Bókafregn: Saga guðanna
Það er ekki á hverjum degi sem út kemur bók á íslensku um helstu trúarbrögð heims. Saga guðanna, eftir sr. Þórhall Heimisson kom út fyrir nokkru og kirkjan.is renndi yfir hana.
Þetta er ekki fræðirit heldur mætti fremur segja að hér sé um að ræða aðgengilega lesbók, jafnvel handbók, þar sem farið er yfir helstu trúarbrögð, stefnur og strauma í þeim - og sitthvað er þeim tengist. Alþýðleg bók hefði verið sagt hér áður, stútfull af fróðleik fyrir áhugasama lesendur. Reyndar ein af þeim bókum sem lesa verður í lotum því að allir hafa sín takmörk fyrir móttöku fræðslustaðreynda.
Sr. Þórhallur Heimisson hefur skrifað nokkrar bækur og Saga guðanna er ekki sú fyrsta sem fjallar um trúarbrögð. Árið 2005 kom út Hin mörgu andlit trúarbragðanna þar sem farið var vítt og breitt um sviðið, gamla strauma sem nýja í heimi trúarbragðanna. Hann segir nýju bókina tengjast hinni eldri að hluta til en annars sé flest sem þar kom fram endurskoðað og aukið í ljósi nýrra aðstæðna.
Það er dirfska að leggja út á djúpið og skrifa um helstu trúarbrögð heims. Hver trúarbrögð eru heimur út af fyrir sig og lýsing á þeim getur aldrei orðið fullnægjandi þar sem sá sem lýsir þeim að ytra borðinu hefur ekki eftir atvikum trúarhitann eða trúarsannfæringuna. Þannig verður lýsing á öðrum trúarbrögðum en þeim sem höfundur aðhyllist aldrei annað en sem innlit í samkvæmi andans þar sem að sönnu viðkomandi kannast misvel við andlit en þekkir engan til hlítar. Höfundur getur vissulega lýst samkvæminu og því sem fyrir augu hans og eyru ber – og lesið um það og fyrri samkvæmi í sama dúr. Engu að síður getur það orðið býsna forvitnileg lesning og full af margvíslegum fróðleik sem lesandi á fullt í fangi með að henda reiður á.
Skilgreining trúarbragða er gagnyrt:
„Trúarbrögð eða átrúnaður er atferli sem byggir á hugmyndum manna um hinstu rök tilverunnar.“ ... „Allt sem mennirnir gera vegna þeirra hinstu raka tilverunnar sem þeir trúa á, það er átrúnaður þeirra.“ (Bls. 22 og 23).
Til er urmull af skilgreiningum á trúarbrögðum enda fræðimenn ekki á eitt sáttir um hvernig skilgreina beri fyrirbærið. Knappar skilgreiningar eru svosem ekki verri en einhverjar langloku skilgreiningar. Hins vegar kemst meira kjöt á bein skilgreiningarinnar þegar fram líður í bókina og sér í lagi í kaflanum um líffærafræði trúarbragðanna: um það hvernig trúarbrögðin birtast í grunnstoðum sínum, stofnunum, helgisiðum og venjum.
Umfjöllun höfundar um trúarbrögðin sýnir líka hvílíkan ógnar fjölbreytileika er þar að finna – enda farið um veröld víða. Í allri þeirri umfjöllun kemur fram að einhvers konar andleg reynsla einstaklingsins eða samfélagsins sem vísar til æðri veraldar er snar þáttur í öllum trúarbrögðum – og hugsjónum. Það er sammannleg tilfinning sem hefur fylgt mannkyni frá örófi alda.
Höfundur segir að trúarbrögðin séu í sókn. Nefnir hann sérstaklega nýtrúarhreyfingar. Einnig birtast trúarleg rök í pólitískum skírskotunum. Kommúnismi og fasismi eru trúarbrögð í augum höfundur – bæta mætti við kapítalisma. Trúleysi segir hann líka vera trúarbrögð og víst er að margur trúleysinginn hefur mótmælt þeirri fullyrðingu enda hún heyrst víða. Kristin trú á hins vegar í vök að verjast og mörg hinna hefðbundnu vopna hennar eru orðin fremur bitsljó. Nú lifa menn tíma sem kallast postchristianity („eftirá-kristni“) þar sem veraldarhyggja hefur tekið völdin ásamt hugmyndafræði af ýmsum toga. Kristnin stendur álengdar á jaðrinum og fylgist með þróun mála en ítök hennar eru ekki nema svipur hjá sjón frá því sem áður var. Margar kristnar kirkjudeildir á Vesturlöndum berjast hins vegar um á hæl og hnakka við að halda fornri lykilstöðu sinni en hafa ekki erindi sem erfiði. Sumar þeirra hafa meira að segja skrýðst veraldarhyggju um of svo erfitt getur reynst að sjá á þeim kristinn díl. Þær eru í sumum tilvikum meiri félagsmiðstöðvar en kirkjur, óljósar trúarmiðstöðvar. Aðrar hafa gripið enn fastar en áður um helgisiðina í þeirri von að dulúð þeirra og fegurð ættskotin list nái inn fyrir harða lífstílsskel nútímamannsins.
Það má hins vegar ekki gleyma því að vöxtur nýrra kirkna á 20. öld var einkum í Afríku og Suður-Ameríku og spurning hvort það nái eitthvað fram á þá 21stu. Fjölmargar trúarhreyfingar blómstruðu og fengu aukna þýðingu í samfélagi sínu þar sem afhelgunin hafði ekki náð fótfestu í svipuðum mæli og á Vesturlöndum.
Enn sjást dæmi um að trúarbrögð/trúarhreyfingar geta þjappað fólki saman um ákveðinn málstað þegar samfélagslegir árekstrar verða – eða þegar vegið er að minnihlutahópum í samfélaginu. Það á hvort tveggja við um kristni og íslam eins og mörg nýleg dæmi sýna.
Áhrifasvið kristinnar trúar getur birst í samfélaginu í menningarkristninni. Kristin trú er hluti af menningararfi og meira en það, hefur í mörgum tilvikum búið til arfinn, sem er virtur vel og þeir sem tala í hans nafni „án-trúar“ geta náð eyrum fólks og haft jákvæð áhrif í samfélaginu.
Höfundur bendir á hinn trúarlega þátt í jóga – í því er að finna trúarhugmyndir. (Sjá bls. 156 og 157). Jóga er vissulega andleg rækt, heilsuefling, hugarbót og aðferð til að stilla sál og líkama. Það er athyglisvert og kannski sérstaklega í ljósi þess að sumir kristnir söfnuðir á Íslandi hafa boðið upp á jóga. En það er hægt að stunda jóga án þess að tileinka sér inn að beini hinn trúarlega þátt þess og þankagang. Lesarinn athugi það.
Höfundur skrifar ljóst mál og einfalt. Textinn rennur vel og þægilega. Á köflum er höfundur í smárabbi við lesandann og minnir stundum á fararstjórahlutverk hans. Hann er persónulegur og segir sögur í dæmaskyni af því sem hann hefur sjálfur séð á ferðum sínum - enda viðförull maður - já, og góður kennari. Það kemur bara býsna vel út og vekur upp ýmsa hugrenningar hjá lesandanum eins og kannski þessi umfjöllun sýnir. Allt er áreynslulaust og þægilegt. Fróðleikurinn streymir fram um trúarbrögðin eins og vera ber. Og lesturinn er hinn skemmtilegasti.
Hér verður ekki farið í umfjöllun hans um einstök trúarbrögð. Þar er af miklu að taka og kirkjan.is ekki með fulla yfirsýn yfir það sem höfundur til að gagnrýna umfjöllun hans.
Fjöldi mynda prýðir bókina og þær hefur höfundur tekið. Þær eru lifandi og skemmtilegar – og bókin öll hin myndarlegasta, bæði sem les- og handbók. Miðað við umfangsmikla bók og fallega hefði það verið í samræmi við þann rausnarskap að láta registur fljóta með en slíkt er nauðsynlegt í bók sem leggur á borð jafn mikinn fróðleik í nöfnum guða, manna og staða, og Saga guðanna gerir. Aftast í bókinni er ýmissa heimildarita getið í stafrófsröð höfunda.
Það er bókaútgáfan Sæmundur sem gefur bókina út – hún er 410 blaðsíður.
Kirkjan.is óskar höfundi til hamingju með bókina og góðs gengis á fræðarabraut sinni.
hsh