Spennandi grænn september

2. september 2020

Spennandi grænn september

Grænn september og kirkjan

Umhverfismálin eru á dagskrá alla daga en sérstaklega nú í september.

Sá mánuður er grænn í ár.

Það er mánuður uppskerunnar. Kartöflur að koma í hús. Gulrætur og spergilkál. Hnúðkál. Blómkál. Og margt fleira.

Já, haustveðrið. Það kemur líka með grænum september. Tökum því fagnandi því að það er á réttum stað. 

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, hefur ritað öllum prestum, formönnum sóknarnefnda og organistum, bréf um málið. Hún segir meðal annars í bréfi sínu:

Biskup skrifar: 
„Eins og áður eru prestar og söfnuðir þjóðkirkjunnar hvattir til að vinna með umhverfi og náttúru á þessu tímabili í helgihaldi sínu og með því að gera starf sitt umhverfisvænt og sjálfbært með ýmsu móti.“

Það er margt á dagskrá á þessu tímabili sköpunarverksins. Og spennandi verður að sjá hvað einstaka söfnuðir gera í málinu. Hvernig þeir vinna með umhverfi og náttúru. Af nógu er að taka. 

En eitt í einu. Kirkjan.is mun segja frá þessu í skrefum, grænum og mjúkum skrefum.

Allt er gert í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í loftslags- og umhverfismálum.

Þetta fernt er á næstunni:

Skírnarskógar 5. september. Í Skálholti verður sérstök athöfn kl. 13.00 þennan dag þar sem verkefninu verður formlega ýtt úr vör. Tré verða gróðursett á landinu fyrir hvert skírt barn – eða fullorðna manneskju. Kirkjan.is verður á staðnum.

Kirkjuþing 10. september. Hvaða grænu mál verða þar á dagskrá? Fyrir þingið verður lögð framkvæmdaáætlun um endurheimt votlendis, skógrækt og landgræðslu 2020-2030 á þrjátíu kirkjujörðum. Þetta verður spennandi og athyglisvert mál.

Ráðstefna grænna safnaða verður haldin 19. september.

Þá skal vakin athygli á tveimur útvarpsmessum þar sem umhverfismál ber á góma í trúarlegu ljósi. Fyrst er það Dómkirkjan 13. september og síðan Glerárkirkja á Akureyri þann 20. september.

Meira síðar.

Fylgist með.

Hér er bæn sem kirkjan.is snaraði en hana er að finna í flottum tillögum Lútherska heimssambandsins  um hvernig megi haga heldihaldi og ýmsu í grænum september.

Umhverfisbæn

Skapari lífsins!
Fyrir þitt orð ól jörðin af sér plöntur og fræ þeirra, ýmis tré sem báru alls konar ávöxt. Ár og fjöll, námur jarðar og hafið, skógar og svörður, nærðu lífið. Augu þeirra allra horfðu á þig og treystu að þú myndir sjá vel fyrir öllu sem lifði á jörðinni. Um aldir hefur jörðin staðið vörð um lífið. Hver árstíð ber fram lífið í sinni mynd, ýmist vex gróður fram, blómgast og dregur sig í hlé að hausti, eða stendur allan ársins hring. Þetta eru hendur þínar sem gefa hverri lifandi veru fæðu á réttum tíma.

Viska þín gaf hvíldardaginn. Sá tími er blessaður og í honum hvílist sköpun þín í þakklæti fyrir allt sem þú hefur gefið. Þetta er tími sem losar okkur undan oki skelfilegrar neysluhyggju. Tími sem veitir jörð og lífi hvíld undan byrði framleiðslunnar. Lífshættir okkar nú um stundir draga heiminn fram á hengibrún. Krafa okkar um vöxt og viðgang, framleiðslu sem engan endi tekur og neyslu, gerir heiminn úrvinda. Skógarnir eru ofnýttir, jarðvegur rýrnar, hagar gefa eftir og eyðileg jörð sækir fram, hafið súrnar, og stormar magnast. Við höfum ekki leyft jörðinni að taka við hvíldardeginum, og jörðin berst um á hæl og hnakka við að ná sér aftur á strik.

Á tíma sköpunarinnar, biðjum við þig um að gefa okkur hugrekki til að horfast í augu við þá staðreynd að jörðin þarfnast hvíldardagsins. Styrktu okkur með trú á forsjá þína og kærleika. Vektu með okkur þann gefandi eiginleika sem birtist í því að deila því sem við höfum fengið með öðrum. Kenndu okkur að una við það sem er nóg. Sendu okkur þinn heilaga anda til að endurnýja ásjónu sköpunar þinnar um leið og við segjum frá gleðinni yfir því að eiga jörðina með þér.

Í nafni þess sem kom til að boða hin góðu tíðindi fyrir alla sköpunina, Jesú Krists. Amen.


Bæklingur Lútherska heimssambandsins er með fjölbreyttu efni sem hægt er að nota í grænum september

Umhverfisstefna þjóðkirkjunnar

Græn kirkja - grænn söfnuður

hsh 

  • Frétt

  • Guðfræði

  • Leikmenn

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Biskup

Altari Guðríðarkirkju

Þrjátíu ár frá snjóflóðunum í Súðavík

16. jan. 2025
...minningarstund í Guðríðarkirkju í kvöld, 16. janúar, kl 20:00
Sr. Örn og sr. Sigríður Kristín við upphaf guðsþjónustunnar

Stórskemmtileg stemmning í troðfullri Bústaðakirkju

16. jan. 2025
...Glitnisbræður í heimsókn