Góð bók um séra Matthías

26. desember 2020

Góð bók um séra Matthías

Athyglisverð bók um þjóðskáldð séra Matthías

Bókin Úr hugarheimi séra Matthíasar eftir dr. Gunnar Kristjánsson, fyrrum prófast, er mjög svo athyglisverð bók fyrir margra hluta sakir og þakkarverð. Bókin kom út fyrir jólin, Ugla gaf út, 304 bls.

Oft vantar sárlega í íslenska menningarumræðu greiningu á hugmyndafræði- og hugmyndasögulegu samhengi sem er mikilvæg til að umfjöllun sé skynsamleg og sanngjörn. Hér er ein slík greining á ferð og hver ef ekki guðfræðingur ætti að taka sér það verk fyrir hendur? Umfjöllun höfundar er fagleg og yfirsýn hans er umfangsmikil, gagnyrt og sanngjörn.

Matthías Jochumsson (1835-1920) er áhrifamaður í íslenskri menningu og þá er einkum litið til skáldskapar hans og prestsþjónustu, guðfræði. Hann er í raun risi í menningarsögunni sem menn hafa glímt við og reynt að átta sig á.

Í eftirmála kemur fram að bók dr. Gunnars á sér langan aðdraganda eða allt aftur til áttunda áratugar síðustu aldar. Ekki dró úr áhuga dr. Gunnars á skáldinu og prestinum þegar hann réðst til þjónustu í Reynivallaprestakalli sem undir liggja kirkjur séra Matthíasar, Brautarholt og Saurbær á Kjalarnesi. Þegar séra Matthías þjónaði Kjalarnesinu, Kjalarnesþingum, bjó hann á þeim kunna stað, Móum. Dr. Gunnar telur árin hans sex á Kjalarnesi og í Kjós vera „áhugaverðasta tímabil á ævi hans.“ (Bls. 45). Þetta voru árin 1867-1873, á því tímabili missti hann meðal annars tvær eiginkonur.

Bók dr. Gunnars skiptist í þrjá hluta.

Í fyrsta hluta er rætt um sr. Matthías og fyrstu prestskaparár hans í Móum á Kjalarnesi sem höfundur telur að hafa verið mótunarár hans sem prests og þau merkustu í lífi hans.

Annar hlutinn er guðfræðilegt úttekt þar sem fjallað er um transendentalista, Schleiermacher, frjálslynda guðfræðinga á Íslandi. Einnig um skáldprestinn sjálfan.

Þriðji hlutinn er í fimm hlutum. Þar er fjallað um skáld trúarinnar og trú hans. Um land og þjóð, erfi- og minningarljóð séra Matthíasar, og þjóðsönginn.

Dr. Gunnar leitar fanga víða við ritun þessarar bókar eins og við er að búast.

Það myndi sennilega vera allmikið áhlaupsverk að ná utan um hugmyndir skáldsins með einhverjum fræðilegum hætti ef ekki væri öðrum heimildum til að dreifa en bréfum skáldsins sem út komu 1935 og eru mikil náma – þar fer skáldið oft með himinskautum. Í bréfunum er hugur skáldsins svo opinn, hann er mikið elfur hugmynda, athugasemda og vangaveltna um smátt og stórt. En bréfaskrif eru líka ákveðinn stíll, þar geta menn látið eitt flakka í dag og annað á morgun, skipt um skoðun eftir því hvaða vindar blása í sálinni hverju sinni. Skáldið og presturinn skyldi margt fleira eftir sig en bréfin í óbundnu máli. Sjálfsævisaga sr. Matthíasar, Sögukaflar af sjálfum mér, kom fyrst út 1922.

Dr. Gunnar vinnur þetta verk sitt með miklum ágætum.

Menn veltu oft fyrir sér hvar í flokk ætti að skipa séra Matthíasi en ljóst var að trúarskoðanir hans voru fjörlegar og fljótandi að áliti ýmissa innan kirkjustofnunarinnar. Sjálfur leit séra Matthías á sig sem únitara. Dr. Gunnar telur hann vera hallan undir svo kallaða transendentalista – að minnsta kosti átti hann vel heima á meðal þeirra að mati hans: „... þar voru róttækir guðfræðingar og bókmenntamenn, þar var glímt um félagslegt réttlæti, þar voru kvenréttindi ofarlega á dagskrá strax í upphafi.“ (Bls. 162).

Um transendentalista fjallar dr. Gunnar í alllöngu máli á blaðsíðunum 122-159 en það er mikill fengur að því hjá honum þar sem hann tengir íslenska guðfræði við erlenda strauma og stefnur. Það eru persónueinkenni séra Matthíasar sem laða hann að þessum hópi: „Hann er ekki fræðimaður, hann fæst ekki við fræðistörf og hefur takmarkaðan áhuga á játningum og kenningum trúarinnar. Það er trúin sjálf sem heldur honum við efnið, leyndardómur hennar, inntak og eðli, þáttur hennar í tilvist einstaklingsins og gildi hennar í mannlegu samfélagi.“ (Bls. 160).

Guðfaðir transendentalista, únitaraprestuinn í Boston, William Ellery Channing (1780-1842) var „helsti áhrifavaldur á guðfræðihugsun séra Mattíasar.“ (Bls. 122). Hann brýtur mjög svo vel til mergjar áhrif Channings á séra Matthías.

Séra Matthías er sem sé veikur fyrir transendentalistum að mati dr. Gunnars – og þeir: „...fjölluðu um manninn sjálfan, virðingu hans og frelsi, hvaðeina sem þvingaði manninn undir framandi var var þeim andstætt.“ (Bls. 160). Þessi stefna hafði og samfélagslega hlið og gaf gaum að kjörum fólks – Channing var „baráttumaður í samfélagsmálum.“ (Bls. 123). Svo er að skilja að þetta hafi veri býsna víðtæk hreyfing með róttækum kennimönnum innanborðs, bókmenntamönnum, femínistum o.fl. Meginniðurstaða hans er sú að augljóst sé að séra Matthías hafi verið á „svipuðum slóðum og þeir í guðfræði og almennri lífsspeki.“ Og hann „talsvert mótaður af William Ellery Channing, þeim guðfræðingi sem mótaði transendentalistahreyfinguna öðrum fremur.“ (Bls. 284). Hann þekkti samfélag þeirra líka allvel (bls. 133).

Hvað er sannleikur? - Grein eftir séra Matthías í blaðinu Bjarka, 31. tbl. 13. ágúst 1902
„En fyrst ofurlitla persónulega játningu: Eftir meir en 30 ára viðleitni til að fræðast mjer til gagns um samanburð og afstöðu trúarmála í heiminum, játa jeg, að jeg kýs ekki að deyja í annari kirkju er (sic) móður vorri, þeirri sem kennd er við Lúther. En það stendur mjer á litlu, hvort aðrir kalli mjer það heimilt eða ekki; hver ályktar eftir sínum forsendum. Það eru hin fornu princip Lúthers og hans kirkju, sem jeg fylgi, en als ekki guðfræði þeirri, sem við hann er kennd – nema eftir frjálsu samkomulagi. Sá trúarflokkur, sem jeg stend næst, hvað kenningu og lífsskoðanir snertir, er sá flokkur, sem mjer þykir hófsamastur og vitrastur og best taka fram „skriftlærðum og Fariseum“ allra flokka, eru hinir svo nefndu Únítarar eða þeirra bestu menn.“

Skáldprestar voru í miklum metum hjá transendentalistum og fjallar dr. Gunnar um það efni. Skáld gegna ákveðinni prestsþjónustu með því að vekja fólk til umhugsunar um trúna og tendra neista hins heilaga i brjóstum fólks. Í því sambandi víkur hann að hinu kunna Guðfræðiskólaávarpi Ralph Waldo Emerson sem flutt var við Harvard-háskóla árið 1838. Þar kemur fram meðal annars að skáldið getur staðið mun framar prestinum í miðlun sinni á hinu guðlega. Skáldið er nefnilega ekki bundið á klafa kirkjukenninga, játninga og helgisiða.

Séra Matthíasar verður auk skáldskapar minnst fyrir það vera frumkvöðull frjálslyndrar guðfræði hér á landi en um það segir dr. Gunnar: „Hér á landi má hann frekar teljast til frumkvöðla en sporgöngumanna í þeim efnum. Í það minnsta má oft og einatt ráða af umfjöllun hans um íslenska guðfræði að doði og áhugaleysi presta ýti ekki undir skapandi umræðu um þau efni innan þjóðkirkjunnar, hvað þá á hinum opna vettvangi samfélagsumræðunnar.“ (Bls. 215). Tímabili frjálslyndu guðfræðinnar lauk svo að „sinni“ að mati dr. Gunnars með komu sr. Sigurbjörns Einarssonar á biskupsstól. (Bls. 195). Hér á landi gæti einnig sterkar tilhneigingar til hákirkjuhreyfingar (bls. 194). Kaflinn um frjálslyndu guðfræðina er kjarnyrtur og góð upprifjun.

Gaman væri að einhvern tímann yrði ráðist í útgáfu á prédikun séra Matthíasar Jochumssonar.

Dr. Gunnar á þakkir skyldar fyrir þessa mjög svo athyglisverðu rannsókn á hugarheimi skáldsins og kirkjan.is óskar honum til hamingju með bókina. Spennandi verður að sjá fleira koma frá hendi fræðiklerksins, dr. Gunnars Kristjánssonar.

hsh


  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Frétt

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar