Tímamót í þjónustu

1. nóvember 2020

Tímamót í þjónustu

Lífið, skin og skúrir, líf og dauði, upprisa... Lágafellskirkjugarður

Nútíminn gerir kröfur um að fólk eigi greiðan aðgang að öllum upplýsingum um alla þjónustu sem snertir daglegt líf mannsins. Það á við um alla opinbera þjónustu í velferðarsamfélagi eins og skólahald, heilsugæslustöðvar, sýslumannsembætti og vinnustaði. Margt fleira mætti nefna. 

Þetta á líka við um kirkjuna og þjónustu hennar. 

Til dæmis um allt er snertir andlát.

Þegar ástvinur fellur frá vakna fjölmargar spurningar hjá fólki sem hefur kannski aldrei leitt hugann að þeim sérstöku aðstæðum þegar andlát í fjölskyldu ber að. 

Þá er gott að geta leitað á einn stað til að fá allar helstu upplýsingar í stuttu og skýru máli. 

Það er því við hæfi að opna í dag á allra heilagra messu vandaða og fallega heimasíðu sem nefnist Útför í kirkju.

Kjalarnessprófastsdæmi hefur unnið að gerð þessarar heimasíðu síðastliðið ár í samstarfi við fjölmarga aðila, m.a. presta, djákna og organista prófastsdæmisins.

Þetta eru tímamót.

Dagur þakklætis og fyrirbæna
Í dag er allra heilagra messa – hún er alltaf haldin fyrsta sunnudag í nóvember. Það er gamall messu- og minningardagur sem hefur nánast runnið saman við allra sálnamessu og hefur þróast með þeim hætti að þakkað er fyrir líf þeirra sem látin eru og beðið fyrir sálum þeirra. Þessi dagur dagur verður oft mjög persónulegur vegna þess að fólk hugsar sérstaklega til látinna ættingja sinna og vitjar gjarnan leiða þeirra.

Þörfin var brýn

Kirkjan.is spurði sr. Stefán Má Gunnlaugsson, héraðsprest, nánar út í málið en hann hefur haldið utan um verkefnið.

„Hugmyndin að kynningarefni um útför hefur verið til umræðu um nokkurt skeið hér innan Kjalarnessprófastsdæmis,“ segir sr. Stefán Már, „og líklega er þetta ein af þeim fjölmörgu hugmyndum sem vakna í samtali við presta, djákna, formenn sóknarnefnda og annað starfsfólk kirkjunnar í prófastsdæminu.“

Sr. Stefán Már segir að aðgengilegt efni um útförina hafi verið af mjög skornum skammti þrátt fyrir að útförin væri mjög sérstakur þáttur í starfi safnaðanna sem og í starfi prestsins. 

„Það má vel segja að útförin sé mjög mikilvægur þáttur í starfi kirkjunnar,“ segir sr. Stefán Már, „Kirkjan hefur ávallt lagt metnað sinn í þessa þjónustu, vandað til verka og lagt sig fram um mæta fólki með skilningi og hlýju á þessum stundum.“

Hann segir að nútíminn geri körfur um að allar upplýsingar eigi að vera innan seilingar og því hafi verið brýnt að bregðast við þeirri þörf. Prófasturinn, sr. Þórhildur Ólafs, taldi nauðsynlegt að svara skjótt þessu kalli nútímans og ákvað að ýta verkefninu úr vör. 

„Vinna við verkefnið hófst í október á síðasta ári þegar prófastur setti málið á dagskrá og í framhaldinu óskaði héraðsnefnd Kjalarnessprófastsdæmis eftir tilnefningum í starfshóp um gerð kynningarefnis um útfarir,“ segir sr. Stefán Már. 

Starfshópinn skipuðu sr. Jón Helgi Þórarinsson, sr. Arndís G. Bernhardsdóttir Linn, Arnór Vilbergsson, organisti, og sr. Stefán Már. 

Ákveðið var að skipta verkefninu í þrennt: gefa út hefðbundinn bækling, móta verklag fyrir kirkjuna og setja upp heimasíðu með ítarlegum og aðgengilegum upplýsingum fyrir almenning. 

Á næstu dögum er svo von á bæklingnum og verður hann kynntur sérstaklega.

Hvað gera aðrar kirkjur?

Sr. Stefán Már segir að legið hafi nokkuð beint við að kanna hvað systurkirkjur okkar á Norðurlöndunum hafi gert í þessu efni. Eftir nokkra athugun og vangaveltur var komist að þeirri niðurstöðu að efni frá dönsku þjóðkirkjunni væri hentugast. 

„Við ákváðum styðjast við framsetningu texta dönsku þjóðkirkjunnar og fengum sr. Hrein Hákonarson til að þýða efnið yfir á íslensku,“ segir sr. Stefán Már.

Fallegur íslenskur siður 
Sr. Stefán Már segir að enda þótt margt sé líkt með íslensku þjóðkirkjunni og þeirri dönsku í þessu efni þá sé alltaf einhver blæbrigðamunur sem þurfi að taka tillit til. Hann segir að í Danmörku séu sálmar til dæmis nær ráðandi í öllum útförum og fólk hafi mun minna val en við hér á landi. Þá nefnir hann hinn séríslenska sið sem eru minningargreinarnar í Morgunblaðinu. Þeim þætti séu gerð góð skil á heimasíðunni. „Þá bættum við líka við köflum og textum sem við töldum mikilvægt að hafa með þar sem fjallað væri t.d. um börn og útfarir og hvernig foreldrar geta hjálpað börnunum að syrgja með sínum hætti“, segir sr. Stefán Már.

Fjöldi fólks kom að verkinu

Efni heimasíðunnar var unnið í góðu samstarfi við presta, djákna og organista prófastsdæmisins sem komu að yfirlestri efnisins og lögðu fram margar gagnlegar ábendingar. Auk þess hefur Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, komið að gerð heimasíðunnar og starfshópur um tónlist við útfarir. Ítarlegur yfirlestur var í höndum sr. Braga Ingibergssonar, Matthildar Bjarnadóttur, sr. Sighvats Karlssonar, Olgu Bjartrar Þórðardóttur og sr. Eysteins Orra Gunnarssonar. 

„Við erum mjög þakklát þessum vaska hópi sem lagði hönd á plóg,“ segir sr. Stefán Már, „samstarfið við hann var einstaklega gott.“ Hann getur þess einnig að verkefnið sé unnið í samstarfi við Biskupsstofu og það sama eigi við um áframhaldandi þróun þess. „Það eru margvísleg tækifæri til þess að þróa síðuna áfram,“ segir sr. Stefán Már.

Kjalarnessprófastsdæmi vakandi fyrir nýjungum

Kirkjan.is spyr hvers vegna Kjalarnessprófastsdæmi hafi ákveðið að taka forystu í þessu mikilvæga þjónustuverkefni.

„Í gegnum árin hefur skapast hefð í prófastsdæminu fyrir margvíslegri bókaútgáfu um guðfræði og kirkju,“ segir sr. Stefán Már. Prófastsdæmið hafi m.a. í tilefni af 500 ára siðbótarafmælinu staðið fyrir þýðingu og útgáfu Lútherslestra fyrir hvern dag ársins. 

„Nú eru breyttir tímar og ekki sama þörf fyrir upplýsingar eða efni á pappír eins og áður og því einsýnt að fyrsti hluti verkefnisins væri heimasíða sem væri aðgengileg öllum,“ segir sr. Stefán Már. „Verkferillinn er svipaður og þegar bók er gefin út, en í stað prentsmiðju fara samskiptin fram í gegnum fyrirtæki í vefsíðugerð.“

Sr. Stefán Már vonast til að heimasíðan muni nýtast allri kirkjunni við að kynna mikilvæga þjónustu hennar, auka skilning og auðvelda aðstandendum undirbúning útfarar.

„Það er von okkar að þetta framtak megi verða fólki til leiðsagnar og gagns á viðkvæmum tímum,“ segir sr. Stefán Már að lokum. 

Kirkjan.is óskar Kjalarnessprófastsdæmi til hamingju með þetta mikilvæga verkefni og efast ekki um að það muni verða nauðsynlegt hjálpartæki þegar fólk stendur andspænis andláti ástvinar og þarf að undirbúa útför.

Á heimasíðunni er að finna upplýsingar um flest sem viðkemur útför í kirkju og þjónustu kirkjunnar. Yfirlit yfir það sem þarf að huga að við undirbúning útfarar ásamt umfjöllun um hvað er útför, tilgang sálma og tónlistar, börn og útför, sálgæslu kirkjunnar og hvar er hægt að sækja sér styrk og aðstoð. Efninu er ætlað að auðvelda fólki undirbúning útfarar og fræða um útfararsiði kirkjunnar.

Útför í kirkju 

Kjalarnessprófastsdæmi

hsh




 

  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Viðburður

  • Fræðsla