Framkvæmdastjóri Skálholts
Fyrir nokkru auglýsti Skálholtsstaður eftir framkvæmdastjóra og rann umsóknarfrestur út 30. september s.l. Alls sóttu 36 um starfið.
Stjórn Skálholts ákvað að ráða Herdísi Friðriksdóttur í stöðu framkvæmdastjóra Skálholtsstaðar. Hún er fædd í Stykkishólmi árið 1969. Herdís er skógfræðingur að mennt bæði frá Noregi og Danmörku. Auk þess hefur hún lokið meistaranámi í verkefnisstjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.
Frá 2017 hefur Herdís rekið eigið fyrirtæki, Understand Iceland sem framkvæmdastjóri. Fyrirtækið sérhæfir sig í fræðsluferðum fyrir háskólanemendur og fróðleiksfúsa N-Ameríkana.
Þar á undan starfaði Herdís sem verkefnastjóri Sesseljuhúss, umhverfisseturs á Sólheimum, og fyrr sem sérfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
Herdís er gift Einari Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsverði á Þingvöllum, og eiga þau tvær dætur.
Herdís og Einar eru sveitungar Skálholtsstaðar og búa með fjölskyldu sinni í Reykholti.
hsh