Sr. Elín Salóme Guðmundsdóttir, pastor emerita, kvödd

16. ágúst 2020

Sr. Elín Salóme Guðmundsdóttir, pastor emerita, kvödd

Sr. Elín Salóme Guðmundsdóttir

Sr. Elín Salóme Guðmundsdóttir, fyrrum prestur í Patreksfjarðarprestakalli, lést föstudaginn 14. ágúst, á Líknardeildinni í Kópavogi.

Hún fæddist 3. desember 1951 að Fremra-Ósi í Bolungarvík. Foreldrar hennar voru þau Sigríður Jakobsdóttir og Guðmundur Árnason sem voru bændur þar vestra.

Eiginmaður hennar var Þórður Adolfsson, flugumferðarstjóri, og slitu þau samvistum. Eignuðust þau þrjú börn: Soffíu Kristínu, Þórdísi Ögn, og Sölva.

Sr. Elín Salóme lauk textílkennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1971. Síðan var hún einn vetur við nám í Húsmæðraskólanum að Staðarfelli. Hún kenndi um árabil í ýmsum skólum og rak í rúman áratug fyrirtæki með eiginmanni sínum.

Meðfram kennslu og öðrum störfum hóf hún nám í guðfræðideild Háskóla Íslands og lauk því árið 2012.

Sr. Elín Salóme vígðist hinn 30. september 2014 sem prestur til Patreksfjarðarprestakalls. Hún var 80. konan til að hljóta prestsvígslu. Prestsstarfið var hálft starf og sinnti hún kennslu meðfram því á Tálknafirði. Um ársskeið var hún settur sóknarprestur á Patreksfirði. Undir það síðasta sinnti hún um hríð prestsþjónustu á Reykhólum. Sr. Elín Salóme lét af störfum í fyrra vegna alvarlegra veikinda sem hún glímdi við og laut í lægra haldi fyrir.

Sr. Elín Salóme þekkti vel til kirkjustarfs áður en hún gekk í þjónustu kirkjunnar sem prestur. Hún var lengi virk í safnaðarstarfi Neskirkju og Árbæjarkirkju. Bakgrunnur hennar og menntun gerðu hana að öflugum landsbyggðarpresti þó um skamma stund væri. Sr. Elín Salóme var traust kona og sinnti starfi sínu af miklum áhuga og heilindum. Hún var rúmlega sextug þegar hún tók vígslu og vissi að safnaðarþjónustan yrði ekki í mörg ár. En starfsgleðin leyndi sér ekki auk þess sem hún nýtti hverja stund í starfi með miklum sóma og einlægri þjónustulund.

Sr. Elín Salóme Guðmundsdóttir er kvödd með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hennar.

hsh


  • Prestar og djáknar

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju