Sr. Árni Sigurðsson, pastor emeritus, kvaddur

3. nóvember 2020

Sr. Árni Sigurðsson, pastor emeritus, kvaddur

Sr. Árni Sigurðsson (1927-2020) Mynd: Héraðsskjalasafn A-Hún.Sr. Árni Sigurðsson, fyrrum sóknarprestur á Blönduósi, lést 26. október s.l., á Litlu-Grund í Reykjavík. Hann verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju 5. nóvember n.k.

Sr. Árni fæddist 13. nóvember 1927 á Sauðárkróki. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson, yfirdómslögmaður og síðar sýslumaður, og Guðrún Stefanía Arnórsdóttir, húsfreyja. Sr. Árni var kvæntur Eyrúnu Gísladóttur, hjúkrunarfræðingi, en hún lést 1997. Þau eignuðust tvö börn, Arnór og Hildi.

Sr. Árni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1949 og embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1953. Síðar stundaði hann framhaldsnám í guðfræði við Lundarháskóla í Svíþjóð, 1960-1961. 

Sr. Árni vígðist sem aðstoðarprestur í Hvanneyrarprestakall í Borgarfirði 4. október 1953, var þar í tvö ár; gerðist sóknarprestur í Hofsósprestakalli 1955-1962 og var síðan veitt Norðfjarðarprestakall. Þar var hann í fimm ár eða til 1967 en þá var honum veitt Þingeyrarklaustursprestakall með aðsetur á Blönduósi. Hann lét af prestsskap 1997 fyrir aldurssakir en gekk eftir það um tíma í afleysingar í Kjalarnessprófastsdæmi.

Samhliða prestsskap sinnti sr. Árni kennslu við Bændaskólann á Hvanneyri, Kvennaskólann á Löngumýri, Barna- og unglingaskólann á Hofsósi, Gagnfræðaskóla – og barnaskóla Neskaupstaðar. Einn vetur kenndi hann við Menntaskólann á Akureyri.

Sr. Árni sat á kirkjuþingi 1986-1994. Hann stóð traustan vörð um þjónustu þjóðkirkjunnar úti á landsbyggðinni; talaði fyrir ýmsum málum er snertu náttúrvernd, kirkju og menningu, kirkju og þjóðfélagsmál.

Náttúruvernd var eitt af hugðarefnum sr. Árna og var hann meðstofnandi Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi og í stjórn þeirra um hríð; í stjórn Skógræktarfélags A-Húnavatnssýslu og í umhverfis- og náttúrverndarnefnd A-Húnavatnssýslu.

Sr. Árni var og formaður Norræna félagsins í A-Húnavatnssýslu hátt í tvo áratugi og sömuleiðis formaður Rauða krossins um skeið í sýslu sinni.

Sr. Árni var margfróður maður um menn og málefni. Hann hafði lifandi áhuga á býsna mörgu en þó voru náttúrverndarmál honum ætíð hugleikin og tók snemma að huga að þeim og áður en það varð almennt. Ritaði margar greinar og hugvekjur í bækur, blöð og tímarit.

Hann hafði sig alla jafna ekki mikið í frammi og kom fyrir sjónir sem ögn hlédrægur maður. En það var ekki hann, hafði bara ekki þörf fyrir að standa í einhverju sviðsljósi. Hann var glaðsinna maður þó það sæist ekki alltaf í fyrstu, en glampi í auga og vægt órætt bros sagði margt. Hafði gott skopskyn og gat líka verið innilega hneykslaður frá hjartans dýpstu rótum á ýmsu sem ekki var honum að skapi – svo hló hann að því. Góður félagi og bandamaður.

Sr. Árni Sigurðsson er kvaddur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.

hsh





  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju