Bók um kristna íhugun

22. nóvember 2020

Bók um kristna íhugun

Bókin er góður vegvísir fyrir iðkun kyrrðarbænarinnar

Leiðin heim, vegur kristinnar íhugunar, eftir Thomas Keating (1923-2018) á fullt erindi til allra þeirra sem velta fyrir sér tilgangi lífsins frá ýmsum sjónarhornum og ekki síst kristinni trú. Hún getur án efa styrkt trúarlíf einstaklingsins, andlega leit, og opnað fyrir honum eða henni ýmsar nýjar dyr og vakið upp margar hugsanir. Margir hafa enda þá sögu að segja af kynnum sínum við kristna íhugun, hugleiðslu.

Skálholtsútgáfan gefur út og þýðandi er sr. Karl Sigurbjörnsson.

Viðfangsefni bókarinnar er kyrrðarbæn – hugleiðslubæn og samtal milli þessarar kristnu trúarhefðar og sálfræði nútímans; segja má samtals milli þessar trúarhugleiðsluhefðar og nútímans, hvað þessi aðferð getur kennt og stutt manneskjuna í flóknum vef nútímans. Já, gömul aðferð við hugleiðslu og bænahald hefur verið kölluð á vettvang til að styðja og ræða lífið sjálft, trú, tilgang og hið rétta sjálf sem og hið falska. Farið er yfir nokkuð víðan völl því að af miklu er að taka og fyrir vikið verður ferðalagið með bókinni bæði fjörlegt og eftirminnilegt. Andleg reisa og lyftistöng á kórónuveirutíma!  

Það er mjög skemmtilegt hvernig höfundur fléttar inn í hugmyndir sínar um hugleiðsluaðferðina frásögnum úr lífi sínu í klaustrinu og því sem hendir hann á öðrum vettvangi. Hann er snjall að tengja saman og vekja lesanda til umhugsunar – margur Ameríkumaðurinn kann svo sem einmitt til verka í þessum dúr.

Sálfræði er aldrei langt undan í umfjöllun höfundar. Hann segir trúarþroskann bera þess merki að manneskjan er ekki meðvituð um duldar hvatir hið innra með sér. Svo er að skilja sem að tilfinningar (minni?) úr frumbernsku geti krælt á sér. Þær móta alla þætti í lífi manneskjunnar. Þær eru jákvæðar vegna þess að þær „styrkja bjagaða sjálfsmynd okkar.“ (Bls. 12). Það er náttúrlega margt sem er gefið fyrirfram með staðhæfingum af þessu tagi. Enn er bætt í þegar sagt er: „Kjarni kristins trúarlífs er glíman við ómeðvitaðar forsendur tilfinninganna.“ (Bls. 23) Sú setning er reyndar útskýrð með ágætri dæmisögu. Hann talar um tilfinningakerfi hamingjunnar og þar kemur þroskasálfræðin við sögu og útskýrir margt – sem og erfiðar tilfinningar.

Thomas gekk í klaustur því hann vildi verja lífi sínu í leit að sameiningu við Krist. Lýsing hans á klausturlífinu er athyglisverð og eftirminnileg. Þetta var ströng klausturhreyfing og hann átti eftir að verða ábóti. Einhvern veginn fær lesandi það á tilfinninguna að honum hafi svo sem ekki alltaf liðið vel í klaustrinu (nú baráttan við heiminn aldrei langt undan) en hann ber virðingu fyrir því og segir því ekkert til hnjóðs – nú, og kannski var ekkert neikvætt um það að segja út frá sjálfri hugmyndafræðinni.

Fylgd með Kristi er ævafornt viðfangsefni kristinna manna og þarf ekki að hafa mörg orð um það. Sú fylgd gengur misjafnlega eins og öllum er kunnugt um. Thomas segir fylgdina vera eins og að vinna með sállækni sem hefur „skýra innsýn í það sem amar að manni.“ Guð snerti svo við aumu blettunum. (Bls. 31).

Sem fyrr segir er sálfræðin ekki langt undan hjá Thomasi og hennar hlutverk er ekki lítið. Hún hefur varpað ljósi á meinið mikla, ástand mannsins (hann kallar það svo sem áður var nefnt upprunasynd/erfðasynd), eðli þess og orsök. Hún er orðin „ambátt guðfræðinnar“ – hún staðfestir „með nýjum hætti innsýn guðfræðinnar í opinberun Guðs“ (bls. 42). Hér er margt spennandi á ferð og víst er að margur samsinnir því innilega að sálfræðin (nú eða glögg alþýðleg innsýn í mannlegt líf!) geti varpað ljósi á margt þegar kemur að trúarlífi einstaklings og tilfinningum hans bundnu því – trúarlífssálfræðin kemur þar við sögu. Bæn, og hvaða nafni sem hún kann nú að verða nefnd, er ferli sem gerist hið innra í manneskjunni, í huga hennar þar sem tilfinningar ráða för ásamt mörgu öðru sem er í farangursgeymslu hennar. Bænin getur verið bundin í orð, streymt fram í hugsun, tilfinning, sýn án orða o.m.fl.

Falleg er frásögnin af Bernie (bls. 72nn) og gott dæmi um hvernig hún fellur að því sem Thomas er sjálfur að segja, hann er heppinn að hafa kynnst honum; sú persóna er kærleikurinn holdi klæddur. Þá rekur hann sögu Antóníusar hins heilaga einsetumanns í Egyptalandi á fjórðu öld (bls. 83). Þar er margt býsna umhugsunarvert og í raun efni í hugleiðingar.

Thomas ræðir um samsemd við guðdóminn, eða umbreytandi sameiningu (bls. 138 og áfr.). Dæmi um hana er þolgæði í sjúkdómum (bls. 140). Þú ert í heiminum, hversdeginum, en lifir með Guði, ert þess fullviss, þetta er einhvers konar vitundarstig. Þetta er stórmerkilegt stig – fólk getur til dæmis helgað sig þörfum annarra og látið tilfinningar þeirra liggja á milli hluta. Leiðin að þessu stigi er elska til Jesú Krists – ýmsar týpur eru til af þessu trúarbáli í trúarsögunni og bókmenntum. Kjarninn í kenningu frelsarans eru sæluboðin – segir Thomas – sem eru viskuorð og vísa til vitundarstiga, gæða þeirra og takmarkana. Umfjöllun um þau eru bara ágætis trúfræði og ritskýring.

Thomas ræðir kjarna kyrrðarbænarinnar í 20sta kafla og segir þar hvað hún er ekki: hún er ekki tækni, ekki töfrateppi, ekki náðargjöf, ekki dulræn reynsla þó margt skylt því gerist stundum í bænalífi fólks (en Thomas gagnrýnir að hugleiðslubæn/kyrrðarbæn sé tengd upplifunum og dulrænum fyrirbærum, bls. 158). Hún er ekki sjáanleg í ytri eða innri fyrirbærum heldur á vegi hreinnar trúar – þar sem er að finna þrönga hliðið sem leiðir til lífsins (bls. 158). Það er semsé hin hreina trú – og hún getur náttúrlega vafist fyrir mörgum svo sem kunnugt er á ýmsum bæjum.

Maðurinn lifir í fallinni veröld, firrtur nærveru Guðs. Kyrrðarbænin hjálpar manninum í heiminum, „lækna afleiðingar hinnar föllnu mennsku“ (bls. 174) – hið falska sjálf mannsins treður á öðrum. Keppikeflið verður að rífa niður tilfinningakerfi sem eru vanabundnar hugsanir og verk, það er allt sem tengist einhverju neikvæðu, tilfinningar sem raska ró; neikvæðar tilfinningar eru á vissan hátt eitraðar – það er Guð sem hjálpar til við að rífa tilfinningakerfin niður, rífa niður hina vanabundu neikvæðni. Hann gefur ráð til að kveða í kútinn truflandi hugsanir (bls. 183), við mætti bæta æðruleysisbæninni. Þetta er jákvæð niðurrifsstarfsemi til þess að ljós fái að skína inn í líf manneskjunnar.

Nokkur hópur stundar kyrrðarbænina hér á landi – eða hugleiðslubænina – og haldnir hafa verið í Skálholti svokallaðir kyrrðarbænadagar. Kyrrðarbænarhópurinn hlýtur að fagna útkomu þessarar bókar á íslensku.

Fram kemur í bókarbyrjun að bókin á rætur sínar í myndbandsefni sem kallað var Andlegt ferðalag þar sem Thomas Keating var aðalfyrirlesari ef rétt er skilið. Efnið er hans, Thomasar Keating. Hér fyrir neðan má og sjá myndband með honum en hann er einkar líflegur á skjánum og býr yfir persónutöfrum.

Fyrir nokkrum árum kom út önnur bók eftir hann, Vakandi hugur, vökult hjarta, í þýðingu Nínu Leósdóttur, guðfræðings.

Þetta er sem sé hin áhugaverðasta bók – og væri heppileg til nákvæms samlestrar í góðum hópi. Kaflarnir hennar 24 eru upplagðir í námskeið fyrir áhugasama söfnuði þegar kórónufaraldur kveður.

Sr. Karl Sigurbjörnsson þýddi bókina. Ekki er alltaf auðvelt að þýða verk af þessu tagi en sr. Karli bregst ekki bogalistin frekar en fyrri daginn – þýðingin gæti ekki verið betri. Textinn rennur vel og er ekkert þýðingarbragð af honum heldur aðeins skýrleiki sem er borinn uppi af innsæi þýðandans samfara þekkingu á efninu sem er hvort tveggja nauðsynlegt í þýðingarverki sem þessu.

hsh

Kyrrðarbænasamtökin

Skálholtsútgáfan - útgáfufélag þjóðkirkjunnar 


Thomas Keating (1923-2018)

  • Guðfræði

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju