Kraftmikið starf og sönn gleði

17. október 2020

Kraftmikið starf og sönn gleði

Regnbogi yfir kirkjumiðstöðinni á Eiðum á Aursturlandi: „Hverju sinni sem boginn stendur í skýjunum mun ég sjá hann og minnast hins eilífa sáttmála milli Guðs og allra lifandi vera, alls sem lifir á jörðinni.“ (1. Mósebók 9.16).

Eins og lesendur kirkjan.is vita, þá reiðir hún sig á víðfeðmt og traust net fréttaritara um allt land, til að fá fjölbreyttar og uppbyggilegar fréttir af starfi þjóðkirkjunnar. Í þetta sinn er það sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur á Egilsstöðum, sem bregður sér í hlutverk fréttaritarans. Gefum henni orðið:

Við fengum að þessu sinni að heyra frá orkuboltunum á Austurlandi, sem eins og stendur eru blessunarlega laus við kórónuveirusmitin sem keyra allt um koll á suðvesturhorninu.

Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir er prófastur í Austurlandsprófastsdæmi sem nær yfir firðina og héröðin fögru, sem oft eru nefnd matarkista landsins. En maðurinn lifir ekki á brauði einu saman eins og stendur í góðri bók og þess vegna ber að huga að annars konar fæðu – hinni félagslegu og andlegu.

Þess vegna er barna- og æskulýðsstarf – ekki síst fermingarstarfið – í hávegum haft í hennar umdæmi. Og tilefni þessarar fréttar er að í heila viku hefur Kirkjumiðstöð Austurlands verið undirlögð af hressum og glöðum fermingarbörnum frá öllum prestaköllum svæðisins, sem fá að dveljast þar í tvo sólarhringa við fræðslu, leik og helgihald.

„Að undirbúa ferminguna getur verið virkilega gefandi og skemmtileg reynsla,“ segir Sigríður Rún. „Og að fá að upplifa fjölmennt mót í fallegu umhverfi er náttúrulega toppurinn á því!“

Löng hefð er fyrir fermingarbarnamótum á Austurlandi, en þar býr fólk svo vel að hafa heila Kirkjumiðstöð sem er eins og hönnuð fyrir svona mót. Kirkjumiðstöðin er líka mikið notuð fyrir sumarbúðir barna, eins og alls konar fundi og samverur.

Kirkjumiðstöðin er á Eiðum á einstaklega fallegum stað. Eiðavatn er nærri og er mikið notað til að fara á báta þegar vel viðrar. Þegar kirkjan.is var á staðnum, var vatnið líka spegilslétt og haustlitirnir yfirþyrmandi fagrir.

En var það alveg öruggt að blása til svona samveru í aðdraganda hertra aðgerða stjórnvalda, vill kirkjan.is vita?

„Við höfðum að sjálfssögðu náið samráð við aðgerðarstjórn almannavarna á Austurlandi, heilsugæsluna og skólastjórnendur, sem öll töldu það óhætt á þessu stigi að leyfa krökkum frá sama svæði að hittast og eiga þessa upplifun,“ segir prófastur.

Og hvað er svo gert á fermingarmótunum á Eiðum?
„Hvað er ekki gert, ætti að spyrja,“ segir Sigríður Rún. „Við leggjum upp úr því að blanda saman uppbyggilegri samveru, þar sem allir fá að njóta sín. Við viljum að krakkarnir kynnist kristinni trú, bæði í gegnum helgihald, söng og fræðslu. Og svo viljum við iðka trúna með því að eiga gleðileg og jákvæð samskipti“.

„Í þetta sinn var fræðsla og söngvar um Jesú í forgrunni,“ heldur Sigríður Rún áfram. „Við skoðuðum sögur af lífi Jesú, myndir úr kirkjuarfinum og hvernig boðskapur Jesú er lifandi og mikilvægur fyrir okkur í dag. Svo héldum við listasmiðju þar sem krakkarnir fengu að teikna sinn Jesú, og þar kenndi nú ýmissa grasa,“ segir frú prófastur brosandi.

Hvernig eru svona búðir haldnar, svona praktískt séð, vill kirkjan.is fá að vita. 

„Jú við erum svo heppin hér í prófastsdæminu að hafa einn öflugan æskulýðsfrömuð í fullu starfi, það er hún Bella eða Berglind Hönnudóttir, sem heldur utan um framkvæmd og skipulagningu. Með henni er Ásmundur Máni Þorsteinsson, alltaf kallaður Máni, en hann er einmitt skilgetið afkvæmi hins kröftuga kirkjustarfs hér fyrir austan, þar sem hann ólst upp. Svo taka prestarnir okkar virkan þátt með fræðslu, helgihaldi og hlýrri nærveru. Við erum einstaklega heppin með kirkjunnar fólk hér fyrir austan,“ bætir hún við.

Þetta er nú gaman að heyra, hugsar kirkjan.is og spyr: Er framtíðin björt? „Hún er sannarlega björt“ segir Sigríður Rún „það finnst mér alltaf þegar ég upplifi kraftinn og gleðina í unga fólkinu okkar sem vill gera sitt besta og taka góða hluti með út í lífið“.

Kirkjan.is þakkar prófasti Austurlands kærlega fyrir sig og óskar þeim velfarnaðar í öllu starfi.

kþt/hsh

 


Myndir sem fermingarbörn unnu í kirkjumiðstöðinni á Eiðum


  • Barnastarf

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju