Tveir listamenn í Biskupsbrekku

31. ágúst 2020

Tveir listamenn í Biskupsbrekku

Tveir listamenn, Páll og Vídalín

Í gær fór fram stutt athöfn í Biskupsbrekku við Kaldadalsveg þar sem nýr kross var blessaður og minningarsteinn um meistara Jón biskup Vídalín (1666-1720) afhjúpaður.

Það var í lok ágústmánaðar árið 1720 sem Jón Vídalín fór með föruneyti sínu hina gömlu reiðleið frá Þingvöllum um Uxahryggi og Kaldadal. Ferðinni var heitið vestur á Staðastað en mágur biskupsins, sr. Þórður Jónsson, prestur þar hafði látist. Þeir Jón höfðu lofað hvor öðrum að tala yfir moldum þess sem fyrr létist. Í sæluhúsinu við Kvígindisfell sem þar er hjá kenndi meistari Jóns sér meins, síðustings, og lést hann nokkru síðar, hinn 30. ágúst. Farið var með líkið í Skálholt 2. september og hann jarðsunginn þann 6. september.

Vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, flutti ávarp og blessunarorð við krossinn, og listaverkið sem Páll Guðmundsson á Húsafelli gerði. Listamaðurinn lék síðan á steinahljóðfæri sitt eigið lag við hendingu sem sagnir herma að sé eftir Vídalín og ort í hans hinstu ferð – þetta mun þó vera tilgáta en er engu að síður falleg tilgáta – en menn verða náttúrlega að gæta sín á því að tíminn hamri ekki tilgátur í staðreyndir:

Herra Guð í himnasal,
haltu mér við trúna.
Kvíði ég fyrir Kaldadal,
kvelda tekur núna.

Dagskrá Vídalínsdaga hefur tekist vel og eflaust verður meistara Jóns  minnst áfram með einum eða öðrum hætti í söfnuðum landsins.

Það var Skálholtsfélagið hið nýja sem stóð að framkvæmdum við Biskupsbrekku og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum lagði til efni í krossinn og vinnu í kringum uppsetningu hans. 

Fyrr um daginn fór fram stutt athöfn í Þingvallakirkju þar sem klukku var hringt en hún var gjöf meistara Jóns Vídalíns til kirkjunnar í tilefni af biskupsvígslu hans 1698. Að þeirri athöfn komu vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, sóknarpresturinn í Skálholti, sr. Egill Hallgrímsson, sr. Elínborg Sturludóttir, prestur í Dómkirkjusókn, og sr. Sighvatur Karlsson, sérþjónustuprestur. 

hsh


Frá athöfninni í gær í Biskupsbrekku


Myndarlegur skjöldur er aftan á steinlistaverkinu eftir Pál Guðmundsson á Húsafelli


Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, og sr. Egill Hallgrímsson, í ÞIngvallakirkju 


Sr. Sighvatur Karlsson, sr. Elínborg Sturludóttir, og sr. Egill Hallgrímsson, í Þingvallakirkju

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði