Nýr krimmi frá presti

8. september 2020

Nýr krimmi frá presti

Sr. Fritz er margt til lista lagt...

Hann er prestur og rithöfundur. Skrifar afþreyingarbækur, krimma. Þeir falla í góðan jarðveg enda eru þær bókmenntir vinsælar.

Það er sr. Fritz Már Jörgensson sem er í sviðsljós ritvallarins í dag.

Nýjasta bókin heitir Drottningin og er nýkomin út. Það er sjötta bókin eftir hann. Ugla, útgáfa gefur út.

Kirkjan.is renndi í gegnum hana – og drepur (er það ekki rétta orðið í þessu samhengi?) á söguþráðinn í örfáum orðum – ekki má segja of mikið til að taka ánægjuna frá lesendum.

Söguþráðurinn er tendraður vafningalaust og hefst 1975. Hamingju fólks er rústað á einu augnabliki í nýjum húsbíl, ferðahúsi (gott orð), morð og barnshvarf. Síðan er brunað inn í líðandi stund og þá segir frá öðru fólki sem keypt hefur gamlan húsbíl á góðu verði og gert hann upp. Þar er sambandið mótað af með myllumerkinu #þreytt.is. Segir allt. Enda alkólismi í spilinu og karlinn með „...ískaldan bjór í hendinni og koníakspela falinn bak við skáp. Lífið gat ekki orðið miklu betra.“ (Bls. 25).

Síðan vindur sögunni fram hægt og örugglega, fleiri glæpir framdir, og til skjalanna kemur Jónas lögreglumaður (sem er föst persóna í bókum hans eins og samstarfsmaður hans, Addi) sem fer í hús ásamt prestinum séra Sigrúnu til að tilkynna konu nokkurri andlát, eða öllu heldur morð, móðir hennar hefur verð myrt. Og kemst svo að því að barn hafi og verið á staðnum og það horfið. Drykkfelldi faðirinn horfinn að sinni – og hver verða örlög hans? Presturinn sinnir sínu sálgæsluhlutverki með samtölum og viðveru hjá dóttur hinnar myrtu og á þessum vettvangi kirkjunnar (kirkjan.is) er gaman að sjá að því hlutverki er vel lýst og með trúverðugum hætti enda höfundur maður sem kann til verka í sálgæslu: „Hún hafði mjög góð áhrif á samveruna, henni fylgdi rósemi og hún virkaði traust fyrir Katrínu.“ (Bls. 53). Sálgæsla tekur á og getur fyllt viðkomandi af þreytu sem er að mörgu leyti sérstök – og þessi prestur fær óvenju krefjandi sálgæsluverkefni í hendur – og „hluti af starfi hennar að fylgja fólki eftir í sorg og óvissu.“ (Bls. 155). Það skal tekið fram að þótt presturinn sé dreginn hér fram þá er alls engin prestaslagsíða á bókinni, lesandinn athugi það! Hlutur hans er í samræmi við alvöru mála í sögunni. Söguvettvangur er Suðurnesin, Reykjavík og Fljótshlíðin. Eins og í góðum krimma gengur allt upp og margt óvænt gerist, sumt fellur að grun lesandans og annað ekki. Gamalt og nýtt tengist.

Textinn rennur vel og heldur lesanda ágætlega við efnið. Enda þótt nokkuð margar persónur komi við sögu þá tekst vel að halda þeim aðgreindum í huga lesandans. Þegar svo gerist þá má segja að ljómandi vel hafi tekist til. Samtölin eru liðlega skrifuð og þráðurinn samfelldur og þéttur enda þótt stungið sé inn stuttum köflum sem þjóna sögunni.

Kirkjan.is ræddi við höfundinn, sr. Fritz og spurði hann fyrst um skrifin og hann svaraði svo:

„Ég hef skrifað stærsta hluta ævinnar, byrjaði líklega fljótlega eftir að ég lærði að lesa, finnst gott að tjá mig þannig og elska sögur.“

Hann segir sína fyrstu bók hafa komið út 2007 og hét hún 3 dagar í október.

En hvernig skyldi það fara saman að vera prestur, kærleiksþjónn, og skrifa glæpasögur? Sr. Fritz hlær innilega og segist sjálfur hafa mikla ánægju af því að lesa krimma og þá helst norræna krimma, enda skrifar hann í anda hinnar norrænu hefðar. „Svo hef ég verið með prest sem eina af persónunum í síðustu tveimur bókunum mínum og það gefur ákveðið tækifæri til boðunar, en þegar ég hugsa um það, þá held ég að ég hafi á einn eða annan hátt, verið með einhvers konar trúarlegar tengingar í flestum bókunum.“

Hann segir eitt megineinkenni norrænna krimma vera að höfundar skrifi nánast alltaf um mál sem samfélagið sé að kljást við. Þannig verður sagan sem sögð er spegill á samtímann hverju sinni að einhverju leyti. „Ég kappkosta samt alltaf að hafa sögurnar mínar spennandi og vonandi skemmtilegar,“ segir sr. Fritz. Hann segist hrifinn af kiljuforminu og vilji hafa sínar bækur í því formi. „Ég er heldur ekkert lengur að eltast við jólamarkaðinn, vil bara gefa út þegar ég er klár með bók.“

Kirkjan.is óskar sr. Fritz til hamingju með nýju bókina og lesendum góðrar skemmtunar við lestur hennar. Hún svíkur engan.

hsh


  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Viðburður

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju