Nýr kross í Biskupsbrekku

27. ágúst 2020

Nýr kross í Biskupsbrekku

Myndin af herra Jóni Vídalín eftir Pál á Húsafelli

Fyrir nokkru var tekin sú ákvörðun að setja upp veglegan kross í Biskupsbrekku við Uxahryggjaveg (Kaldadalsveg) ásamt minnismerki um herra Jón Vídalín, Skálholtsbiskup (1666-1720).

Páll Guðmundsson á Húsafelli var fenginn til að gera minnismerkið við krossinn. Steininn fann hann á Kaldadal og sagði Páll hann hafa verið furðu líkan Vídalín biskupi og hefði ögn þurft að skýra ásjónu hans. Og það merkilega væri að myndin væri skýrust þegar hún væri ausin vatni annað hvort af himnum ofan eða úr könnu eins og hann gerði til að sýna viðstöddum.

Já, vatnið. Það er magnað. 

Þess vegna var mikið um að vera í Biskupsbrekku í gær. Vörubíll með öflugum krana, grafa, liðugt tæki með steypuhrærivél, renndu upp að brekkunni. Veður var hið besta.

Á vörubílspallinum var sex metra langur kross úr málmfuru, tveir vænir steinar sem komu úr smiðju listamannsins Páls á Húsafelli. Full tunna af vatni fylgdi með og stífur. Sement í pokum. Annar bíll var fullhlaðinn verkfærum til þess sem þurfti.

Þetta voru vaskir menn sem gengu til verka. Þeir komu úr Borgarfirðinum. Halldór Haraldsson, Einar Ólafsson frá Gilsbakka, Þorsteinn Guðmundsson frá Fróðastöðum, Helgi Kristinn Eiríksson frá Kolsstöðum, og svo listamaðurinn sjálfur, Páll á Húsafelli. Þar var og Guðni Sigurðsson, smiður, lykilmaður í verkinu. Kirkjan.is var á staðnum ásamt vígslubiskupnum í Skálholti, sr. Kristjáni Björnssyni.

Þeir unnu sem einn maður. Gröfumaðurinn tók djúpa holu af mikilli nákvæmni og öryggi eins og hann væri að stinga skeiðinni í sykurkarið, steypuhrærivélin dundi en henni stýrði Halldór og Gilsbakkabóndinn mokaði í hana af krafti. Helgi stýrði krananum á vörubílnum og Guðni smiður var allt í öllu. Allir lögðust á eitt við að stýra krossinum í holuna – og hallarmálinu var brugðið á hann. Þá var listaverkið af séra Jóni Vídalín fest á undirstöðustein sinn.

Allt frá árinu 1963 hefur staðið kross í Biskupsbrekku til minningar um að á þessum stað fyrir þrjú hundruð árum hafi herra Jón Vídalín andast, 30. ágúst 1720. Fyrsti krossinn var úr tré. Listamaðurinn Jóhann Briem átti hugmyndina en söngkór einn á Akranesi hratt hugmyndinni í framkvæmd. Síðar brotnaði þessi trékross undan snjófargi og nokkru síðar var settur upp álkross á sama stað. Álkrossinn og minningarsteinninn við hann munu líklega standa áfram en ekki er vitað hver stóð að uppsetningu hans og sá eða sú sem les þetta og veit það mætti skjóta skeyti um það á: kirkjan@kirkjan.is

Það er Skálholtsfélagið hið nýja sem stendur að þessum framkvæmdum með aðstoð Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Meistari Jón Vídalín var á nokkrum vetrarvertíðum í Eyjum á sínum tíma og lengi átti Vinnslustöðin togara sem bar nafnið Jón Vídalín. Hjónin Haraldur Jónsson og Helga Sturlaugsdóttir gáfu viðinn í krossinn. 

Tilefnið er 300. ártíð meistara Jóns Vídalín en hann var fæddur 21. mars 1666 og lést sem áður sagði 30. ágúst 1720. 

Sunnudaginn 30. ágúst verður athöfn við nýja krossinn í Biskupsbrekku og hann vígður og listaverk Páls á Húsafelli afhjúpað formlega. Hefst athöfnin kl. 17.00. Allir eru velkomnir.

hsh


Páll á Húsafelli með afstöðuteikningu af krossinum og listaverkinu


Holugröftur hefst - Þorsteinn Guðmundsson við stýrið


Einar og Halldór mæla holuna - 1.5 m af krossinum fór niður


Helgi fyrir miðju að útskýra það sem máli skiptir, við hlið hans vinstra megin er 
vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján, bak við Helga er Páll listamaður, svo er það 
Guðni listasmiður og þá Halldór 


Margt þurfti að ræða áður en verk hófst: Helgi, Þorsteinn, Páll, sr. Kristján, 
Guðni og Einar. Mikið var tekið í nefið. 


Krossinum komið fyrir í holunni - hann þurfti að stilla af - Helgi með yfirsýnina


Er hann réttur? Guðni og sr. Kristján með hallamálið


Ekkert er gert án verkfæra


Guðni smiður setur rörfestingu í listaverkið


Og hér er hann blessaður, herra Jón Vídalín, kominn í stein ...


Upphaf þessa má finna í Kirkjuritinu frá 1. nóvember 1963


Gamli álkrossinn og minningarsteinninn um Vídalín verða líklega áfram á staðnum - þau
sem vita hver setti upp þennan kross mega láta vita á kirkjan@kirkjan.is

  • Leikmenn

  • List og kirkja

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar