Minningarathöfn á Flateyri

27. október 2020

Minningarathöfn á Flateyri

Minningarstund var í Flateyrarkirkju í gærkvöldi

Í gær var aldarfjórðungur liðinn frá því að mikið snjóflóð féll á Flateyri. Þjóðin varð harmi slegin en í flóðinu fórust 20 manns.

Dagurinn 26. október 1995 er dagur sem aldrei gleymist og öll þau sem koma til Flateyrar sjá merki hans í fjallinu þar sem búið er koma upp miklum snjóflóðavarnargörðum. Tvö stór snjóflóð sem ekki varð mannskaði af féllu á Flateyri um miðjan janúar á þessu ári. Þau ýfðu hins vegar upp sárar minningar um hið mannskæða flóð fyrir aldarfjórðungi. Varnargarðarnir voru styrktir í kjölfar þess.

Við kirkjuna er minnisvarði um þau sem fórust. Þorpið mun aldrei gleyma þeim.

Minningarathöfn fór fram í Flateyrarkirkju í gær og flutti sóknarpresturinn þar, sr. Fjölnir Ásbjörnsson, stutta og fallega hugleiðingu. Tónlist var leikin og sungin. Í lok stundarinnar var gengið að minnisvarðanum um þau sem fórust.

Félagar úr björgunarsveitinni Sæbjörgu voru komnir í fjallið og höfðu raðað sér á útjaðar snjóflóðavarnargarðsins og tendruðu á blysum til minningar um þau látnu. Það var áhrifamikil stund.

Kirkjan.is ræddi við sr. Fjölni af þessu tilefni og var hann ánægður með hvernig til tókst með stundina. Stundin var virðuleg og einlæg svo sem vera bar. Þau voru ellefu í kirkjunni alls, prestur, tæknifólk og tónlistarfólk, en þúsundir hafa skoðað myndbandið.

Björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri gegndi lykilhlutverki í undirbúningi stundarinnar og var sr. Fjölnir henni mjög þakklátur sem og reyndar þeim vaska hópi sem lagði sitt af mörkum. Í lok stundarinnar var sunginn „þjóðsöngur“ Flateyringa, en hann gerði Ólafur Ragnarsson, oft kallaður Óli popp.

Listafólkið sem tók þátt í minningarstundinni er allt frá Flateyri: Ívar Kristjánsson, Stefán Steinar Jónsson, Ásrós Helga Guðmundsdóttir, Guðmundur Hjaltason, Jóhann Ingi Þorsteinsson og Hrafnkell Vernharðsson. Hljóð og mynd: Eyþór Jóvinsson, Margeir Haraldsson, Smári Snær Eiríksson, og Þór Engholm, fyrir björgunarsveitina Sæbjörgu á Flateyri.

Það orð er ást
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, rifjaði upp í gær á Facebókar-síðu sinni orð sem hann mælti í janúar þegar snjóflóð féllu á Flateyri: „Samstaða og samkennd fleytir okkur svo langt. Við búum í harðbýlu landi, já, en landið er líka ljúft, eins og mannfólkið að fornu og nýju. Ein elsta rúnarista sem fundist hefur hér er nær þúsund ára gömul. Þar má greina eitt orð vel. Það orð er ást.“


Svo sannarlega má segja að minningarstundin í gær hafi verið umvafin kærleika og ást.

Þau sem horfa á myndbandið hér fyrir neðan sjá fallegan hringlaga kertastjaka til vinstri. Stjakinn var hannaður og unninn fyrir Flateyrarkirkju 2008 og minnir um margt á björgunarhring. Og hringur er tákn eilifðar. Ljós á honum eru tendruð til minningar um þau sem látin eru. 


hsh

 

 

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju