Viðtalið: Aðventa lesin

18. desember 2020

Viðtalið: Aðventa lesin

Dr. Gunnlaugur A. Jónsson í Seltjarnarneskirkju

Kórónuveirutíð kallar á margar góðar hugmyndir. Eina fékk sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur á Seltjarnarnesi, og sú var að kalla til valinn hóp til að lesa hina rómuðu sögu Gunnars Gunnarsson, Aðventu.

Það eru fulltrúar úr sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju sem lesa söguna í þýðingu höfundar.

Lesarar
Dr. Gunnlaugur A. Jónsson flytur inngangorð og les svo fyrsta lestur. Síðan tekur dr. Sigurður J. Grétarsson við og les annan lestur, þá Ólafur Egilsson þann þriðja og sá fjórði er í höndum Guðmundar Einarssonar. Lestina reka þau Steinunn Einarsdóttir og Þórleifur Jónsson. Hver lestur tekur tæpan hálftíma og þá er að finna á heimasíðu kirkjunnar.

Fjörutíu sinnum

Sóknarpresturinn er svo heppinn að með áhugasamari Íslendingum um þessa sögu er einn lesaranna. Það er dr. Gunnlaugar A. Jónsson, prófessor í ritskýringu og guðfræði Gamla testamentisins, við Háskóla Íslands. Hann les söguna á hverju ári og kirkjan.is spurði hann fyrst hvort hann hefði tölu á því hve oft hann hefði lesið söguna.

„Árin eru að minnsta kosti orðin fjörutíu og ég held mér sé óhætt að segja að ég hafi aldrei misst úr ár og í einhver fáein skipti lesið oftar en einu sinni,“ svarar dr. Gunnlaugur og bætir því við að hann hafi verið beðinn um það í nokkur skipti að ræða söguna og flytja smá erindi í kirkjulegu samhengi.

En hvers vegna skyldi hann hafa tekið upp þennan sið?

„Það var í upphafi framhaldsnáms míns við Lundarháskóla í Svíþjóð að ég hitti minn góða leiðbeinanda prófessor Tryggve Mettinger,“ segir dr. Gunnlaugur, „Hann vildi forvitnast um hvað ég hefði helst lesið í gamlatestamentisfræðum og honum leist býsna vel á það allt saman.“ En síðan kom leiðbeinandinn hinum unga doktorsnema í opna skjöldu og spurði: „Hefurðu ekki lesið Aðventu Gunnars Gunnarssonar?“

Doktorsneminn varð ögn skömmustulegur á svipinn og svaraði því til að hann hefði nú aldrei gert það. „Það hef ég gert árlega í mörg ár,“ sagði hann og brosti vingjarnlega, „og það ættir þú líka að gera.“

Þetta varð til þess að dr. Gunnlaugur tók upp þennan sið og hefur haldið honum síðan. Í fyrstu las hann einkum þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar og stundum sænsku þýðinguna. Hann segist hafa lesið þýðingu höfundarins sjálfs hin síðari árin og einnig til gamans enska þýðingu.

Aðventa Gunnars Gunnarssonar hefur verið þýdd á annan tug tungumála.

„Í jólabréfum sem árlega fara á milli mín og prófessors Mettingers, míns gamla og góða leiðbeinanda, ber Aðventu undantekningalítið á góma,“ segir dr. Gunnlaugur, „og að sjálfsögðu hef ég fyrir löngu gefið honum bókina í íslenskri þýðingu.“

Benedikt, Leó og Eitill

„Það myndu líklega flestir segja að það sé aðeins ein aðalpersóna í sögunni og það er Benedikt sjálfur,“ segir dr. Gunnlaugur. En eftir því sem hann les söguna oftar þá segist hann taka sífellt betur eftir hve hans mikilvægu förunautar, hundurinn Leó og sauðurinn Eitill, hafi mikil og sterk persónueinkenni. „Það er talað um þá sem bestu vini Benedikts og allir þrír ganga þeir undir hinu trúarlega heiti þrenningin.“

Dr. Gunnlaugur segir það vera áberandi hve sterkum persónueinkennum Leó er málaður og hann verði fyrir vikið afar minnistæður. Í upphafi göngu þeirra félaganna upp á fjöll og firnindi er tekið fram að hann sé fremstur og Benedikt talar um hann sem félagann fágæta. Honum er og lýst sem mesta myndarpáfa. Hann leikur á als oddi, hann heilsar upp á húsmóðurina á Botni, ratar á sæluhúsið, gerir sig heimakominn og nýtur tilverunnar og lætur hvorki angrast né espast.

„Sakleysi hans og trúnaðartraust er borið saman við stopula trú mennskra manna,“ segir dr. Gunnlaugur. „Benedikt og hann skipta freðnum matnum bróðurlega. Uni Leó ekki aðgerðum Benedikts hins vegar ekki sem best lætur hann það í ljósi og kveinkar sér en annars staðar fagnar hann með glöðu gelti. Og þegar um lífið er að tefla í nístandi frostinu er það Leó sem tekur allt í einu að krafsa á ólíklegum stað og finnur þar jarðholuna þeirra og þar með eru þeir hólpnir. Loks halda þeir Benedikt og Leó jólin hátíðleg í grýtunni.“

Þannig er að mati dr. Gunnlaugs hlutur Leós í sögunni sannarlega mikill og eftirminnilegur og hafi hann þó aðeins fátt eitt nefnt.

En hvað er um boðskap sögunnar að segja?

„Hinir trúarlegu drættir sögunnar snerta mig mikið og sterkt og hinar biblíulegu vísanir eru svo margar og áhugaverðar,“ svarar dr. Gunnlaugur. „Aðventa hefur af sumum verið kölluð kristin dæmisaga, um að breyta eftir Kristi. Aðrir hafa varað lesandann við að setja sig í slíkar stellingar við lesturinn og enn aðrar telja söguna fyrst og fremst fjalla um íslenska hetjulund.“

Dr. Gunnlaugur segir að Gunnar dragi upp ákveðna hliðstæðu milli árlegrar ferðar Benedikts upp á fjöll og firnindi á aðventusunnudaginn og innreiðar Jesú í Jerúsalem. Hliðstæðan við hið biblíulega stef um hirðinn og hjörð hans sé dæmi um augljós biblíuleg einkenni.

„Fyrir mér birtist boðskapur sögunnar skýrast þar sem Benedikt veltir fyrir sér merkingu hugtaksins aðventa, sem fól í sér mikla helgi fyrir honum,“ segir dr. Gunnlaugur. „En jafnframt það að einhvers væri vant og undirbúningur einhvers betra. Þá segir einnig að eftir því sem árin færðust yfir Benedikt hafi líf hans verið orðin ein aðventa.“

Aðventa
„Því hvað var líf hans, rétt á litið, hvað var líf mannsins á jörðinni, ef ekki ófullkomin þjónusta, sem helgaðist af bið eftir einhverju betra, eftirvænting – undirbúningi – þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða.“ (9. útg., R. 2017, bls. 38)


„Þetta finnst mér góður boðskapur og ég upplifi þetta sem kjarnann í þessari annars margræðu sögu,“ segir dr. Gunnlaugur. „Aðventan er ekki bara bið eftir einhverju, heldur jafnframt ákvörðun um að láta gott af sér leiða. Það finnst mér okkur öllum hollur og kristilegur boðskapur.“

hsh


Guðmundur Einarsson, sóknarnefndarformaður, er einn lesaranna.
Marteinn Lúther er í miðjunni og hægra megin við hann er 
sóknarpresturinn, sr. Bjarni Þór Bjarnason


Innreið Jesú í Jerúsalem - texti 1. sd. í aðventu, mynd eftir Einar Hákonarson.
Trúarlegar tilvísanir fara ekki fram hjá þeim sem lesa Aðventu opnum huga: „Enda er þetta ról hans á aðventusunnudag inn eftir sveitinni á við kirkjugöngu. (Bls. 36). Og: Greinar þær sem fólkið skar af trjánum og kastaði fyrir fætur asnanum voru í lögun líkastar frostrósum á rúðu, en Benedikt vissi að þær voru ekki hvítar, þær voru grænar með sjálfa sólarorkuna geymda í hálum gljáandi blöðum. Og í samri svipan ómuðu orð ritningarinnar að heita mátti heyranleg utan úr geimnum, eins og bylgjur ljósvakans hefðu geymt þau og ekki þyrfti annað en leggja við hlustir: Sjá, konungur þinn kemur til þin hógvær og ríðandi á ösnufola, afkvæmi áburðargrips.“ (Bls. 40). Benedikt er ekki staddur á Betlehemsvöllum heldur á íslenskum öræfum og hann hugleiðir texta Matteusarguðspjalls 21 þar sem segir frá innreið Jesú í Jerúsalem


Seltjarnarneskirkja er fagurt guðshús


  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Sóknarnefndir

  • Trúin

  • Fræðsla

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju