Fólkið í kirkjunni: Kirkju bjargað

6. nóvember 2020

Fólkið í kirkjunni: Kirkju bjargað

Kvíabekkjarkirkja í Ólafsfirði

Hvað á að gera við allar þessar gömlu kirkjur? Kirkjuhúsin eru menningarverðmæti, segja sögu og geyma margar hverjar dýrgripi.

Gömlu kirkjurnar eru margar vítt og breitt um landið. Flestar eru í góðu standi. Aðrar eru í miður góðu standi. Allar framkvæmdir og viðhald kosta sitt. Í sumum sóknum eru kannski margar gamlar kirkjur. Þær eru friðaðar og njóta þá ákveðins stuðnings frá opinberum aðilum.

Í Ólafsfjarðarprestakalli eru tvær kirkjur. Sú eldri er lítil timburkirkja á Kvíabekk. Hún var reist að sumarlagi árið 1892 en þá um veturinn hafði kirkjan fokið. Nýja kirkjan var byggð að nokkru leyti úr viði þeirrar sem fokið hafði en sú hafði verið byggð þremur árum áður.
Kirkja var svo reist niður í horni eins og þau segja fyrir norðan, árið 1915 og vígð í desember það ár. Það er Ólafsfjarðarkirkja.

Kirkjunni á Kvíabekk var mjög breytt árið 1969 og 1975 og segir í Kirkjum Íslands að þær breytingar hafi verið „afdrifaríkar fyrir byggingarlist hennar,“ (Kirkjur Íslands, 9. bindi, bls. 136).

Ástand kirkjunnar á Kvíabekk er ekki gott. Hún er fremur illa á sig komin og rætt var fyrir nokkrum árum í fullri alvöru að annað hvort þyrfti að taka hana ofan eða byggja upp.

Breytingar á kirkjunni sem gerðar voru á sínum tíma af umhyggju hrundu Kvíabekkjarkirkju hins vegar milli skips og bryggju. Hún hefur verið ögn umkomulaus þarna fram í sveit sunnan við kaupstaðinn Ólafsfjörð. Kirkjan má muna sinn fífil fegri enda sóknarkirkja Ólafsfjarðarsóknar frá því snemma á 13. öld og þar til kirkja var reist á Ólafsfirði árið 1915 sem áður sagði.

Nú hafa nokkrar Ólafsfirðingar og velunnarar Kvíabekkjarkirkju komið henni til varnar með samstilltu átaki.

Hvað sem hver segir þá er kirkjan á Kvíabekk elsta hús Ólafsfjarðar. Hollvinum hennar rennur blóðið til skyldunnar og vilja rétta henni hjálparhönd en ekki varpa henni fyrir ætternisstapa.

Hollvinafélag kirkjunnar á Kvíabekk var stofnað 22. október s.l. í safnaðarheimili Ólafsfjarðarkirkju. Formaður þess Guðlaugur Magnús Ingason og með honum í stjórn eru Svanfríður Halldórsdóttir, Halldór Andri Árnason, Anna María Guðlaugsdóttir, Kamilla Ragnarsdóttir. Varamenn í stjórn eru Snjólaug Ásta Sigurfinnsdóttir og Hjalti Bergsteinn Bjarkason.

Félagið er stofnað til að lagfæra Kvíabekkjarkirkju. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir næsta sumar. Veturinn verður notaður til undirbúnings.

Kirkjan.is sló á þráðinn til eins stjórnarmanna, Önnu Maríu Guðlaugsdóttur, en hún er formaður sóknarnefndar Ólafsfjarðarkirkju.

Hún er friðuð
„Kirkjan er friðuð,“ segir Anna María „þó svo að breytingar hafi verið gerðar er allt hið innra byrði upprunalegt sem og margir gripa hennar.“ Kvenfélag Kvíabekkjarkirkju bað sóknarnefndina á sínum tíma að geyma gripi kirkjunnar vegna þess að hún var alltaf höfð opin. Allir gripirnir verða settir í kirkjuna þegar búið verður að laga hana. Á sínum tíma hafi gamla altaristaflan frá 1736 farið á Þjóðminjasafnið og vill fólk gjarnan fá hana aftur ef hún er í því standi að hægt væri að sýna hana þegar búið verður að endurbæta kirkjuna

„Kirkjan verður hífð af grunni næsta sumar,“ segir Anna María full af framkvæmdahug og er það liður í verkinu vegna þess að grunnurinn hefur gliðnað og sigið á pörtum.

Anna María er margfróð kona og hefur grúskað í gömlum skjölum á skjalasafni sem snerta Kvíabekkjarkirkju. Hún hefur til dæmis farið höndum um frumrit af bréfi þar sem fram kemur að bændur kaupa kirkjuna af sókninni árið 1915 og síðan gefa þeir hana til sóknarinnar þegar flestir voru fluttir úr sveitinni.

„Það er margt fólk á Ólafsfirði sem á sterkar taugar til Kvíabekkjarkirkju,“ segir Anna María, og segir að það sé hugur í fólki hvað endurbætur á kirkjunni snertir. Fólk vill koma þessu gamla og prúða kirkjuhúsi til bjargar.

Stendur til að færa kirkjuna til upprunalegs horfs?

„Það er hugmyndin,“ segir Anna María, „að turninn og forkirkjan komi aftur eins og var.“ Á sínum tíma var turn tekinn af og klukknaport sett á þakið og forkirkjan látin renna saman við kirkju, byggð í fullri breidd kirkjunnar sjálfrar.

Hún segir að langafi sinn, Þorgrímur á Karlstöðum hafið farið á hesti sínum í þrígang til að sækja kirkjuklukkur niður í Fljót að Brúnastöðum en þar hafði verið kirkja sem tekin var ofan. „Ein klukknanna er enn í Kvíabekkjarkirkju en hinar eru í Ólafsfjarðakirkju,“ segir Anna María.

„Langafi minn var einn af þeim bændum sem keyptu kirkjuna á sínum tíma,“ segir Anna María stolt og ljóst er að henni finnst allt málið sér mjög skylt.

Ljós lýsir veg
Petra Rögnvaldsdóttir (1908-2008) ólst upp á Kvíabekk og var alltaf send af móður sinni með kerti til að setja upp í kirkjuturninn til að lýsa þeim leið sem komu yfir Lágheiðina frá Fljótum svo að þeir færu rétta leið yfir ána niður í fjörðinn og yrðu ekki úti.

Anna María segir að eigandi Kvíabekkjar sé byggingameistari og muni koma að endurbótum kirkjunnar ásamt öðrum. Hann hafi gift sig í kirkjunni fyrir tíu árum og faðir hans hafi verið sá síðasti sem var jarðsettur í Kvíabekkjarkirkjugarði. Þannig hafi fólk ýmsar tengingar við kirkjuna og vilji leggja málinu lið.

Kirkjugarðurinn að Kvíabekk var stækkaður á sínum tíma og búið er að teikna upp göngustíga og meðal annars að svokölluðum spítalahól fyrir ofan Kvíabekkjarkirkju en þar stóð elliheimili presta.

„Kvenfélag Kvíabekkjarkirkju á sjóð og félagið hefur bara verið að bíða eftir því að framkvæmdir hefjist,“ segir Anna María og bætir við að til sé annar sjóður velunnara kirkjunnar. „Þetta er allt þessum gömlu konum að þakka sem vildu kirkjunni vel,“ segir hún. Kvenfélagið sé enn til og sú sem stofnaði það er enn á lífi, 93 ára gömul – hún var einu sinni meðhjálpari og staðarhaldari í Kvíabekkjarkirkju, Huld Kristjánsdóttir, þá búsett á Vermundastöðum fram í sveit.

Þessi saga af Kvíabekkjarkirkju er ein saga af mörgum. Hve fólki er annt um hús sem tengjast þeim tilfinningaböndum, bæði persónulega og samfélagslega. Kirkjan stendur í þakkarskuld við svo ótal marga einstaklinga sem hafa haft sig lítt á oddi en hafa lagt fram sinn drjúga skerf hvort heldur það er vinna, fé eða góðhugur, og fyrirbæn.

Nú bíður Kvíabekkjarkirkja þess að hollvinir hennar komi með sumarið til hennar þegar kórónuveiruvetrarbönnum léttir.

Anna María er félagsmálakona, ekki bara í forystu sóknarnefndar heldur og formaður skógræktarfélagsins og sjálfboðaliði í mörgu. Hún vann áður sem forstöðukona menningarhússins Tjarnarborg.

Anna María, sóknarnefndarformaður á Ólafsfirði, er ein af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh



Inni í kirkjunni - altarið og altaristafla


Kirkjan er fest niður á hornum með keðjum


Kórgafl kirkjunnar


Kirkjuhurð

Myndirnar tók hsh í júlí 2011


Kvíabekkjarkirkja 1960 - mynd úr Kirkjum Íslands, 9. b. bls. 126

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Trúin

  • Frétt

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar