Tveir listamenn í Biskupsbrekku

31. ágúst 2020

Tveir listamenn í Biskupsbrekku

Tveir listamenn, Páll og Vídalín

Í gær fór fram stutt athöfn í Biskupsbrekku við Kaldadalsveg þar sem nýr kross var blessaður og minningarsteinn um meistara Jón biskup Vídalín (1666-1720) afhjúpaður.

Það var í lok ágústmánaðar árið 1720 sem Jón Vídalín fór með föruneyti sínu hina gömlu reiðleið frá Þingvöllum um Uxahryggi og Kaldadal. Ferðinni var heitið vestur á Staðastað en mágur biskupsins, sr. Þórður Jónsson, prestur þar hafði látist. Þeir Jón höfðu lofað hvor öðrum að tala yfir moldum þess sem fyrr létist. Í sæluhúsinu við Kvígindisfell sem þar er hjá kenndi meistari Jóns sér meins, síðustings, og lést hann nokkru síðar, hinn 30. ágúst. Farið var með líkið í Skálholt 2. september og hann jarðsunginn þann 6. september.

Vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, flutti ávarp og blessunarorð við krossinn, og listaverkið sem Páll Guðmundsson á Húsafelli gerði. Listamaðurinn lék síðan á steinahljóðfæri sitt eigið lag við hendingu sem sagnir herma að sé eftir Vídalín og ort í hans hinstu ferð – þetta mun þó vera tilgáta en er engu að síður falleg tilgáta – en menn verða náttúrlega að gæta sín á því að tíminn hamri ekki tilgátur í staðreyndir:

Herra Guð í himnasal,
haltu mér við trúna.
Kvíði ég fyrir Kaldadal,
kvelda tekur núna.

Dagskrá Vídalínsdaga hefur tekist vel og eflaust verður meistara Jóns  minnst áfram með einum eða öðrum hætti í söfnuðum landsins.

Það var Skálholtsfélagið hið nýja sem stóð að framkvæmdum við Biskupsbrekku og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum lagði til efni í krossinn og vinnu í kringum uppsetningu hans. 

Fyrr um daginn fór fram stutt athöfn í Þingvallakirkju þar sem klukku var hringt en hún var gjöf meistara Jóns Vídalíns til kirkjunnar í tilefni af biskupsvígslu hans 1698. Að þeirri athöfn komu vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, sóknarpresturinn í Skálholti, sr. Egill Hallgrímsson, sr. Elínborg Sturludóttir, prestur í Dómkirkjusókn, og sr. Sighvatur Karlsson, sérþjónustuprestur. 

hsh


Frá athöfninni í gær í Biskupsbrekku


Myndarlegur skjöldur er aftan á steinlistaverkinu eftir Pál Guðmundsson á Húsafelli


Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, og sr. Egill Hallgrímsson, í ÞIngvallakirkju 


Sr. Sighvatur Karlsson, sr. Elínborg Sturludóttir, og sr. Egill Hallgrímsson, í Þingvallakirkju

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall
logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi