Flott framtak

4. desember 2020

Flott framtak

Sr. Jón Ómar Gunnarsson og sr. Pétur Ragnhildarson ræða málin

Ekki er annað hægt segja annað en að kirkjunnar fólk láti hendur standa fram úr ermum á kórónuveirutíma. Það lætur ekki veiruna loka dyrum kirkjunnar heldur miklu frekar verður hið margfræga ástand til að bryddað er upp á ýmsum nýjungum og ekki skortir hugmyndirnar. Og ýmsar nýjar kirkjudyr eru opnaðar fólki til gleði og styrkingar.

Tveir ungir prestar í Breiðholtinu taka sér fyrir hendur og ýta úr vör vefþáttarseríu þar sem þeir fjalla um Markúsarguðspjall. Nú þegar hafa þrír þættir litið dagsins ljós og þrír aðrir bíða þess að komast í loftið. En það verður ekki alveg strax því að örstutt hlé verður gert á þeim til að hleypa jólunum að. Hvað annað! Rætt verður um stef jólanna. Og eftir jólin fara svo þættirnir þrír um Markús guðspjallamann út á öldur ljósvakans.

Þetta eru þeir sr. Jón Ómar Gunnarsson og sr. Pétur Ragnhildarson sem standa að þessu verki í samvinnu við útvarpsstöðina Lindina sem varpar út á rásinni FM 102.9. Þættina er einnig hægt að fá í appi Lindarinnar og svo hefur þeim verið deilt á Facebókarsíðu Fella- og Hólakirkju.

Kirkjan.is ræddi við sr. Pétur Ragnhildarson um þetta og spurði fyrst hvað hafi kveikt hugmyndina að þáttargerðinni.

„Við sr. Jón Ómar höfum um nokkurt skeið rætt að okkur langi til að efla biblíufræðslu í kirkjunni vegna þess að það skiptir máli að miðla boðskap hennar til fólks“, svarar hann hress í bragði. „Við vitum auðvitað að vef- og podcastþættir hafa notið mikilla vinsælda undanfarið og því fannst okkur áhugavert að nýta þessa miðla.“

Hann segir að hugmyndin hafi svo vaknað fyrir alvöru þegar þeir prestarnir voru að spjalla saman um prédikunarskrif og að þeir þyrftu oft að skera niður áhugaverðar pælingar og staðreyndir bæði til þess að prédikunin yrði ekki of löng og til að vera innan tímamarka guðsþjónustunnar.

„Báðir þekkjum við margt trúað fólk sem hefur áhuga á Biblíunni en myndi kannski ekki endilega af ýmsum ástæðum mæta á fræðslustund í kirkju eða verða sér sjálft út um ritskýringarit og lesa,“ segir sr. Pétur.

Og hvernig væri möguleiki að mæta til dæmis þessum áhugasama hópi og fleirum í þessum nútímaaðstæðum?

Í gegnum netið – tæpast er til öflugri miðill til að fleyta ýmsu áfram í nútímanum og þá þar með töldu guðsorði.

„Við ákváðum að búa til vefþættina ,,Markús” til að fjalla um Biblíuna og ýmis rit og þemu innan hennar með von um að ná til þessa hóps sem ég nefndi og allra þeirra sem vilja dýpka þekkingu sína á orði Guðs, Biblíunni,“ svarar sr. Pétur og er fullur af eldmóði.

Og kirkjan.is smitast af eldmóði hins unga manns og spyr: Já, þið takið fyrir Markúsarguðspjall. Með hvaða hætti? Lesið þið ykkur eitthvað til í skýringaritum eða látið þið andann blása einhverju skemmtilegu í brjóst – og óvæntu?

„Í þáttunum tökum við fyrir ákveðin textabrot hverju sinni og ræðum saman um það sem okkur finnst standa upp úr og vekur áhuga,“ svarar sr. Pétur. „Við höfum ákveðin skýringarit til hliðsjónar og deilum með áhorfendum og hlustendum ýmsum staðreyndum og textafræðilegum pælingum sem við höfum lesið“. Þar sem þættirnir eru í þægilegu spjallformi þá koma þeir sr. Pétur og sr. Jón Ómar einnig að persónulegum sögum eða segja frá því hvernig viðkomandi textabrot hafi haft áhrif á líf þeirra.

Sr. Pétur segir að upptaka þátttanna hafi gengið mjög vel og ekki hafi neitt staðið í þeim enda komið í ljós að báðir eru bara býsna málglaðir fyrir framan hljóðnemann og hafa frá mörgu að segja.

Og eigum við von á fleiri þáttum um önnur rit Biblíunnar? spyr kirkjan.is.

„Það er svo sem ennþá allt á hugmyndastigi hjá okkur,“ svarar sr. Pétur og segir að þeir séu vissulega að hugsa um að taka fyrir einhver önnur rit eða jafnvel persónur í Biblíunni og bætir svo við fullur af áhuga: „Við eigum eftir að móta það frekar.“

Kirkjan.is óskar þeim félögum, sr. Pétri og sr. Jóni Ómari, til hamingju með þetta glæsilega framtak sem er til fyrirmyndar.

Það hefur komið í ljós á kórónuveirutímanum að þjóðkirkjan hefur á að skipa vaskri og áhugasamri sveit karla og kvenna á öllum aldri í grasrótinni sem hefur gripið til ýmissa ráða til að koma boðskap kristinnar trúar áleiðis og lætur ekkert stöðva sig. Þjóðkirkjan þarf ekki að bera kvíðboga fyrir framtíðinni þegar svo lifandi og athafnasamt fólk er innan hennar raða.

hsh











  • Fræðsla

  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Nýjung

  • Samfélag

  • Trúin

  • Covid-19

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju