Hvað er Alþjóðlegi söfnuðurinn?
Kirkjan.is brá sér í guðsþjónustu hjá Alþjóðlega söfnuðinum í gær.
Það blés hressilega í Mjóddinni og slagveðursrigning barði á Tjaldkirkjunni eins og Breiðholtskirkja er stundum kölluð. Framkvæmdir standa yfir í kirkjunni og allt helgihald fer fram á fyrstu hæð. Kannski engin furða að fáni skuli ekki hafa verið dreginn að húni í þessum rosa, flaug um huga tíðindamanns þegar hann leit fánalausa stöngina í nettri sveigju á pallinum fyrir framan kirkjuna.
Þegar komið var inn afhenti sr. Toshiki Toma dagskrána og andlitsgrímu. Nú er sú tíðin að söfnuðurinn er meira og minna grímuklæddur. Sérstakt að líta yfir bekkkina svo ekki sé meira sagt.
Andrúmsloftið var hlýlegt í guðsþjónustunni sem hófst á bæn og söng. Organistinn var fjarri vegna veikinda en allt gekk þó upp.
Það var athyglisvert innslag í hinu frjálsa og heimilislega helgihaldi að rétt eftir upphafssönginn þá spurði sr. Toshiki fólkið hvernig vikan hefði verið. Hver og einn tók til máls og sagði í örstuttu máli hvernig vikan hefði verið hjá honum eða henni. Þetta skapar persónulegt samband og nálægð, svipmyndum úr lífi fólks sem endurspegla hvort heldur gleði eða áhyggjur er varpað fram til hópsins – mætti jafnvel hugsa sér að taka þetta upp í guðsþjónustum þjóðkirkjunnar ef fámennt er. Þá fékk hver og einn blýant og lítið blað til að skrifa á bænarefni sem var svo safnað saman í körfu og hún lögð á altarið.
Guðsþjónustan fór fram á ensku og farsi (persnesku). Sr. Toshiki talaði ensku og maður nokkur túlkaði yfir á farsi. Sr. Toshiki sagði að fáir töluðu ensku, flest viðstaddra voru kristnir Íranir. Öll nema einn höfðu fengið dvalarleyfi. Misjafnt er hvort fólkið hefur fengið vinnu. Sr. Toshiki nefndi til að mynda verkfræðing í hópnum sem ekki hefði fengið vinnu og einnig tölvufræðing. Fólkið var á aldrinum 25 – 45 ára.
Eftir guðsþjónustuna var kirkjukaffi og settist fólkið við borð og spjallaði saman. Augljóst var að fólkinu leið vel og það naut samfélagsins. Kirkjukaffið býr líka yfir krafti slökunar og leysir sömuleiðis innbyggða umhyggju úr viðjum hversdagslegar reglustífni.
Sr. Toshiki sagði að kórónuveirufaraldurinn hefði dregið úr aðsókn að helgihaldi safnaðarins eins og svo víða. Söfnuði sínum sinnir sr. Toshiki með alúð og elskusemi.
Á Facebókarsíðu Alþjóðlega safnaðarins er þessa skilgreiningu að finna:
Höfuðstöðvar safnaðarins eru í Breiðholtskirkju í Mjóddinni í Reykjavík.
Alþjóðlegi söfnuðurinn - Facebókarsíða
hsh
Guðspjallið var á ensku og farsi (persnesku) en það tungumál er talað í Íran, Tadsíkistan, Afganistan, Úsbekistan, vesturhluta Pakistan, Barein og víðar.
Dæmisagan um miskunnsama Samverjann: Lúkasarguðspall 10.29-37