Frumleg og einstök blessun

26. október 2020

Frumleg og einstök blessun

Ekið um Dýrafjarðargöng og þau blessuð (skjáskot)

Dýrafjarðargöng voru opnuð formlega í gær. Það var ekki venjuleg opnunarathöfn á miklu mannvirki með múgi og margmenni, breiðum borða til að klippa á, og síðan löngum ræðuhöldum.

Nei, vegna kórónuveirunnar fór stutt athöfn fram í Reykjavík sem tveir dýralæknar stýrðu. Ekki voru þeir sóttir til verksins vegna nafns ganganna heldur vill bara svo skemmtilega til að bæði samgönguráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsdóttir og Bergþóra Þorkelsdóttir, vegamálastjóri, eru dýralæknar að mennt.

Athöfninni var streymt á netinu, sláin fyrir göngunum reis upp og inn streymdu bílar í stríðum straumi. Fyrst fór rúta með börnum úr grunnskólanum á Þingeyri og snjómokstursmanni Hrafnseyrarheiðar. Sá hafði mokað snjóinn frá 1974 og sagði í fréttum að þessi vegabót væri löngu tímabær – saknaði augljóslega ekki mokstursins. Og börn höfðu jú tekið fyrstu skóflustunguna að verkinu á sínum tíma. Þannig að allt var nú við hæfi til að gera þessa sögulegu stund sem eftirminnilegasta.

Þetta voru tímamót – enda mikil samgöngubót.

Þegar mikil mannvirki eru tekin í notkun er oft farið með blessun og bæn.

Sóknarpresturinn á Þingeyri, sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, er snjöll kona og hugmyndarík.

Þingeyri er nú einu sinni við Dýrafjörð og málið því býsna skylt heimamönnum þar – sem og vitaskuld öllum Vestfirðingum, og landsmönnum öllum að sjálfsögðu. Ekki fannst prestinum vígsludagur Dýrafjarðarganga mega hjá líða án þess að farið yrði með eitthvað gott þar innan ganga, eins og gjarnan var sagt hér áður fyrr. 

Presturinn greip til þess ráðs að fara á bíl sínum gegnum göngin á vígsludaginn eins og margir gerðu þennan dag til að gleðjast og forvitnast um þetta mikla mannvirki sem er 5. 6 km á lengd. Sr. Hildur Inga hafði með sér bílstjóra og þar sem þau óku í gegnum göngin fór hún með blessunarorð og bæn, og hafði netmyndavélina svo stillta að sjónlína hennar var bílstjórans og farþegans.

Sennilega er þetta í fyrsta sinn sem vegamannvirki er blessað með þessum frumlega hætti. Blessunin var einstaklega hlýleg eins og vera ber, full af trúartrausti og einlægni. Dýrarfjarðagangablessunina (all langt orð, til samræmis við göngin) má sjá á Facebókar-síðu Þingeyrarprestakalls.

Kirkjan.is óskar Vestfirðingum til hamingju með göngin – og sr. Hildur Inga fær sérstakar þakkir fyrir hugkvæmnislegt framtak sitt.

hsh

 


  • Menning

  • Nýjung

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju