Hversdagurinn í augnhæð

6. desember 2020

Hversdagurinn í augnhæð

Góð bók og læsileg

Í augnhæð - hversdagshugleiðingar, er eftir sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur, sóknarprest í Grafarvogsprestakalli í Reykjavík, og það er útgáfufélag þjóðkirkjunnar, Skálholtsútgáfan, sem stendur að útgáfunni. 

Það er vel til fundið að gefa út bók með hugleiðingum fyrir hverja viku ársins. Eða fimmtíu og tvær hugleiðingar, nokkurs konar nútíma húslestrarbók, ef svo má segja, til mjög svo fjölbreytilegrar notkunar fyrir einstaklinga og safnaðarstarf.

Í inngangsorðum gerir höfundur stutta grein fyrir verki sínu. Þar kemur fram að efni bókarinnar er hversdagsglíma nútímamanneskjunnar þar sem stórar sem smáar spurningar verða á vegi hennar. Hugleiðingunum er ætlað að „hvetja og róa, gleðja og hugga“.

Manneskjan – og það er orðið sem höfundur velur meðvitað og gengur framhjá hinu gamla orði sem nær reyndar til karla og kvenna, maður, en hvað um það; og færir einnig málfar til „allra kynja“. Orðið manneskja vísar þá annað hvort til beggja kynja eða aðeins kvenna. Með þessu orðið er stuggað við hinum karllæga málheimi sem vissulega er yfirgapandi í helgum ritum. Fróðlegt er að rifja það upp út af fyrir sig að orðið manneskja er tökuorð úr lágþýsku og þýddi á miðöldum maður, mannkyn og mannskepna. En breyting hefur orðið á orðinu og það vísar huglægt og málfræðilega til kvenna - eða þá til beggja kynja, allra kynja, enda þótt kvenkynsorð sé.

Hversdagsleikinn er vettvangur manneskjunnar og kristin trú ávarpar þann vettvang – hún er ekki „sunnudagstrú“ eins og höfundur segir réttilega. Og sr. Guðrún fjallar einmitt á mjög skemmtilegan hátt í 35 viku um hversdaginn undir fyrirsögninni: Þegar ekkert sérstakt gerist. Hún segir að þessir venjulegu dagar geti verið dýrmætir – þeir eru nefnilega lífið sjálft: „...hversdagleikinn er kjölfestan.“

Síðan rekur hver hugleiðingin aðra. Allt eru þetta hinar læsilegustu hugleiðingar og skilja lesandann og lesöndina oft eftir með ýmsa þanka eins og góðri bók ber að gera. Hugleiðingarnar spanna breitt svið og höfundur kemur víða við. Mörg sviðsmyndin sem sr. Guðrún varpar fram ýtir eflaust hressilega við lesanda sé hann vakandi samfélagsþegn. Hvað er til að mynda að segja um útigangsmanninn sem hún nefnir í fyrstu hugleiðingu? Reyndar í Ástralíu. En útigangsfólk er alþjóðlegur jaðarhópur sem við sjáum hér á götum Reykjavíkur sem annars staðar. Hver er ábyrgð samfélagsins gagnvart því fólki? Trúarleg einlægni höfundar kemur vel fram andspænis þeim samfélagsvanda er hún segir í lok hugleiðingarinnar: „Ég bið þess að maðurinn í göngunum hafi einhverja manneskju í sínu lífi sem er tilbúin að grípa í hönd hans og reisa hann við ef hann einhvern tímann óskar þess.“

Hverdagslegt líf manneskjunnar er fjölbreytilegt og sr. Guðrúnu tekst vel að varpa ljósi á það. Mörg hinna hversdagslegu leiftra sr. Guðrúnar taka á tilfinningum manneskjunnar og er það vel. Manneskjan er tilfinningavera í hversdeginum sem og hátíðisdeginum. Hvernig bregst manneskjan við vonbrigðum? Höfnun? Aðdáun – svikum? Ást? Hvernig tekur hún á vanlíðan sinni? Lætur hún vanlíðan sína bitna á náunga sínum? Og þegar allt er ómögulegt við annað fólk er hið gamla ráð að líta í spegil (bls. 19).

Höfundur er nútímamanneskja og þekkir býsna vel sína tíð. Hún varar við öfgum í lífsstíl nútímamannsins með ágætri umfjöllun í níundu viku og niðurstaðan kemur svo sem ekki á óvart að þar er besta ráðið jafnvægi og öfgaleysi. Það á hvort tveggja við um trúarbrögð og lífsstíl, segir hún.

Hún er hressileg hugleiðingin um Evu og þekkinguna, hana er að finna í tíundu viku. Þar er móðir alls er lifir, Eva, höfuðpersóna, og höfundur samsamar sig henni: Eva ert þú og Eva er ég. Í lok þeirrar hugleiðingar fullyrðir höfundur að þekkingin bjargi ekki öllum konum. Það getur verið gott umræðuefni út af fyrir sig: Með og móti. – Á sama hátt dregur hún góðan lærdóm af hlutverki Maríu Guðsmóður þegar hún höfðar til lesenda að þeim sé einnig falið stórt hlutverk í lífinu – (fjórtánda vika). Og sennilega er hversdagurinn ekki lítill hluti af því stóra hlutverki.

Nýstárleg umfjöllun er um heilagan anda í 26 viku þar sem segir að andinn sé samvinna og löngun til að opna hugann. Þetta er hispurslaus umfjöllun um hin helga anda og vekjandi. Er andinn – spyr sr. Guðrún – „möguleikinn sem við búum yfir til þess að setja okkur í spor annarra?“ Umfjöllun hennar um heilagan anda er mjög svo nútímaleg og þarfleg manneskju hversdagsins sem botnar sennilega yfirleitt ekkert eða lítið í þessu hugtaki. Eflaust kunna einhverjir að reka upp ramakvein og vera ósammála túlkun hennar – það eru hins vegar engin tíðindi að fólk sé ekki sammála í guðfræðilegri túlkun og nálgun og ekki síst þegar rætt er um heilagan anda. En orð hennar um andann eru í samræmi við hversdagslegar áherslur í hugleiðingum hennar – að tala hreint út og vera allsendis ófeimin við það – og slíkt er alltaf styrkur í guðfræðilegri umræðu. Orð hennar um andann eru alveg í samhljóman við þær hugmyndir að hann sé kraftur Guðs, kraftur sem geti umbreytt, sé andvari Guðs sem kemur góðu til leiðar – andinn miðlar heilögum áhrifum sem geta komið fram með margvíslegum hætti. Enda ágæt lokaorð þeirrar hugleiðingar: „Heilagur andi tengir allt saman.“

Hugleiðingin um sorgina í 47 viku er afbragðsgóð og margt í henni er verðugt umræðuefni í hópi syrgjenda. Hið sama er að segja um hugleiðinguna sem á eftir kemur þar sem hún ræðir um fyrirgefningu og sátt. Hversdagurinn er harla oft vettvangur fyrirgefningar og sáttar, á vinnustað og heimili, í sál og huga. Og sumt er ekki á færi mannfólksins að fyrirgefa. Kristin trú leggur ríka áherslu á fyrirgefninguna segir höfundur og við það mætti bæta að kristin trú sé líka trú fyrirgefningarinnar – Guð fyrirgefur.

Þá er ein af lokahugleiðingum bókarinnar (nr. 49), Grímurnar, einstaklega holl og vel unnin – og við hæfi í hversdegi nútímamanneskjunnar – og ekki síst nú á kórónuveirutíð. Hún fjallar um það að draga mörk. Þau eru mörg í nútímasamfélagi sem telja sér leyfilegt að setjast um líf manneskjunnar, hvort heldur einkalíf eða opinbert líf. Það að setja öðrum mörk getur nefnilega verið í hæsta máta kristilegt. Og lýðræðislegt.

Þetta er reglulega góð bók sem er öllum gefandi lesning. Að auki fylgir það snjallræði bókinni sem er askja með styttir útgáfu hugleiðinganna. Enginn getur því afsakað sig með því að hafa ekki tíma til að lesa bókina! Styttri útgáfuna mætti kalla fjölvítamín! Þar er efni hugleiðinganna dregið saman í stuttu máli og hnitmiðuðu.

Kirkjan.is óskar sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur til hamingju með aldeilis ljómandi og frísklega bók sem verður mörgum kærkominn styrkur í hversdeginum, vekur marga til umhugsunar og gengur á hólm við ýmsar vanabundnar skoðanir.

Eins og margar bækur Skálholtsútgáfunnar – útgáfufélags þjóðkirkjunnar, er hún einnig heppileg í safnaðarstarf – í leshring, bæna -og íhugunarhópum. Það er mikill kostur og ættu söfnuðir að huga að því þegar kórónuveirutíð er að baki og þörf verður á að styrkja guðsríkisþrána í hringiðu hversdagsins.

hsh


  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju