Fólkið í kirkjunni: Kirkja, golf og fjöll

12. október 2020

Fólkið í kirkjunni: Kirkja, golf og fjöll

Guðbergur Rafn Ægisson - í mörg horn og ljós að líta í Húsavíkurkirkju

Hann er fjallhress í samtali og kveður skýrt að og hefur bjarta rödd. Er sennilega tenór.

Guðbergur Rafn Ægisson, meðhjálpari, kirkjuvörður og kirkjugarðsvörður. Starfsvettvangurinn er Húsavíkurkirkja. Sú kirkja var vígð 1907 og er frægasta verk Rögnvalds Ólafssonar sem oft er kallaður fyrsti íslenski arkitektinn. Timbrið er norskt í henni og það tók eitt ár að byggja hana. Hún er ein af þremur krosskirkjum Rögnvalds – hann teiknaði um þrjátíu kirkjur. Það eru náttúrlega viss forréttindi að starfa í slíkri kirkju.

Kirkjustarf Guðbergs Rafns er fullt starf enda í mörg horn að líta í gamalli og friðaðri kirkju – og þar sem safnaðarlíf er ágætt.

Guðbergur Rafn er fæddur Húsvíkingur og uppalinn á staðnum - fjölskyldumaður. Það var sr. Björn H. Jónsson sem skírði hann í sunnudagskólanum. Sr. Sighvatur Karlsson fermdi hann en Guðbergur var í fyrsta fermingarhópnum sem sr. Sighvatur fermdi og þá nýkominn til þjónustu á Húsavík. Lengi var Guðbergur Rafn sjúkrabílstjóri og svo var hann formaður björgunarsveitarinnar Garðars á Húsavík. Hann gekk til liðs við björgunarsveitina árið 1990 og er nú almennur björgunarsveitarmaður. Í frístundum sínum grípur hann golfkylfuna og fer út á völl. Svo er hann fjallamaður - nóg af fjöllum þar nyrðra.

Hann sló til fyrir átta árum þegar rætt var við hann um að gerast meðhjálpari. Áræðinn maður og til í að takast á við nýjar aðstæður. Síðan tók eitt við af öðru: kirkjan og kirkjugarðurinn. Hann lipur og röskur til verka og tvínónar ekki við hlutina.

Margt er falið í starfi meðhjálparans og kirkjuvarðarins. Hann aðstoðar prestinn fyrir athafnir og eftir. Verður að sjá til þess að allt sé til reiðu fyrir messu. Er kveikt á kertum? Vatn í skírnarskál ef á að skíra? Rétt sálmanúmer í söngtöflum? Dreifa sálmabókum til kirkjufólksins og taka þær saman sem eftir hafa orðið í bekkjunum. Svo þarf að slökkva á kertum! Hann þrífur kirkjuna og sér til þess að viðhaldi sé sinnt. Þá situr hann alla sóknarnefndarfundi sem starfsmaður sóknarinnar. Þannig má lengi telja.

Lokið var við að mála Húsavíkurkirkju í vor en það hafði tekið nokkurn tíma vegna þess að óhagstætt veður tafði verkið.

Kirkjugarðsvörðurinn sér til þess að garðurinn sé í sómasamlegur ástandi. Það þarf að slá og hirða. Taka grafir og halda honum þrifalegum. Á veturna getur safnast mikill snjór í hann og þá þarf að blása honum frá og moka – svo þar að aðstoða fólk við að koma upp ljósum á leiði.

Í kirkjugarðinum er reisulegt klukknaport með bröttu rauðu þaki. Kirkjugarðsvörður þarf að hringja þar klukkum þegar kista er borin í garðinn og að gröf.

Guðbergur Rafn Ægisson er vakinn og sofinn yfir kirkjunni og hennar málum. Húsvíkingar eru heppnir að hafa svo traustan starfsmann við hlið prests og sóknarnefndar. Hann er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh


  • Leikmenn

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Starf

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju