Lifandi kirkja í safni

2. ágúst 2020

Lifandi kirkja í safni

Sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir bakvið kórskil í kirkjunni

Þær voru ekki margar messuauglýsingarnar í Mogganum um þessa helgina. Enda hafa margir söfnuðir hægt um sig um verslunarmannahelgina – og auglýsingar blaðsins alls ekki tæmandi fyrir kirkjulegt starf.

Sumarhelgistund var auglýst í Safnkirkjunni í Árbæ. Sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir sá um stundina, félagar úr kór Árbæjarkirkju leiddu söng og Reynir Jónasson var við hljóðfærið. Kirkjuvörður var Sverrir Sveinsson – hann er öllum hnútum kunnugur á staðnum, bjó í Árbænum í hálfa öld en er nú fluttur – var um tíma kirkjuvörður í Árbæjarkirkju.

Sr. Petrína sagði þetta vera í þriðja sinn sem helgihald væri í Safnkirkjunni um verslunarmannahelgi. „Kirkjan er vinsæl til giftinga,“ sagði sr. Petrína Mjöll, „svo er helgihald hér á öðrum degi jóla.“

Nokkru áður en sumarhelgistundin hófst bryddaði á áhyggjum um hvort unnt yrði að virða 2ja metra fjarlægðarregluna. Fólk ræddi málið fyrir utan kirkjuna og blíð gola lék um kinnar. Kirkjan er lítil og tekur um 80 manns í sæti. Þær áhyggjur reyndust ástæðulausar því að fámennt var - en góðmennt að sjálfsögðu. Ljóst er að fólk heldur sig frá samkomum vegna kórónuveirufaraldurs.

Og sumarhelgistundin fór af stað. Reynir Jónasson, margreyndur organisti og músíkant, settist við orgelið og sagði um leið með milt og kímið glott á vör: „Hætti fyrir sautján árum.“

Safnkirkjan er einstaklega falleg og ilmar öll af viði og tjöru – ekki langt síðan að hún var tjörguð að utan. Lifandi kirkja og þilið mjúkt og setfjölin stutta svo slétt og gljáandi. Fyrir stundina kveikti prestur á kertum á þili kirkjunnar, beggja megin, og kyrr loginn kyrrði hugann ósjálfrátt.

Allir tók hressilega undir sönginn og fylgdu vel víxllestri úr sálmabókinni.

Laura og Árbær Sr. Petrína Mjöll prédikaði af sinni kunnu snilld af hógværð og lítillæti. Hún er kona orðsins og kann til verka á þeim vettvangi. Í gamalli torfkirkju talaði hún beint inn í nútímann með skeleggum hætti. Þar kom saga einnar kirkjuklukkunnar til umræðu og rifjaði sr. Petrína Mjöll upp athyglisverða frásögn ljósmóður nokkurrar sem var um borð í strandferðaskipinu Lauru 1910 þegar það strandaði fyrir utan Skagaströnd. Um borð voru og franskir sjómenn sem höfðu nokkru áður lent í strandi og var þetta því þeirra annað strand. Skipsbjallan úr strandferðaskipinu hljómar nú í klukknaporti safnkirkjunnar.

Hús og torfkirkja

Árbæjarsafn er upptökuheimili húsa. Þangað hefur húsum verið safnað af ýmsum ástæðum og sennilega flestum vegna þess að þau voru ekki velkomin þar sem þau voru. Þau urðu að víkja fyrir öðrum. Fara.

Og þau fóru að heiman í misjöfnu ástandi - sem betur fer ekki í eldinn sem guðspjall dagsins talar um því að margt var heilt í þeim þótt sitthvað væri fúið vegna hirðuleysis mannanna.

Síðan kom tími þeirra og þau voru gerð upp. Þá kom enn betur í ljós fegurð þeirra og saga – hvort tveggja hafði verð mönnum kunnugt og þess vegna voru þau varðveitt.

Úr ýmsum áttum Þar er Safnkirkjan í Árbæ, torfkirkja, í túninu norðan við gömlu bæjarhúsin. Nafn ber hún með rentu. Hún er ekki aðeins höfuðprýði Árbæjarsafns heldur og var viðum safnað í hana á sínum tíma, úr Silfrastaðakirkju í Skagafirði og ýmsum gömlum húsum í Reykjavík sem höfðu verið rifin. Gripir hennar og áhöld hafa og safnast úr ýmsum áttum. Orgelharmóníum hennar var til að mynda í eigu Sigvalda Kaldalóns, tónskálds.

Litla torfkirkjan er þess vegna safnkirkja í að minnsta kosti tvenns konar merkingu. Og kannski ekki síst í hinni þriðju merkingu sem er sú mikilvægasta þegar öllu er á botninn hvolft: að safna fólki saman í kringum orð Guðs og sakramenti.

Þrjár eru klukkurnar í Safnkirkjunni sem kalla til guðsþjónustu – og þær eru líka komnar úr ýmsum áttum eins og margt á þessum stað, úr strönduðum skipum, strandgóz sem eitt sinn var svo kallað.

Hljómur þeirra er sérstakur og aldrei var þeim ætlað þetta hlutverk en ein þeirra hafði þó hlaupið um tíma í annað starf, verið skólabjalla.

Nú hringja þær inn til sumarhelgistundar í Safnkirkjunni.

Smiður Safnkirkjunnar var Skúli Helgason (1916-2002), frá Svínavatni í Grímsnesi. Dr. Kristján Eldjárn (1906-1982), þá þjóðminjavörður og síðar forseti, var honum til ráðuneytis um smíð kirkjunnar og endurbætur á kirkjubúnaði. Kirkjan var smíðuð 1960-1961. Skrúðhúsið var byggt 1964.

Systurkirkja Safnkirkjunnar í Árbæ er Víðimýrarkirkja í Skagafirði því að hún líkist henni um margt.

Safnkirkjan (þá Árbæjarkirkja) var vígð 1961.

Kirkjuklukkur Íslands bera okkur hljóm klukknanna í Safnkirkjunni í Árbæ.

hsh


Reynir Jónasson við orgelið


Sverrir Sveinsson hringir klukkum Safnkirkjunnar


Auglýsingar í Morgunblaðinu um helgihald um verslunarmannahelgina


  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju