Viðtalið: Kærleikurinn brúar öll bil

29. október 2020

Viðtalið: Kærleikurinn brúar öll bil

Jól í skókassa - Vopnfirðingar voru röskir til verka

Það er ekki bara í þéttbýlinu sem söfnuðir taka þátt í hinu árlega verkefni sem ber það skemmtilega heiti: Jól í skókassa. Margir söfnuðir úti á landi hafa lagt málinu lið og með myndarlegum hætti. Verkefnið krefst undirbúnings og alúðar. Þau sem tekið hafa þátt í verkefninu hafa öll sömu reynslu að miðla. Verkefnið styrkir safnaðarstarfið og sameinar alla aldurshópa enda þótt Jól í skókassa höfði einkum til yngri hópa. 

Úkraína
Þetta sérstaka verkefni, Jól í skókassa, snýst um að safna jólagjöfum sem geta fyllt einn skókassa og pakka honum inn. Skókassinn er síðan sendur til Úkraínu til héraðs sem heitir Kírovograd – skammt fyrir utan Kænugarð (Kiev). Börn sem búa þar við bág kjör fá kassana og fyllast gleði þegar þau fá alls konar gjafir úr landinu í norðri. Þetta eru fátæk börn, börn á munaðarleysingjahælum, einstæðar mæður, ungt fólk sem er á einhvers konar umönnunarheimilum og unglingafangelsum. Einnig börn á barnaspítölum.
Á fimmta tug milljóna búa í Úkraínu. Í austurhluta landsins hefur ríkt stríðsástand eins og kunnugt er. Víða er mikil fátækt í landinu og þar er ástandið á mörgum stöðum óstöðugt.

Verkefnið hefur verið unnið hér á landi í nokkur ár. Það er KFUM og K sem hefur yfirumsjón með verkefninu.

Og það er langt á milli Kænugarðs og Vopnafjarðar. En kærleikurinn brúar öll bil.

Kirkjan.is hafði samband við prestinn á Vopnafirði, sr. Þuríði Björg Wiium Árnadóttur, en þar hafa margar hendur komið að gjafasöfnun og innpökkun á jólagjöfum í skókassa.

„Þetta er í annað skipti sem við tökum þátt í þessu síðan ég flutti austur,“ segir sr. Þuríður „en verkefnið var þó í gangi hér áður fyrr. Við erum tvær sem höldum utan um þetta, ég og Íris Grímsdóttir, hjúkrunarfræðingur.“

Vopnfirðingar eru búnir að skila inn sínum skókössum en alls söfnuðust gjafir í 80 kassa. Sr. Þuríður segir að það sé aukning um 30 kassa frá því í fyrra.

„Það er mjög gleðilegt hvað Vopnfirðingar sýna þessu mikinn áhuga en það kemur mér reyndar ekkert á óvart enda mikill kærleikur í fólki hér,“ segir sr. Þuríður.

Þátttaka í verkefninu er mjög góð. Fólk á öllum aldri gefur verkefninu tíma og er mjög áhugasamt. „Sú yngsta sem skilaði kassa í fyrradag var 2ja ára og elsta 91!“ segir sr. Þuríður og er greinilega stolt af sínum sóknarbörnum.

Hún segir verkefnið vera þess eðlis að allir geti lagt sitt af mörkum. Fólki er umhugað um verkefnið og sr. Þuríður finnur að fólkinu finnst gott að geta lagt málefninu lið.

„Sumir pakka inn heima, jafnvel nokkrar kynslóðir saman,“ segir sr. Þuríður og bætir því við að skólinn taki líka þátt í verkefninu: „Þar pakkar yngsta stigið í skólanum inn gjöfum saman.“

Á Vopnafirði er starfandi æskulýðsfélagið Kýros. Fyrir nokkru hittust þar átján krakkar og bjuggu til nokkrar gjafir. Þau stóðu sig svo vel í innpökkuninni að ilmandi pizza koma svífandi inn í lokin í verðlaunaskyni fyrir frábæra frammistöðu. Það þarf nefnilega þolinmæði og þrautseigju til að pakka inn þegar maður er unglingur.

Sr. Þuríður segir að það hreyfi við börnunum að útbúa gjafir fyrir börn á sama aldri í fjarlægu landi sem búa við allt önnur kjör en þau. Hún segir að sum þeirra hafa látið fljóta bréf með í skókassanum. „Og hver veit nema úr verði vinasamband,“ segir presturinn glöð í bragði.

Sr. Þuríður segir að einn drengur hafi mætt með fullan poka af lítið notuðum fötum af sjálfum sér til að gefa unglingsstrák í Úkraínu. Þau komust náttúrlega ekki öll í einn skókassa.

„En þar sem við gátum nú ekki gefið drengnum heilan poka af fötum þá endaði það sem ágætis skiptifatamarkaður á staðnum og einhver æskulýðsbörn fóru glöð heim með ný föt,“ segir sr. Þuríður hlæjandi og bætir því við að þetta hafi auðvitað verið einstaklega umhverfisvænt og að kvöldstundin hafi verið mjög fræðandi og kærleiksrík.

Verkefnið Jól í skókassa átti að vera hluti af Vinaviku sem var frestað um óákveðinn tíma vegna heimsfaraldurs.

Verkefnið nýtur mikillar velvildar ýmissa úti í samfélaginu. 

Sjá Facebókarsíðu verkefnisins 

Heimasíða KFUM & K 

hsh


Vopnafjarðarkirkja


Kór Vopnafjarðarkirkju


Sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, sóknarprestur á Vopnafirði

 



  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju