Æskan í netheimum

13. nóvember 2020

Æskan í netheimum

Landsmót ÆSKÞ er ekki í tjaldi heldur í netheimum

Enda þótt kórónuveirufaraldur trufli samfélagið með ýmsum hætti þá bregður hann ekki fæti fyrir allt.

Landsmót ÆSKÞ hefur alla jafnan verið vel sótt og að þessu sinni verður það haldið með rafrænum hætti. Í netheimum.

Það er auðvitað nýjung og verður spennandi að sjá hvernig til tekst.

Mótið hefst á morgun.

Kirkjan.is spurði í morgun Jóníu Sif Eyþórsdóttur, framkvæmdastjóra ÆSKÞ, hvaðan mótinu yrði stjórnað.

„Frá Grensáskirkju,“ svarar hún að bragði, „og hafa þegar um eitt hundrað skráð sig.“

Dagskráin er fjölbreytt að hennar sögn og hefst kl. 11.00 í fyrramálið og lýkur kl. 18.00.

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, mun setja mótið kl. 11.00. Síðan mun sr. Sindri Geir Óskarsson sjá um fræðslu sem vekur örugglega áhuga ungmennanna að sögn Jónínu Sifjar.

Þá verður gerð tilraun með því að hafa hópastarf á netinu. Það liggur spenna í loftinu með hvernig til muni takast með það. Það er nýjung. Og nú reynir á!

Þegar hóparnir hafa lokið störfum verður blásið til GooseChase-keppni. Eða: Gríptu gæsina! Það er stundum kallað verkefnið ómögulega. Þátttaka í leiknum er öllum opin hvort sem þau eru skráð á landsmót eður ei. Um að gera að krækja sér í appið GooseChase í símann og finna leikinn sem heitir: LIVELANDSMOT.

Leikurinn felst í ýmsum misflóknum verkefnum og er keppikeflið að safna sem flestum stigum. Leikur hefst kl. 12.00 og honum lýkur kl. 16.00.

Spurningakeppni er ætíð vinsæl meðal yngri sem eldri. Þegar búið verðu að grípa gæsina er slakað á eins og hægt er við að svara spurningum. Hin sívinsæla spurningakeppni ÆSKÞ slær allt út. Sigurvegarar fá verðlaun.

Æskulýðsvaka bindur svo lokahnútinn á hið sérstaka æskulýðsmót í netheimum. Þar mæta til leiks bræðurnir Jón og Friðrik Dór Jónssynir.

En eins og vera ber á kristilegu æskulýðsmóti er því lokið með helgistund sem hefst kl. 18.00.

Svo er eitt í lokin: Enn er hægt að skrá sig: skraning@aeskth.is

Eitt er víst. Þetta eru viss tímamót að halda æskulýðsmót með þessum hætti og fróðlegt verður að sjá hvernig til tekst.

hsh

ÆSKÞ

Facebókarsíða ÆSKÞ


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Æskulýðsmál

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar