Prestur við sjó

28. nóvember 2020

Prestur við sjó

Sr. Sigríður Munda Jónsdóttir við altari Þorlákskirkju

Sjórinn hefur aldrei verið langt undan í lífi hennar. Alin upp við Hvalfjarðarströndina og hélt svo norður í Ólafsfjörð í prestsskap að loknu guðfræðiprófi og vígslu. Var þar í nær sextán ár. Þekkti engan þar er hún kom en vandist fljótt hrynjandi tilverunnar þar. Síðan Þorlákshöfn – nú í júní á þessu ári.

Árið 2020 hefur meira og minna borið þess merki að heimsfaraldur hefur gert vart við sig. Þessi faraldur hefur sett margt úr skorðum og þar með talið allt kirkjustarf. Sr. Sigríður Munda Jónsdóttir, nýr sóknarprestur í Þorlákshöfn hefur fengið að kynnast því.

Það er ekki langt að fara frá Reykjavík til Þorlákshafnar sem tilheyrir sameinuðu bæjarfélagi undir nafninu Ölfus. Fyrstu merkin um mannlíf á leiðinni þangað er golfvöllur sem blasir við austan við þjóðveginn. Átján holu völlur og í fjarska sá í tvo kylfinga í sunnlenska hráslaganum stumra yfir holum og kerrum. Nýi sóknarpresturinn hlýtur að vera hæstánægður með þetta, hugsar kirkjan.is, enda er hann golfari.

Þegar inn í þorpið er komið sér í eitt aðalkennileiti þess, kirkjuna, sem er reisulegt hús, yst í byggðinni við sjóinn.

Hvar annars staðar?

Þorlákshafnarprestakall er myndað af tveimur sóknum, annars vegar af Þorláks- og Hjallasókn og Strandarsókn hins vegar. Kirkjurnar eru þrjár, Þorlákskirkja í Þorlákshöfn og Hjallakirkja í Ölfusi í annarri sókninni og Strandarkirkja hin fræga í hinni.

„Ég kom hingað í maímánuði síðastliðnum,“ segir sr. Sigríður Munda.

Síðan hefur hver mánuðurinn liðið sem hefur verið með öðrum hætti en ætlað var.

Prestur og prestsdóttir stendur sína vakt

Hún segir að taktur mannlífsins sé svipaður í Þorlákshöfn og Ólafsfirði. Höfnin hafi alltaf visst aðdráttarafl og margt snúist í kringum hana og sjóinn. En margur í Þorlákshöfn vinnur í næstu bæjarfélögum og sumir í Reykjavík. Þetta sé í raun eitt stórt atvinnusvæði.

Sr. Sigríður Munda hefur reglulega viðveru í kirkjunni. Stendur þar sína vakt sem sóknarprestur. Hún segir að fólkinu þyki gott að vita af því og margir koma þangað ýmissa erinda. Það getur líka sest niður í kirkjunni sinni og átt sína stund með sínum hætti.

Sr. Sigríður Munda er prestsdóttir, faðir hennar var sr. Jón Einarsson (1933-1995), sóknarprestur og prófastur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, atkvæðamikill kirkjumaður á sinni tíð, og móðir hennar er Hugrún Guðjónsdóttir.

Var hún ákveðin í því að verða prestur, stúlkan sem alin var upp við Hallgrímskirkju í Saurbæ? Þeirri spurningu er skotið að sr. Sigríði Mundu og búist við jákvæðu svari.

„Nei, alls ekki,“ svarar hún ákveðið. Þó hún hafi haft gaman að því að skottast með föður sínum eins og hún segir, „út í kirkju í kjól og sportsokkum, með borða í hári,“ og í messur hér og þar barn að aldri, þá hvarflaði það ekki að henni í sjálfu sér að ganga inn á starfsvettvang föðurins. Ófáar voru flugurnar sem hún sópaði upp í kirkjunni fyrir föður sinn og þau systkinin hreinsuðu iðulega mosa og gróður úr minningarsteininum yfir sr. Hallgrími Péturssyni í Saurbæjarkirkjugarði.

„Ég lærði fyrst uppeldis- og menntunarfræði í háskólanum,“ segir hún. Samhliða þessu námi máttu stúdentarnir taka kúrsa í öðrum deildum. Sr. Sigríður Munda leit við í guðfræðideildina og tók trúarlífsálfræði. Síðan lauk hún BA-prófi en innlit í guðfræðideildina hafði vakið áhuga hennar og hóf hún nokkru síðar nám í deildinni „Einhvern veginn leiddi eitt af öðru,“ segir hún. Guðfræðiprófinu lauk hún 2003 og vígðist svo norður í október ári síðar.

„Ég er fjórði sóknarpresturinn hér,“ segir sr. Sigríður Munda. „Fyrstur var sr. Tómas Guðmundsson í Hveragerði, svo sr. Svavar Stefánsson, þá sr. Baldur Kristjánsson. Sr. Jón Ragnarsson þjónaði líka hér í veikindaforföllum sr. Baldurs og svo leysti sr. Arnaldur Bárðarson á Eyrarbakka hér af um tíma.“

Sr. Sigríður Munda keypti sér snoturt raðhús í Þorlákshöfn þegar hún kom austur og hún veit að fólk kann vel að meta það þegar presturinn býr á meðal fólksins. Það sé styrkur fyrir það og samfélagið – og prestinn.

Allt í biðstöðu

Starfið í prestakallinu er með allt öðrum hætti en venja er.

Hún segir að samkomutakmarkanir hafi sett kirkjustarfinu ákveðnar skorður, eins og nánast öllu öðru í samfélaginu. Helgihaldið á haustmánuðum hafi nánast einskorðast við skírnir, útfarir og hjónavígslur. Allt er í biðstöðu en þó á einhverri hreyfingu.

Kirkjustarf hófst að litlu leyti, sr. Sigríður Munda hóf fermingarstarfið í ágústmánuði og hefur hitt börnin vikulega þegar samkomutakmarkanir leyfa, fermingarbörnin eru á þriðja tug. Sunnudagaskólinn hefur verið í hléi, sömuleiðis foreldramorgnarnir.

Margt bíður, eins og heimsóknir til sóknarbarna. Varúðar er gætt, og það sé gott. Hún segist aðeins hafa messað fimm sinnum frá því að hún kom. Á hvítasunnudag, sjómannadag og svo tvisvar í september. Einnig var messað í Strandarkirkju í sumar. Presturinn sinnir viðtölum og veitir þeim sem til hans leita liðsinni.

Fjarfundir hafa verið með prestum og er sr. Sigríður Munda ánægð með þá. Alls eru fimmtán prestar í þessu stóra prófastsdæmi, Suðurprófastsdæmi. Sr. Sigríður Munda er á samstarfssvæði með Selfossi og Hveragerði og snýst það meða annars um skipulag á kærleiksþjónustu og sorgarvinnu – það stendur til að bjóða fólki upp á sorgarvinnuhópa svo dæmi sé nefnt. Eins er stefnt á að auka samstarf um helgihald yfir sumarið.

Hún segist vera lánsöm með sóknarnefndir, það sé gott fólk og áhugasamt. Þá sé ágætt samband við stofnanir í bæjarfélaginu.

Jólin á næsta leiti

„Já, jólin,“ segir sr. Sigríður Munda hress í bragði, „fyrstu jólin mín í Ólafsfirði gerði svo mikið norðanbál um allt Norðurland að jólamessur féllu niður á aðfangadag og jóladag.“ Hún bætir því svo við, kankvís á svip: „Kannski það verði jólamessufall á fyrstu jólunum mínum hérna eins og fyrir norðan en bara af öðrum ástæðum?“

En að sjálfsögðu vonar hún að jólahelgihald geti orðið með sem eðlilegustum hætti. Það verður bara að koma í ljós. Þetta eru óvissutímar – og betra að fara að öllu með gát þegar um skæðan og lúmskan faraldur er að ræða. 

Söguleg skírn

Í lokin berst talið að skírn því að börnin fæðast og þau eru borin til skírnar. Hún hefur skírt þó nokkuð mörg börn frá því að hún kom til Þorlákshafnar. Fátt er ánægjulegra í starfi prests en að skíra barn.

Sr. Sigríður Munda skírði á þessu ári sjötta barnið í sömu fjölskyldunni í Ólafsfirði – það var kannski svona í kveðjuskyni – hér er mynd frá þeirri athöfn og börnin öll sem hún skírði á nokkrum árum. Kannski bíður hennar eitthvað svipað á þessum nýju slóðum sem hún er komin á – og bíður þess með óþreyju eins og allir að kórónuveirufaraldrinum linni – en sem betur sér í land í Þorlákshöfn með það eins og annars staðar. Hvenær það hins vegar næst er óljóst. En það verður, já það næst.


Söguleg skírn í Ólafsfjarðarkirkju: Frá vinstri: Sr. Sigríður Munda, Bríet Brá, Gunnlaugur, fyrir framan hann er Áslaug Anna, Ásgerður og heldur á nýskírða barninu, Sunnu Mjöll, fyrir framan hana er Ellen Ýr, Einar Ingi, og Fjóla María

Þorlákskirkja
Í Þorlákskirkju er hátt til lofts og vítt til veggja. Það sér út til beggja handa, til hafs og lands. Kirkjan var vígð 1985 og er kennd við Þorlák Þórhallsson, biskup í Skálholti, en hann var tekinn í helgra manna tölu á 12. öld og var útnefndur verndardýrlingur Íslands af þeim í Róm 1984. Kirkjan er teiknuð af Jörundi Pálssyni arkitekt. Hún er mjög rúmgóð og sviphrein, tekur 150 manns í sæti. Altaristaflan er múrrista eftir Gunnstein Gíslason. Stefið er: „Drottinn, bjarga þú mér!“ (Matteus 14.30). Prédikunarstóll, altari og skírnarfontur eru úr slípuðu íslensku grágrýti. Útihurð kirkjunnar er með útskornum myndum úr ævi Jesú Krists á sex flötum. Kirkjan á marga góða og fallega gripi sem hún hefur fengið að gjöf - meðal annars eina handprjónaða hökul landsins sem er prjónaður af Gunnari Markússyni, skólastjóra og meðhjálpara. Orgel kirkjunnar er íslenskt, smíðað af Björgvini Tómassyni. Allt umhverfi kirkjunnar er fagurt og vel um hirt.


Séð inn eftir Þorlákskirkju í Þorlákshöfn

hsh









  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Covid-19

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju