgáfa er vandaverk

„Þegar fólk kemst á snoðir um að maður sé að læra guðfræði þá er oft gaukað að manni gömlum bókum,“ segir Sigurður Már. „Það eru oftast gamlar sálmabækur og fyrir það er maður þakklátur.“ Flestir þekkja þá ónotatilfinningu ef þarf að henda bókum og sér í lag i ef það eru guðsorðabækur. Og margur sem á ættmenni sem leggja stund á guðfræði sjá í honum eða henni áfangastað gamla guðsorðsins sem kann að leynast á heimilinu – enn þykir fólki óguðlegt að henda guðsorði í sorpið.

Og Sigurður Már hefur vissulega áhuga á gömlum bókum og segist vera safnari í sér.

„Ég keypti Hendersonbiblíuna á uppboði,“ segir hann glaður í bragði. Kirkjan.is samfagnar honum og veit að ekki eiga allir þá frægu Biblíu og merku – eins og reyndar allar íslensku Biblíurnar eru í sjálfu sér.

Grútarbiblían 
Hendersonbiblían fékk reyndar óvirðulegt og háðulegt uppnefni, Grútarbiblían, vegna meinlegrar prentvillu - þar sem standa átti Harmagrátur Jeremía, stóð Harmagrútur... . Hendersonbiblían var gefin út 1813. Sá sem las próförkina hefur sennilega dottað illilega við lesturinn, harmagrátur varð að harmagrút á bls. 992-999. Harmagrútur kemur fyrir sjö sinnum bæði í fyrirsögn og síðutitlum og sumir hafa því spurt sig hvort þetta sé ekki eitthvað annað en prentvilla – jafnvel að um ásetning hafi verið að ræða en erfitt er að kveða upp úr um það með óyggjandi hætti. En sérstakt er það engu að síður.

Viðeyjarbiblían var stundum kölluð Jedóksbiblían
Annað dæmi fyrir biblíuáhugafólk til að kíma yfir – enda þótt á þeim tíma hafi kannski margur nákvæmnismaðurinn tekið andköf yfir er það bar fyrir augu – er úr Viðeyjarbiblíunni 1841 (og hélst í útgáfunni 1859) þar sem þýðandinn sem studdist við þýska biblíuþýðingu og þýddi atviksorðið jedoch blákalt: „Jedók, dóttir Faraós kom, úr Davíðs stað í sitt hús,...“ (1. Konungabók 9.24). Þýska orðið jedoch þýðir hins vegar þó, eða samt sem áður. Er ekki sérnafn. En þarna fékk sumsé dóttir faraósins nafn um stund, Jedók, og bar það hér á Fróni í 71 ár – eða til ársins 1912 þegar ný Biblía kom út og nafns hennar ekki getið enda ekki vitað. En nafnið var ekki svo slæmt í sjálfu sér. Mannanafnanefnd gæti örugglega samþykkt það.

Pælt í Steinsbiblíu

En Sigurður Már var ekki alveg búinn að segja skilið við gamlar Biblíur. Nú varð það Steinsbiblía sem varð viðfangsefni lokaritgerðar hans við guðfræðideildina og tengdist það BA-ritgerð hans með þeim hætti að athugun hans á Viðeyjarbiblíunni leiddi það í ljós að þýðing Sveinbjarnar virtist stundum byggja meira á Steinsbiblíu en öðrum eldri þýðingum. Steinsbiblía hefur jafnan ekki verið mikils metin vegna þess hversu dönskuskotin hún er. Kom því nokkuð á óvart að málvöndunarmaðurinn Sveinbjörn Egilsson skyldi halla sér að henni í einhverjum tilvikum.

Og hver er svo þessi Steinsbiblía?

Á titilblaði hennar segir að hún sé prentuð á Hólum 1728 en það mun hafa tekið ögn lengri tíma og ártalið ekki alveg rétt – ætti kannski að vera 1734. Steinn biskup fékk leyfi konungs til að prenta Biblíuna en með því skilyrði að gera nýja þýðingu eftir danskri Biblíu. Steinsbiblía var í þægilegu broti (miðað við fyrri útgáfur!) en var dýr – og pappírinn lélegur. Textinn var í tveimur dálkum sem var nýlunda. En það sem dró úr áliti á henni var að textinn var skjótt metinn mjög lakur. Biskupinn sem hún er kennd við, Steinn, var biskup á Hólum, fæddur 1660 og dáinn 1739.

Niðurstöður Sigurðar Más leiddu í ljós: 

að Steinsbiblía er að vissu leyti dönskuskotin, en þó ekki í þeim mæli sem orðspor hennar bendir til.  

að áhrif dönskunnar koma einkum fram í orðréttri þýðingu Steins á textum dönsku Biblíunnar frá 1647, birtist einkum í orðaröð. Textauppbygging dönsku Biblíunnar var flókin enda var hún nánast orðrétt þýðing, hliðholl frumtextanum, og þegar Steinn þýðir orðrétt úr henni, kemur hún fram.

að þýðingar Steins biskups á einstaka orðum sýna að hann velur einkum orð sem voru talin góð og gild á hans tíma. Dæmi um það er sögnin: bífala. Í Guðbrandsbiblíu var notuð sögnin að boða, danski textinn notaði bode. Steinn biskup hugsaði sér að nota „gott og gilt“ íslenskt orð, bífala. Hafa skal í huga að mál íslenskra menntamanna var mjög svo dönskuskotið á þessum tíma.

Öllum Biblíuþýðingum er tekið með gagnrýni sem er ýmist mjúk eða hörð – Biblíulesendur eru íhaldssamir og vilja ógjarnan láta breyta miklu í textanum og allra síst í þekktum og mikilvægum textum. Steinsbiblía var gagnrýnd harðlega og svona útskýrði dr. Guðrún Kvaran ástæður hinnar hörðu gagnrýni sem Biblía Steins fékk: 

Dr. Guðrún Kvaran skrifar: „Meginástæða þess er líklegast sú að mönnum hefur þótt texti Steins víkja um of frá kunnuglegu orðfæri. Hann víkur víða frá þeirri biblíumálshefð sem ríkt hafði að minnsta kosti frá 1540 og tekur upp hversdagslegri orð í skiptum fyrir önnur hátíðlegri.“ (Morgunblaðið 25. september 2004).

Biblían og menningin

Biblíur geyma menningarsögu – líka áhrifasögu. Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í guðfræði og ritskýringu Gamla testamentisins, er frumkvöðull í skrifum um áhrifasögu guðfræðinnar í íslenskri menningarsögu – sjá til dæmis hina gagnmerku bók hans: Áhrifasaga Saltarans, frá 2014. - Ritgerðir sínar skrifaði Sigurður Már undir handleiðslu hans.

Útgáfa Biblíunnar á öllum tímum flokkast undir áhrifasögu. Það er ekki einasta sjálft efni biblíuritanna sem um er að ræða og er viðfangsefni guðfræðinga og trúaðs fólks heldur hvernig það er sett fram í íslensku máli – inn í íslenska menningu. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í hvílíkt tímamótaverk útgáfa Guðbrandsbiblíu árið 1584 var og hvernig áhrif hennar hrísluðust um allt menningarlíf Íslendinga þá og allt fram á þennan dag.

Málfar á Biblíum hefur áhrif á mál fólks og einkum fyrr á öldum þegar texti Biblíunnar var kunnari fólki en nú. Bæði lesinn á heimilum og kirkjur bændasamfélagsins voru ákveðnar menningarmiðstöðvar hver í sinni sveit – þar heyrði fólk lesið úr ritum Biblíunnar. Texti helgra rita – ásamt öðrum ritum, fornsögum, lagði því smám saman í þann breytilega grunn sem íslensk tunga þróaðist upp úr. Ekki má svo gleyma húslestrunum þar sem ýmist var lesið úr Biblíunni sjálfri eða hugvekjubókum – postillum.

Íslensk kirkja á bjarta framtíð fyrir sér þegar ungt fólk, karlar og konur, nema fræðin og útskrifast.

Nú er Sigurður Már nýútskrifaður úr guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands.

Hann hefur þegar fengið starf. KSH- eða kristilega skólahreyfingin hefur ráðið hann til sín. Hann segist hlakka til að hefja störf sem verður um miðjan ágúst. Kirkjan.is óskar honum velfarnaðar í starfi og til hamingju með ritgerðina og þakkar fyrir spjallið um hin fornu fræði - sem eru oft býsna ný þegar upp er staðið.

hsh

Íslenskar biblíuútgáfur
Guðbrandsbiblía 1584
Þorláksbiblía 1644
Steinsbiblía 1728
Vajsenhússbiblía 1747
Hendersonbiblía 1813
Viðeyjar- og Reykjavíkurbiblía 1841 og 1859
Lundúnabiblían 1866
Biblían 1912/1814
Biblían 1981
Biblían 2007

Lesendum skal bent á stutt og gagnort yfirlit yfir íslenskar biblíur eftir sr. Sigurð Ægisson, sem heitir: Íslenska Biblían – ágrip rúmlega fjögurra alda sögu, og kom út 2015.


Meistari og lærisveinn:
Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor, og Sigurður Már Hannesson


SIgurður Már blaðar í Steinsbiblíu 

Kristilega skólahreyfingin er hreyfing fólks sem vinnur að því að sameina kristna nemendur trú þeirra til uppbyggingar og efla þá í að vitna um Jesú Krist í skólanum sem utan skóla. Skólahreyfingin er regnhlíf sem nær yfir stjórn hennar og starfmann, aðildarfélögin KSS og KSF, óformlega skólasmáhópa og stuðningsaðila sem styðja starfsemina með bæn og frjárframlögum.“ (Af heimasíðu KSH).


  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar