Viðtalið: Fröken Fix

29. desember 2020

Viðtalið: Fröken Fix

Sesselja Thorberg - Fröken Fix

Þegar komið er á biskupsstofu í Katrínartúni 4 í Reykjavík sést strax að þar hefur komið að verki manneskja með næmt og skapandi auga fyrir umhverfi og skipulagi. 

Húsnæðið er á þriðju hæð og á einni hæð og myndar hálfgerðan hring.

Það hefur verið vandasamt að skipuleggja þetta vinnusvæði en það hefur tekist vel. Í einu orði sagt er það afar bjart og fallegt. 

En húsnæðið hýsir ekki aðeins biskupsstofu. Þarna er líka skrifstofa Tónskóla þjóðkirkjunnar, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar hefur einnig aðsetur þar. Forseti kirkjuþings hefur sömuleiðis vinnuaðstöðu á staðnum. Kirkjugarðaráð er þar og til húsa. Rýmið gefur og tækifæri til að halda allstóra fundi á vegum kirkjunnar. Húsnæðið er því til margra nota.

Allt hefur áhrif

Mikilvægt er að starfsfólki líði vel í umhverfi sínu. Allt hefur áhrif. Ekki síst húsbúnaður í smáu sem stóru. Starfsfólk eyðir miklum tíma af lífi sínu í vinnunni eðli máls samkvæmt og því er mikilvægt að vinnustaðurinn sé fallegur og umvefjandi.

Starfsumhverfið er bjart og stílhreint. Það er að langmestu leyti opið vinnurými og slíkt rými gerir öðruvísi kröfur til starfsmanna en hið hefðbundna lokaða vinnurými. Til hliðar við opna vinnurýmið eru nokkur rúmgóð herbergi þar sem fólk getur haldið fundi og rætt málin. Nokkrir hafa einkaskrifstofu og í þeim hópi er að sjálfsögðu biskupinn. Þá eru stærri rými þar sem hægt er að halda fjölmenna fundi. Stærsti salurinn ber það virðulega nafn, Þingvellir, og þar hefur meðal annars kirkjuþing fundað en þó ekki að þessu sinni vegna kórónuveirufaraldursins.

Kirkjan.is ræddi við Sesselju Thorberg, hönnuð, sem rekur fyrirtækið Fröken Fix Hönnunarstudio. Sjálf er hún reyndar oft kölluð Fröken Fix. Og hún hefur gaman af því.

Hugmyndavinna

Kirkjan spurði fyrst hvort hún hefði skipulagt viðlíka stórt skrifstofusvæði áður en húsnæði kirkjunnar í Katrínartúni er alls um 1314m²

„Á árinu sem er að líða endurhannaði ég höfuðstöðvar Advania í Guðrúnartúninu sem er talsvert stærra,“ segir Sesselja. „Það var verkefni sem ég var mjög spennt fyrir og verður líklega viðvarandi í skorpum næstu ár.“ Hún segist hafa tekið í gegn talsvert af skrifstofuhúsnæði síðustu árin, ýmist stór eða lítil og nefnir sem dæmi Borgarleikhúsið, Seðlabanka Íslands og höfuðstöðvar VÍS og Kjörís. „Það er kannski einna helst það sem er sambærilegt að einhverju leyti við Katrínartún 4,“ segir hún.

En hvað skyldi hún hafa séð fyrir sér hvað skipulagið snerti þegar hún skoðaði húsnæði biskupsstofu í fyrsta sinn?

„Ég notast talsvert við konsept-hönnun í nálgun minni og var biskupsstofa þar engin undantekning,“ segir hún. „Ég styðst einnig mikið við tákn- og sálfræði þegar ég byrja í hugmyndavinnu fyrir ný verkefni og fékk ég tækifæri til þess að teygja þann ramma talsvert yfir verkefnið.“ Segir hún skipulagið vera hannað út frá verkefnamiðuðum stöðlum á skrifstofum og auk þess hafi komið ákveðnar óskir frá biskupsstofufólki.

Örfundarými og fljótandi vinnustöðvar

Margt hefur breyst í orðanotkun þegar talað er um skrifstofuhúsnæði í nútímanum. Nú er talað um starfsstöðvar sem eru skrifborð starfsfólks og það sem þeim tilheyrir. „Þessar tilteknu starfsstöðvar eru þó sérstaklega næðismiðaðar,“ segir Sesselja og að einnig hafi verið lögð mikil áhersla á örfundarými og önnur svæði þar sem starfsfólk gæti breytt um umhverfi, tekið pásur eða fært sig inn í rými þar sem meira næði væri að finna. Örfundarými eru lítil herbergi sem áður var getið og þar er hægt að loka að sér, þau eru misstór.

Sesselja segist einnig hafa lagt áherslu á vinnusvæði og borð sem hægt væri að dreifa gögnum á og fljótandi vinnustöðvar, sem eru hugsaðar fyrir þá sem koma og þurfa að vinna tímabundið innan skrifstofunnar t.d. eins og starfsfólk kirkjunnar utan af landi.

Nú er biskupsstofa ekki nein hverdagsleg skrifstofa heldur embættisskrifstofa biskupsins yfir Íslandi. Kirkjan.is spyr hvort Sesselja hafi viljað láta þau sem kæmu á skrifstofuna sjá eitthvað strax og gengið væri inn.

„Það var mikilvægt fyrir mig að skapa eins hlýlegt og heimilislegt andrúmsloft á allri hæðinni og mögulegt væri,“ segir hún, „en þó þannig að augljóst væri að um skrifstofur væri að ræða.“ Nýju húsnæði fylgi óhjákvæmilega spennandi og krefjandi áskoranir – og bætir við: „En jú, mikilvægt var að bæði starfsmenn og gestkomandi fengju strax á tilfinninguna að þeim væri tekið opnum örmum af umhverfinu líka.“

Krossar og geislabaugar

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að margvísleg tákn fylgja kristinni trú – sá sjóður er ótæmandi. Skyldi Sesselja hafa látið einhver slík tákn vera ráðandi í rýminu sem hún var að skipuleggja fyrir kirkjuna?

Krossar, litir og þríhyrningar
„Táknfræðin fékk að vera áberandi í þessu verkefni enda tilefni til,“ segir hún hress í bragði. „Ég notaðist við litina í kirkjuárinu sem skipt er eftir deildum og svæðum á vinnusvæðinu.“ Hún bendir á að á öllu gleri eru filmur sem mynda þríhyrninga sem teygja sig svo niður í teppin í öllum fundarrýmum.“ Sesselja segir það að sjálfsögðu vera tilvísun til hinnar heilögu þrenningar. „Nú og útskornu krossarnir sem eru í léttum milliveggjum í rýminu eru auðvitað augljós tilvísun,“ segir hún og bætir við með hlýjum glettnissvip: „En mig langaði einnig að bæta smá húmor inn í þetta allt saman og því fengu allir starfsmenn sinn eigin geislabaug fyrir ofan starfsstöðvar sínar.“

En er hún ánægð með hönnun sína á skrifstofuhúsnæði biskupsstofu?

„Ég er auðvitað hæstánægð með verkefnið,“ segir Sesselja og telur það vera dásamlegt að vinna með fólki sem treystir fullkomlega sýn hennar og sérfræðikunnáttu og leyfir henni að halda um verkið alla leið til enda – frá hönnun í verkefnastjórn.“ Þess vegna hafi þetta verkefni verið einstaklega ánægjulegt að því leyti líka.

Hver er Sesselja Thorberg?
Hún er að mestu uppalin í Árbænum í Reykjavík en á ættir að rekja til Danmerkur, Akureyrar og til Akraness. Sesselja útskrifaðist úr Listaháskólanum 2003 og starfaði þá í nokkur ár við fjölmiðla og verkefnastjórn en alltaf tengt listum, hönnun og innanhússhönnun. Eftir fjölmiðlaævintýrið starfaði hún svo í nokkur ár á arkitektastofu við innanhússhönnun og teikningu. Hún hefur rekið Fröken Fix - Hönnunarstudio í tíu ár.

Heimasíða Fröken Fix
Facebókarsíða Fröken Fix

hsh


Anddyrið er einkar fallegt og hlýlegt


Hér sést hve létt yfirbragð er yfir vinnustaðnum


Stólar og borð á miðju svæði þar sem hægt er að tylla sér niður


Starfsstöð skjalavarðar og bak honum meistarar á borð við Martein Lúther, 
Helga Hálfdánarson, Guðbrand Þorláksson og Geir Vídalín - hér sést einn
geislabauganna vel


Eittt fundarherbergjanna - örfundarrými - næðisrými fyrir lítinn fund  - hér sést móta fyrir
þríhyrningum  á filmu sem ná niður í gólf 


Hringlaga sófi í opnu rými


Næðisbásar 


Létt milli þil með krossi sem andar vel um 


Hér sjást þríhyrningarnir vel 


Að sjálfsögðu er hugað að umhverfismálunum


  • Menning

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju