Landsmótið tókst vel

15. nóvember 2020

Landsmótið tókst vel

Stjórnendur voru að vonum ánægðir í lok mótsins enda tókst það vel - þarna eru þau í höfuðstöðvunum í Grensáskirkju - skjáskot hsh

Kirkjan.is fylgdist síðdegis í gær dálítið með landsmóti ÆSKÞ 2020 (Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar). Þetta var óvenjulegt mót (er annars nokkuð venjulegt um þessar mundir?) þar sem það fór fram í netheimum og sagði kirkjan.is aðeins  frá því í fyrradag.

Um eitt hundrað ungmenni voru skráð til mótsins í netheimum og gekk sambandið snurðulaust fyrir sig þó stundum kæmu einhverjir hnökrar í ljós en það jafnaði sig.

Alla jafna stendur landsmót ÆSKÞ yfir í rúmlega tvo daga en vegna hins margfræga ástands var því hespað af með glæsibrag á einum degi eða frá kl. 11.00 og til 18.30. 

Kirkjan.is fylgdist til dæmis með spurningaleiknum og virtust öll sem þátt tóku í honum ná sambandi strax. Þátttakendur voru bara brattir eins og einn sem spurði hvort svara ætti á ensku eða íslensku þegar spurt var hvort þau könnuðust við íslenska textann á lagi nokkru sem búið var að snara yfir á íslensku. Það átti náttúrlega að svara á íslensku.

Gaman var að sjá þátttakendur dilla sér í takt við tónlist landskunnra tónlistarmanna. Það var líflegur mannlífsskjár þar sem skær ljómi æskunnar sveif yfir og hver fékk að vera með sínu sniði. Það er enda gjöf lífsins og hennar var augljóslega notið með miklu þakklæti og einlægri gleði. Þarna var svo sannarlega að sjá framtíð kirkjunnar og því mikilvægt að hlúa að þessu starfi af röggsemi og skynsemi.

Sr. Dagur Fannar Magnússon hafði í lokin um hönd stutta helgistund og lagði út frá guðspjalli dagsins í dag um meyjarnar tíu og gerði það með hefðbundnum hætti og vel.

Að sögn Jónínu Sifjar Eyþórsdóttur, framkvæmdastjóra ÆSKÞ, var heildaráhorf ríflega yfir sjö hundruð manns og var hún að vonum ánægð með það.

Það besta sem mótshaldarar geta fengið í lok svona móts eru þakkir foreldra en þær streymdu inn. Sýnir það vel að mótið tókst vel.

Næsta mót verður ekki í netheimum heldur vonandi í kjötheimum á Sauðárkróki - 2021.

Heimasíða ÆSKÞ

hsh


Spurning númer átta í leiknum .... - skjáskot hsh


Spurning númer tíu í leiknum .... - skjáskot hsh


Þessir létu ljós sitt skína - og raddir hljóma - skjáskot hsh


Sr. Dagur Fannar Magnússon sá um helgistund - hér blessar hann þátttakendur með rafrænum hætti - skjáskot hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju