Viðtalið: Ein fer og önnur kemur

4. nóvember 2020

Viðtalið: Ein fer og önnur kemur

Sú sem fer og sú sem kemur: Hólmfríður Ingólfsdóttir og Herdís Friðriksdóttir í setustofu Skálholtsskóla

Það var fyrsti dagurinn hennar.

Og síðasti dagurinn hennar.

Hólmfríður Ingólfsdóttir hefur staðið vaktina í Skálholti í nærri þrjá áratugi. Hún hefur séð fólk koma og fara, biskupa og rektora. Kokka og kennara. Gesti og gangandi. Alls konar fólk.

Nú er hún sjálf að fara. Síðasti dagurinn. Eftir farsælt starf á stað sem henni er kær.

En hún var að koma. Herdís Friðriksdóttir heitir hún. Fyrsti dagurinn hennar.

Kirkjan.is var á staðnum á þessum tímamótum.

Þær stöllur ræddu málin og Herdís hlustaði á hvert orð sem kom af vörum hinnar reyndu konu, Hólmfríðar.

Herdís er nýráðin framkvæmdastjóri Skálholts – og Hólmfríður er fráfarandi, í raun fráfarandi allt í öllu á staðnum því að hún hefur gengið svo segja í öll störf í Skálholti.

Skálholt er kirkjumiðstöð. Menningarstaður. Helgur staður. Skóla-og sögustaður. Staður fólksins. Þar hefur listin búið, tónlist, ritlist, myndlist. Ráðstefnur, kyrrðardagar, námskeið, fundir, listviðburðir ...og þannig mætti lengi telja. Margir fastir dagskrárliðir hafa skotið þar djúpum rótum eins og Sumartónleikarnir svo dæmi sé nefnt.

Skálholt er einstakur staður.

Slíkur staður þarf gott fólk sem hefur metnað fyrir hönd hans og kirkjunnar.

Fólk eins og Hólmfríði og Herdísi.

Herdís er öflug kona og vel menntuð. Hefur rekið sitt eigið ferðaþjónustufyrirtæki. Hún kann því til verka þegar kemur að því að laða fólk í Skálholt og finna það sem fólk vill sjá og heyra á þessum merka stað.

„Ég bý auðvitað að reynslu úr eigin fyrirtæki,“ segir Herdís og bætir því við að hún hafi að auki fararstjóramenntun.

Og Hólmfríður fræðir hana um allt sem hefur drifið á daga hennar í Skálholti. Hún hefur frá miklu að segja og Herdís veit að reynslan er haldtraust verkfæri í starfi sem þessu.

„Þetta eru náttúrlega einkennilegir tímar,“ segir Herdís, „og fáir á ferli vegna kórónufaraldursins og ég get þess vegna nýtt tímann vel við að spá og spekúlera í staðnum og möguleikum hans.“ Hún segist sjá margt fyrir sér á staðnum og klæjar í fingurna að reyna eitt og annað og að vekja upp það sem áður var á staðnum. „Hingað komu til dæmis fermingarbarnahópar víðs vegar af Suðurlandi á hverju ári í mörg ár,“ segir hún, „og mér finnst að við verðum endilega að fá þessa hópa aftur.“ Herdís segir það liggja í augum uppi að fermingarbörn verði að koma á þennan mikla sögu-og menningarstað sem Skálholt er.

Hólmfríður tekur undir það og segir að þessar skipulögðu heimsóknir hafi verið mjög kærkomnar og tekist afskaplega vel og það sé miður að þær hafi einhvern veginn lognast út af.

Saga og menning er við hvert fótmál og nýi framkvæmdastjórinn Herdís sér þar mörg tækifæri. Auðvitað þurfi að vinna sögulega dagskrárliði í Skálholti í samvinnu við gott og öflugt fólk. Það þurfi líka að hafa vakandi augu fyrir því sem er að gerast í menningargeiranum og af því tilefni berst talið að nýrri bók eftir Seðlabankastjórann, dr. Ásgeir Jónsson, sem heitir: Uppreisn Jóns Arasonar. Það er auðvitað hinn fornfrægi biskup sjálfur sem höggvinn var í Skálholti 7. nóvember 1550. Þar spyr höfundur meðal annars hvað siðaskiptin hafi kostað Ísland. Þó hann hafi verið Hólabiskup hafa Skálhyltingar ætíð minnst hans með virðingu. Og spurt er: Er komið efni í málþing í Skálholti?

Framkvæmdastjóri Skálholts fylgist vel með menningunni og því sem hægt er að tengja við Skálholt.

Miklar vonir eru bundnar við framkvæmdir á svokölluðu móttökuhúsi í Skálholti.

„Það verður mikil breyting þegar móttökuaðstaðan er komin í gamla biskupshúsið,“ segir Herdís. Þar stendur til að hafa kaffiteríu og opið rými fyrir ferðamenn ásamt þjónustu. Þess er ekki langt að bíða að framkvæmdir hefjist. Það fyrsta sem gert verður er að styrkja vegg við norðurhlið hússins svo hægt sé að fylla þar upp og gera inngang. Þá stendur til að færa bókasafn Skálholts úr turni kirkjunnar í kjallara hússins. Flutningur bókasafnsins verður að fara fram fyrr en síðar en til stendur að fara í töluverðar viðgerðir á kirkjunni á næstunni. 

Svo má ekki gleyma því að margir hafa sterkar skoðanir á Skálholti og hvernig öllu eigi þar að vera fyrir komið.

En framkvæmdastjóri Skálholts er í framlínunni og kynnist staðnum í hversdeginum og hátíðunum. Andar með honum og lifir.

Herdís er glaðleg kona og fús til verka. Lætur augljóslega ekkert stöðva sig og sér tækifæri í öllum hornum til að efla hag og stöðu Skálholtsstaðar. Kirkjan er heppin að hafa fengið hana til starfa eins og Hólmfríði á sínum tíma.

Kirkjan.is spyr Hólmfríði hvað bíði hennar við starfslok.

„Ég hef nóg að gera,“ segir hún með hlýju brosi, „alltaf nóg að gera í garðinum og prjónaskapnum.“ Og garðurinn hefur auðvitað margvíslega merkingu þó að Hólmfríður sé Garðyrkjuskólagengin og hafi ræktað túlípana í Hollandi fyrir nærri hálfri öld þá á hún líka stóra fjölskyldu og sín hugarðefni. Og Skálholt heldur áfram að vera kirkjustaðurinn eini í huga Hólmfríðar enda Skálholtsdómkirkja sóknarkirkja hennar.

Þegar Hólmfríður gekk út af skrifstofunni í Skálholti á mánudaginn sat Herdís í stólnum hennar. Nýtt andlit á staðnum. Hólmfríði fannst það gott, vissi að starfið var í góðum höndum. Og Herdís veit að hún getur leitað til hennar ef með þarf – hún er ekki langt undan. Það er gott að vita.

hsh


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Covid-19