Hjálparstarf í sóknum

19. desember 2020

Hjálparstarf í sóknum

Kærleiksmarkaðurinn í Ástjarnarkirkju

Það eru margar hjálpfúsar hendur á lofti fyrir jólin.

Ástjarnarkirkja auglýsti fyrir skömmu Kærleiksmarkað og er hann í kirkjunni. Þangað getur fólk komið á ákveðnum tímum og fengið margs konar varning, t.d. föt á börn og ungmenni, og föt á fullorðna. Einnig hitt og þetta sem tengist jólunum sem og búsáhöld. Ekki þarf að greiða eina einustu krónu fyrir neitt af þessu. Allt er gefið.

Kirkjan.is spurði sr. Arnór Bjarka Blomsterberg, prest við Ástjarnarkirkju, nánar út í þetta.

„Þessi markaður hefur ekki verið áður hér,“ svaraði hann alvörufullur á svip. „Undirbúningur hófst hjá góðum konum í sókninni á haustmánuðum, þar sem þær byrjuðu að safna að sér ýmsum munum; fötum, húsmunum, barnavörum og allskyns dóti.“

Hann segir að þegar líða tók að aðventu hafi þær einnig farið að taka við matargjöfum til að gefa áfram.

„Matargjafirnar hafa nánast enga viðkomu haft á markaðnum og rjúka út“, segir sr. Arnór Bjarki. „Markaðurinn var fyrst um sinn í Haukahúsinu í Hafnarfirði en fluttist svo í Ástjarnarkirkju og verður vonandi hér áfram á komandi árum.“

Kirkjan.is spyr hverjir gefi varninginn.

„Það eru ýmsir góðviljaðir einstaklingar og fyrirtæki sem vilja gefa til þeirra sem minna hafa á milli handanna en aðrir,“ segir sr. Arnór Bjarki.

Allir eru velkomnir á Kærleiksmarkaðinn og enginn þarf að segja deili á sér eða útskýra af hverju komið er á markaðinn. 

En áberandi fátækt í prestakallinu?
„Svo er sem betur fer ekki,“ segir sr. Arnór Bjarki og bætir því hins vegar við að fleiri hafi lagt leið sína á markaðinn en þau áttu von á og það sé svo sem ekkert vitað hvaðan það fólk kemur. „En það eru erfið spor fyrir margt fólk að taka, að koma á svona markað,“ segir hann og að þau í kirkjunni hafi þann hátt á að stofna ekki til samskipta við fólkið í þessum aðstæðum nema það sjálft hafi frumkvæði að því.

„Við reynum að vera mannleg í mannlegum aðstæðum,“ segir sr. Arnór Bjarki. 

Konur með stór hjörtu sem standa á bak við markaðinn
„Þetta eru þrjár kjarnakonur sem búa hér i sókninni sem hafa haft veg og vanda að þessu frábæra verkefni,“ svarar sr. Arnór Bjarki þegar hann er spurður hverjir hafi ýtt þessu starfi úr vör. Hann segir að ekkert kvenfélag sé starfandi í sókninni en kannski sé einmitt núna rétti tíminn „til að stofna eitthvað gott í þeim anda í kringum þetta verkefni, að minnsta kosti til að byrja með.“

Kórónuveiran setti kirkjustarfi margvíslegar skorður. Í Ástjarnarkirkju var til dæmis á hverjum sunnudegi „dásamlegt kirkjustarf“ eins og sr. Arnór Bjarki orðar það.

„Við buðum eftir allar sunnudagsmessur upp á heitan mat,“ segir sr. Arnór Bjarki. „Enginn kirkjugestur þurfti að borga fyrir matinn en frammi lá söfnunarbaukur sem tók við frjálsum framlögum.“

Það sem safnaðist í baukinn var nýtt óskipt til kaupa á Bónuskortum fyrir þau sem leituðu til kirkjunnar eftir aðstoð. Síðasta vetur var hægt að gefa fimmtán bónuskort með tíu þúsund króna inneign hvert, fyrir það sem safnaðist í baukinn á sunnudögum.

„Eftir að samkomutakmarkanir voru settar á höfum við því miður ekki getað safnað í baukinn eins og við hefðum helst viljað,“ segir sr. Arnór Bjarki. „Þar af leiðandi beinum við fólki til Hjálparstarfs kirkjunnar ef við fáum beiðnir um mataraðstoð.“

Sr. Arnór Bjarki ítrekar í lokin að Kærleiksmarkaðurinn gefi þurfandi fólki gott tækifæri til að finna falleg jólaföt og jólaskó, jafnvel jólagjafir.

„Og jólasveinar fá líka kjörið tækifæri til að finna eitthvað skemmtilegt í skóinn,“ segir hann í lokin með bros á vör.

Kærleiksmarkaðurinn er opinn í dag milli klukkan 10.00 og 12.00. Svo verður opið á mánudag og þriðjudag.

hsh


Inga Rut Hlöðversdóttir, kirkjuvörður í Ástjarnarkirkju


Úrval af skófatnaði og yfirhöfnum er gott

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju