Kynslóðir syngja saman

20. desember 2020

Kynslóðir syngja saman

Aðvenutkrans í Grafarvogskirkju

Í dag er fjórði sunnudagur í aðventu. Hann færir landslýð englakertið og þá loga fagurlega öll kertin fjögur á aðventukransinum: Spádómakertið, Betlehemskertið, hirðakertið og englakertið.

Útvarpað og sjónvarpað verður guðsþjónustu úr Grafarvogskirkju sem kallast Aðventuguðsþjónusta kynslóðanna en mikil áhersla verður lögð á fjölbreytilega jólatónlist fyrir alla aldurshópa.

Guðsþjónustan er með þrennu móti á öldum ljósvakans: Útvarpsmessa á gömlu góðu Gufunni kl. 11.00 og hún sýnd á sama tíma á RÚV 2, og síðar um daginn á aðalrás RÚV kl. 15.00.

Þessi sveigjanlega tímasetning hentar vonandi sem flestum og ef ekki þá er alltaf hægt að hlusta og horfa í Sarpnum. Þá streyma að sjálfsögðu margar kirkjur frá helgihaldi sínu og er augljóst að framboð af kristilegu efni er mikið og fjölbreytilegt.

Einn presta Grafarvogssafnaðar prédikar, sr. Sigurður Grétar Helgason en sr. Guðrún Karls Helgudóttir og sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir þjóna fyrir altari.

Tónlist skipar veglegan sess í guðsþjónustunni en það er organisti kirkjunnar, Hákon Leifsson, sem leikur á orgel og píanó. Barna- og unglingakór Grafarvogskirkju syngur ásamt félögum úr öðrum kórum kirkjunnar. Þau Sigríður Soffía Hafliðadóttir og Hákon Leifsson stjórna. Ýmsir hljóðfæraleikarar koma við sögu: Elísabet Waage leikur á hörpu, Ármann Helgason er á klarinettinu, og Auður Hafsteinsdóttir strýkur strengi fiðlunnar.

Þá verður brúðuleikhúsið á sínum stað en því stjórna Ásta Jóhanna Harðardóttir og Hólmfríður Frostadóttir.

Tvö börn lesa bænir, þau Sigurjón Daði Jónsson og Nadía Líf Guðlaugsdóttir.

Það er óhætt að taka undir sálmasönginn heima í stofunni eða hvar sem er – aðventusálmar sem ná beint til hjartans – með því að slá á númerið kemur texti sálmsins fram svo lesandi getur tekið vandkvæðalaust undir sönginn:

                                Sálmarnir
                    Við kveikjum einu kerti á nr. 560 
                    Kyrie nr. 871 
                    Englakór frá himnahöll nr. 91 
                    Nóttin var sú ágæt ein nr. 72 
                    Hin fyrstu jól (texti ekki í sálmabók, en sjá neðst)
                    Ljóss barn nr. 811 
                    Í þinni náð, ó, Guð nr. 883
                    Bjart er yfir Betlehem nr. 80 
                    Heims um ból nr. 82 

                    Forspil: Barn er oss fætt nr. 603 
                    Eftirspil: Slá þú hjartans hörpu strengi nr. 57 

Aðventa, fjórði og síðasti viðtalsþáttur sr. Guðrúnar Karls Helgudóttur, verður sýndur í kvöld kl. 21.00 á Hringbraut. Viðmælandi hennar er sr. Sigrún Óskarsdóttir, fangaprestur þjóðkirkjunnar.  

hsh

Hin fyrstu jól,
texti eftir Kristján frá Djúpalæk en lag eftir Ingibjörgu Þorbergs

Það dimmir og hljóðnar í Davíðsborg,
í dvala sig strætin þagga.
Í bæn hlýtur svölun brotleg sál
frá brunni himneskra dagga.
Öll jörðin er sveipuð jólasnjó
og jatan er ungbarns vagga.

Og stjarna skín gegnum skýjahjúp
með skærum lýsandi bjarma.
Og inn í fjárhúsið birtan berst
og barnið réttir út arma,
en móðirin, sælasti svanni heims
hún sefur með bros um hvarma.

Og hjarðmaður birtist, um húsið allt
ber höfga reykelsisangan.
Í huga flytur hann himni þökk
og hjalar við reifarstrangann.
Svo gerir hann krossmark, krýpur fram
og kyssir barnið á vangann.

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju