Árbæjaræska í Gróttu

27. september 2020

Árbæjaræska í Gróttu

Börnin hlupu fram og aftur úti í Gróttu og leituðu að matnum

Það var heldur betur líf og fjör úti í Gróttu á Seltjarnarnesi nú um helgina. Hátt í þrjátíu börn úr TTT-starfinu í Árbæjarkirkju voru komin til að eiga góðar stundir í fræðasetrinu Gróttu og umhverfi þess. TTT er skammstöfun fyrir starf safnaðanna meðal tíu til tólf ára gamalla barna.

Kirkjan.is leit við í heimsókn út í Gróttu og heilsaði upp á mannskapinn. 

Grótta er spennandi svæði fyrir börn vegna þess að hægt er að ganga út í vitann, eins og sagt er, og svo flæðir að. Þá eru krakkarnir skyndilega komnir á eyju. Og það var nú heldur betur gaman. Allt öðruvísi umhverfi en í Árbænum. Fjara og þang. Mjúkur sandur og grjót. 

Þær eru skörungar
Ingunn Björk Jónsdóttir, djákni og umsjónarkona með barna- og unglingastarfi Árbæjarsóknar, stýrði hópnum ásamt Aldísi Elvu Sveinsdóttur, leiðtoga í barnastarfi, Þóreyju Björgvinsdóttur, sjálfboðaliða í barnastarfi, og Sóleyju Öddu Egilsdóttur, leiðtoga í barnastarfi. Og ekki veitti af fjórum kvenskörungum því það þarf festu og elskusemi til að stjórna svona hópi og svara einlægum og brennandi spurningum þeirra sem spruttu fram á fyrsta fundi þeirra úti í Gróttu: „Hver sækir mig ef ég fótbrotna?“ „Er enginn bátur hérna?“ „Hvenær megum við fara og vaða í sjónum?“ „Mig langar í nestið núna – má ég borða það?“ „Ég sé enga sundlaug?“ Og fleiri spennandi spurningar fylgdu á eftir. Öllum svarað viturlega og með hlýju. Síðan signdu þau sig öll, Ingunn Björk fór með bæn og þau tóku öll vel undir hana.

Eftir fundinn komu þau sér fyrir. Stelpurnar fór upp á svefnloftið þar sem þeirra staður var en strákarnir streymdu niður í kjallarann en þar áttu þeir að sofa.

Síðan var blásið til pulsuratleiks. Þær Aldís og Þórey hlupu um svæðið með pylsupakka, tómatsósu, remúlaði, brauðin, sinnepið og laukinn. Földu varninginn hér og þar. Þetta höfðu þær gert áður enda ekki í fyrsta skipti á staðnum. Aldar upp í kirkjulegu starfi.

Krökkunum var skipt í sjöbarna hópa og fengu kort í hendur. Það var sjóræningjakort og þau rýndu strax í það af miklum ákafa. Síðan var talið niður og þau ruku af stað til að leita.

Allt fannst og pylsupartýið gat byrjað. Síðan var hressileg kvöldvaka og börnin úr Árbænum og Norðlingaholtinu lögðust þreytt á koddann í Gróttu eftir kvöldsögu og bæn.

Næsti dagur byrjaði á sígildum grjónagraut sem enginn fúlsaði við. Síðan var „eyjan“ yfirgefin og haldið í hina einstaklega góðu sundlaug á Seltjarnarnesi. Eftir þá ferð var nestið borðað og því var eins gott að enginn var búinn að borða það deginum áður.

Hópurinn kom með strætó út á Seltjarnarnes og fór heim með strætó.

TTT-starf safnaðanna er líflegt starf sem þar að vaka vel yfir. Það er vaxtarbroddur og endurspeglar öflugt safnaðarstarf – hefur í sér ótal möguleika fyrir hugmyndaríka stjórnendur.

TTT-starfið í Árbæjarsókn sýnir í hnotskurn vandað starf og öruggt.

hsh


Börnin örkuðu yfir fjörusandinn og út í Gróttu


Þórey Björgvinsdóttir og Aldís Elva Sveinsdóttir fóru um Gróttu og földu pylsunar


Stundum þarf að hrópa til að fá athygli - Sóley Adda lætur í sér heyra 


Alvöru sjóræningakort - leitað að pylsunum 


Stelpurnar leita að matnum á „eyjunni“ 


Ingunn Björk Jónsdóttir hafði í mörgu að snúast og hér messar hún yfir hópnum 


Krakkarnir röðuðu sér í kringum vitann

 


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Barnastarf

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju