Nýr forstöðumaður

Umsóknarfrestur um starf forstöðumanns Fjölskylduþjónustu kirkjunnar sem kirkjuráð auglýsti laust til umsóknar rann út 11. október s.l.
Fimm sóttu um starfið.
Sr. Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur, hefur verið ráðinn í forstöðumannsstöðuna.
Sr. Vigfús Bjarni er fæddur í Reykjavík 1975. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1995 og guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 2001. Þá lauk hann M.Th.- prófi frá Luther Seminary í Minnesote í Bandaríkjunum árið 2003.
Hann var vígður til sjúkrahúsprestsþjónustu 2005 á Landspítala-Háskólasjúkrahús. Árið 2018-2019 starfaði hann sem mannauðsstjóri þjóðkirkjunnar.
Sr. Vigfús hefur kennt meðfram starfi sínu sem sjúkrahúsprestur á ýmsum námskeiðum við Endurmenntun Háskóla Íslands, og verið fyrirlesari í hjúkrunarfræðideild og læknadeild. Þá hefur hann verið annar umsjónarmanna með sálgæslunámi á meistarastigi við endurmenntun H.Í., sem sett var á laggirnar 2018.
Jafnframt hefur hann flutt fjölda fyrirlestra um sorg og áföll, komið að handleiðslu, og birt greinar í ýmsum tímaritum sem tengst hafa sálgæslu.
Sr. Vigfús Bjarni hefur setið í stjórn Prestafélags Íslands og sat eitt kjörtímabil á kirkjuþingi.
Sr. Vigfús Bjarni mun taka við forstöðumannsstarfi Fjölskylduþjónustu kirkjunnar innan tíðar.
hsh