Fjölbreytni í jóladagatali

3. desember 2020

Fjölbreytni í jóladagatali

Jóladagatalið hefur yfirskriftina: Sú von er svo sönn... - skjáskot

Kirkjan er samfélag fólks sem kemur saman. Þegar skorður eru settar fyrir því að fólk geti komið saman fer kirkjan aðrar leiðir til að efla samfélagið. Hún kemur til fólks eftir nýjum leiðum.

Ein þessara leiða er jóladagatal á aðventu. Dagatalið dregur fram boðskap aðventunnar sem er koma jólahátíðar þar sem frelsarinn er í öndvegi. Enginn annar situr þar þótt ýmsir vilja setjast í það öndvegi.

Jóladagatal er sem ljósleiftur í dagsins önn. Þótt það sé aðeins um ein mínúta á lengd með tónlist og boðskap þá getur það setið lengi í huga þess sem hlustar og horfir. Þátttakendur koma úr öllu litrófi kirkjusamfélagsins, ungir sem aldnir, konur og karlar. Einmitt það eitt og sér er heillandi.

Kjalarnessprófastsdæmi sendir frá sér vandað og yfirgripsmikið jóladagatal sem unnið er undir stjórn héraðsprestsins, sr. Stefáns Más Gunnlaugssonar.

Kirkjan.is spurði sr. Stefán Má hvort svona jóladagatal hefði áður verið búið til af þeim í prófastsdæminu.

„Nei, við höfum ekki gert svona dagatal áður,“ svarar sr. Stefán Már, „en okkur fannst það tilvalið við þessar sérstöku aðstæður í samfélaginu að fá fólk með breiðan bakgrunn úr kirkjustarfinu til að fjalla um aðventuna og vonina, en um leið minna á fjölbreytt starf kirkjunnar sem jú vissulega er ekki eins áberandi núna og oft áður.“ Hann segir að leitast sé við að leggja áherslu á að láta fjölbreytnina ráða ríkjum í jóladagatalinu. „Í söfnuðum Kjalarnessprófastsdæmi mætast nefnilega sveit, þorp og borg, og sjávarútvegur, landbúnaður og allt þar á milli.“

En ekkert gerist af sjálfu sér. Góðar hugmyndir spretta upp og það er ráðist í að koma þeim í verk. Prófasturinn, sr. Þórhildur Ólafs, greip þess hugmynd á lofti og þar með fór boltinn að rúlla. Vinnuhópi var skotið saman og í honum voru þau sr. Henning Emil Magnússon, Erla Rut Káradóttir, organisti, og sr. Stefán Már Gunnlaugsson, héraðsprestur. Prestar og djáknar brugðust skjótt við og varla var vika liðin frá því að hugmyndinni skaut upp að upptökur voru hafnar í fyrstu kirkjunum og þær standa enn yfir. Enda aðventan rétt hafin.

„Það hefur verið gaman að hitta allan þennan fjölbreytta hóp sem hefur af svo miklu að miðla,“ segir sr. Stefán Már. „Það er stórkostlegt hvað fólk hefur verið til í að leggja verkefninu lið og það er einmitt okkar reynsla að þetta sé það sem einkenni mannauð kirkjunnar.“

Sr. Stefán Már segir að starfsfólk og sjálfboðaliðar í prófastsdæminu hafi sýnt ótrúlega snerpu og áhuga á tíma heimsfaraldurs einmitt þegar nauðsyn er að finna nýjar leiðir til að ná til fólks.

Það er Heiðar Aðalbjörnsson hjá Heiðarfilm sem sér um upptökur, klippingu og eftirvinnslu á myndböndunum.

Þegar spurt er hvort hægt sé að sjá hve margir horfa á myndböndin svarar sr. Stefán Már svo: „Vissulega skiptir áhorfið máli, en eins og með allt kirkjustarf þá er það ekki fjöldinn sem skiptir máli heldur hvaða fræjum er sáð með fagnaðarerindinu.“

Hægt er að sjá jóladagatalið á Facebókarsíðu og heimasíðu Kjalarnessprófastsdæmis, Facebókarsíðum kirkna í prófastsdæminu og víðar. Hér fyrir neðan eru fyrstu tveir gluggar jóladagatalsins. 

hsh

 

 

 

 

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Covid-19

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju