Boðaði trú í list

31. desember 2020

Boðaði trú í list

Trú og menning, list og saga, góð bók

Kirkjan.is getur ekki látið hjá líða að minnast á bókina um dansk-íslenska myndhöggvarann, Bertel Thorvaldsen, áður en nýtt ár gengur í garð. Hún kom út nú fyrir jólin. Þetta er ævisaga Thorvaldsens sem er endurútgefin af forlaginu Sæmundi en fyrst kom bókin út 1944 en þá var öld liðin frá dauða listamannsins. Höfundur bókarinnar er séra Helgi Konráðsson. Það var forstjóri Félagsbókbandsins, Þorleifur Gunnarsson, sem gaf ritverkið út 1944.

Frumkvæði að þessari annarri útgáfu á ævisögu Thorvaldsens á Ólafur Egilsson, fyrrum sendiherra í Danmörku og Ítalíu 1994-1998.

Formála fyrir bókinni skrifar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson. Eftirmála skrifar ítalski listfræðingurinn Stefano Grandesso.

Minningarár Thorvaldsens

Í nóvembermánuði var bæði hér á landi og í Danmörku þess minnst að 250 ár voru liðin frá fæðingu Bertels Thorvaldsens (1770-1844). Í tilefni þessa kom út á dönsku listfræðileg ævisaga hans eftir dr. Margrethe Floryan, listsagnfræðing, en margir hafa ritað um ævi og störf Bertels.

Hér heima var þessara tímamóta minnst í Dómkirkjunni en þar er eins og kunnugt er skírnarfontur sem Bertel gerði og gaf kirkjunni. Bertels Thoraldsens var minnst við guðsþjónustu í Dómkirkjunni 15. nóvember s.l. Forseti Íslands lagði krans við styttuna af Thorvaldsen í Hljómskálagarðinum 19. nóvember. Og fyrrnefnd bók séra Helga var endurútgefin með myndarbrag. 

Tveir Skagfirðingar: Thorvaldsen og séra Helgi

Ekki verður saga Thorvaldsens rakin hér heldur aðeins þakkað fyrir þessa ágætu endurútgáfu á bók séra Helga og minnst á fáein atriði.

Bókin er vel rituð og hefur höfundur lagt mikla alúð við verk sitt. Málfar er vandað og frásögnin rennur vel eins og sagt er. Hún er auk þess skemmtileg. Bókin Bertel Thorvaldsen – ævisaga, eftir sr. Helga Konráðsson, er merk bók fyrir margra hluta sakir. Þetta er bók sem allt kirkjufólk á að lesa og eiga.

Það hlýtur líka að teljast óvenjulegt af landsbyggðarpresti á miðri síðustu öld að halda utan til Ítalíu og draga að sér andrúmsloft lista og menningar sem Thorvaldsen gerði og á sinni tíð. En það gerði séra Helgi nokkrum árum áður en bókin kom út.

Sr. Helgi rekur heimildir sínar fyrir verkinu á fyrstu blaðsíðum bókarinnar og leggur áherslu á að ekki sé um frumrannsóknir að ræða. En hann studdist líka við munnmælasögur (sjá bls. 372). Áður hafði komið út ævisaga Alberts Thorvaldsens á íslensku árið 1841 eftir Magnús Hákonarson, sjá hér.

Það var erfitt fyrir Bertel, einkason Íslendingsins Gottskálks Þorvaldssonar (hann fæddur í Miklabæ í Blönduhlíð, Skagafirði, 1740 – fyrir 280 árum) og jósku konunnar, Karenar Dagnes eða Grønlund, organista- og djáknadóttir var hún, að kveðja foreldra sína í Kaupmannahöfn áður en hann hélt til Ítalíu árið 1796. Það var óbreytt alþýðufólk. Hann sá þau ekki eftir það en var í bréfasambandi við þau meðan lifðu, þau létust 1804 og 1806.

En sonur þeirra gerði garðinn frægan. Lagði svo að segja Evrópu að fótum sér og var eftirsóttur listamaður. Varð frægur um alla álfuna. Danir gerðu honum mjög svo hátt undir höfði – og ekki mega Íslendingar gleyma honum.

Lýsing séra Helga á Thorvaldsen
„Thorvaldsen var ekki fremur hversdagsmaður í sjón heldur en hann var það í raun. Hann var glæsimenni hið mesta. Hann var meira en miðlungshár vexti, þrekvaxinn, vel limaður og allur vel á sig kominn og afar sterkur. Höfuðið var allstórt og fallega lagað, hárið mikið, glóbjart á lit og fór vel. Hann var bjartur yfirlitum og allur mjög norrænn í sjón og raun.“ Við lýsingu sína eykur séra Helgi með orðum vinar Thorvaldsens, sem lýsir listamanninum svo: „Hann var eygur manna bezt, bláeygur, en augun miðlungi stór. Augnaráðið var hlýlegt og á fagurlega sköptu enni hans mátti sjá ættarmót hans við það háa – það hæsta, skrifað þar með sjálfum fingri guðs. (Bls. 65).

Starfsævi Thorvaldsens var í Róm. Þangað kom hann 1797 og sneri ekki heim til Danmerkur fyrr en eftir rúm fjörutíu ár – eða árið 1838.

Bertel Thorvaldsen hafði og sterkar taugar til Íslands (sjá t.d. bls. 372-373).

Séra Helga Konráðssyni tekst mjög vel að lýsa Thorvaldsen og lesanda finnst sem hann þekki listamanninn býsna vel þegar lestri ævisögunnar lýkur. Saga Thorvaldsens var sem ævintýri. Rætur hans sem ól nánast allan sinn aldur í Róm voru norður í höfum. Hann náði miklum frama og listin var allt í lífi hans. Á ýmsu gekk í einkalífi hans, hann kvæntist aldrei en eignaðist tvö börn, dreng sem dó ungur, og dóttur, Elísu (1813-1870): Dóttir hans var „fríð sýnum og glæsileg og lík föður sínum.“ (Bls. 271). Hann var morgunhani, tortrygginn, traustur, varð fyrir voðaskoti sem kostaði hann nær lífið en byssukúlan flattist út á einu rifbeina hans. Og hann naut þess heiðurs að fá að gera minnismerki yfir páfann Píus VII í Péturskirkjunni í Róm en ekki var Thorvaldsen rómversk-kaþólskur heldur útlendingur og villutrúarmaður (bls. 267).

Kristsstyttan eina

Hann gerði fjölda kirkjulistaverka. Kunnast þeirra er eflaust Kristsstyttan í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn. Varla er til sá Íslendingur sem ekki kannast við það listaverk og stytturnar af lærisveinum Krists í sömu kirkju og fleiri listaverk. Eftirmyndir Kristsstyttunnar, smástyttur, hafa verið gerðar og seldar, misstórar. Eftirmyndirnar má víða finna hér á landi, til dæmis í kapellu Vatnaskógar og á altari Sæbólskirkju á Ingjaldssandi yst við vestanverðan Önundarfjörð.

Séra Helgi segir frá hinni frægu Kristsstyttu
Hinn opni og kærleiksríki faðmur er höfuðeinkenni hennar. Séra Helgi rekur hvers vegna listamaðurinn ákvað að breyta handstöðu Krists, hendur hans voru fyrst uppréttar á styttunni. Viðmælandi listamannsins sló út höndum „til að gefa orðum sínum áherzlu,“ en við það fékk listamaðurinn hugmynd að breyta handstöðu Krists á styttunni en sá þáttur hafði valdið honum miklu hugarangri. En þetta segir séra Helgi um styttuna: „Það er ómögulegt að þreytast á að horfa á hana. Himneskur friður ljómar á svipnum, hverri hreyfingu, meira að segja hverri fellingu skikkjunnar. Mýktin og yndisleikinn streyma út frá hverri línu. Sjálfur sagði Thorvaldsen síðar við einhvern vin sinn, er þeir ræddu um myndina: ‚Einföld varð hún að vera, því að einfaldleikinn varir um aldur og ævi, og þannig var Kristur. Hann mun vara um þúsundir ára.‘ “ (Bls. 263).

Hvað er það við þessa styttu sem gerir hana svo sérstaka?

Listfræðingar hafa velt þessari styttu mikið fyrir sér og rannsakað. Einn þeirra, Davíð Burmeister, segir svo: „Þegar gengið er inn í hið stóra rými Frúarkirkjunnar í Kaupmannahöfn fer ekki fram hjá neinum þriggja metra há stytta í kórnum. Það er hinn upprisni Kristur sem blasir við. Styttan býr yfir þeim magnaða eiginleika ef svo má segja að þegar staðið er fyrir framan hana og horft í augu hennar þá horfir hún á móti. Kristsstyttan er sem líkamleg nálægð frelsarans sem áhorfandinn skynjar. Þannig tókst Thorvaldsen að túlka frelsarann hvort tveggja í senn sem hinn upphafna son Guðs og jafnframt sem hinn nálæga með kærleiksrík og mild augu – og síðast en ekki síst: hinn opna faðm.“

Hver var séra Helgi Konráðsson?
Hann fæddist á Syðra-Vatni í Lýtingsstaðahreppi, Skagafirði 24. nóvember 1902 og lést 30. júní 1959. Hann lauk stúdentsprófi utanskóla frá Menntaskólanum í Reykjavík og guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1928. Hann var vígður útskriftarárið til Bíldudals og var þar í fjögur ár en þá fékk hann Höskuldsstaði á Skagaströnd. Árið 1934 var honum veitt Reynistaðarklaustursprestakall og hélt því til æviloka og bjó á Sauðárkróki. Hann kom mjög við sögu skólahalds, kenndi og var skólastjóri. Helgi ritaði margt í blöð og tímarit enda vel ritfær maður. Síðustu sjö árin var hann prófastur. Kona hans var Jóhanna Petrea Þorsteinsdóttir frá Reykjum í Hrútafirði og áttu þau eina kjördóttur.

Frumkvæði að útgáfu bókarinnar átti sem fyrr sagði Ólafur Egilsson, fyrrum sendiherra í Danmörku og á Ítalíu. Kirkjan.is hafði samband við hann og spurði hann hvað hefði vakið hinn sérstaka áhuga hans á Bertel Thorvaldsen.

„Það var vönduð sýning á verkum Thorvaldsens á Kjarvalsstöðum 1982 sem heillaði mig,“ segir Ólafur og bætir því við að þegar hann starfaði við sendiráð Íslendinga í Kaupmannahöfn, sem bar upp á 150. ártíð hins víðfræga listamanns 1994, hafi áhugi hans vaxið. Honum hafi orðið æ ljósara að færa mætti góð rök fyrir að einstök listgáfa Thorvaldsens ætti sér íslenskar rætur en listhneigð var vel þekkt í hinn íslensku föðurætt hans. Hann skrifaði um Thorvaldsen í tímaritið Heima er bezt og síðar í aldarafmælisrit Dansk-íslenska félagsins m.a. til að bæta úr því hve fyrnst hefur hér yfir stórmerkan feril listamannsins og tengsl hans við Ísland. 

„Mér finnst nýja útgáfan af ævisögunni hafa tekist vel,“ segir Ólafur. „Formáli forseta Íslands, herra Guðna Th. Jóhannessonar, er staðfesting á mikilvægi Thorvaldsens fyrir Íslendinga, og eftirmáli ítalska listfræðingsins, Stefano Grandesso, setur bókina í víðara samhengi og tengir hana við nútímann.“ Ólafur minnir á að bókin hafi komið fyrst út 1944. Ljósmyndirnar í bókinni séu endurnýjaðar í þessari útgáfu og hafi Thorvaldsenssafnið í Kaupmannahöfn liðsinnt í því efni. „Myndirnar af listaverkunum lýsa snilld Thorvaldsens,“ segir Ólafur.

Svo sem kunnugt er þá gaf Thorvaldsen veglegan skírnarfont í Dómkirkjuna í Reykjavík og kom hann í kirkjuna 1839. Hann er úr ítölskum marmara og er í síðklassískum stíl. Á einni hlið hans er greipt latnesk áletrun sem er svohljóðandi á íslensku: Albert Thorvaldsen gerði grip þennan í Róm og gaf Íslandi, ættjörð sinni, af ræktarsemi 1827. 

„Skírnarfonturinn hefur sérstöðu af því hann kemur beint frá listamanninum sjálfum,“ segir Ólafur og sé hann unninn af honum og aðstoðarmönnum hans.

En eru fleiri verk hér á landi eftir Thorvaldsen?
„Á Þjóðminjasafninu er til andlitsmynd af Jóni Eiríkssyni, konferensráði, sem Thorvaldsen gerði ungur að árum, hluti af brjóstmynd sem brotnaði í sendingu til Íslands en andlitið er heilt,“ segir Ólafur. „Þá eru til hérlendis tvær marmarastyttur frá fyrri tíð, Ganýmedes í eigu Listasafns Íslands, og Merkúr sem Argusbani í vörslu Verzlunarskóla Íslands.“ Ólafur segir síðarnefndu listaverkin tvö vera verk sem rekja megi til Thorvaldsens og lærisveina hans. Styttan af Merkúr kom til Íslands 1989 fyrir atbeina minningarsjóðs dr. Jóns Gíslasonar, skólastjóra Verzlunarskóla Íslands, en hann var mikill áhugamaður um forn grísk fræði. Þá bætir Ólafur við að kaupmannshjónin Gunnhildur og Baldouin Ryel sem bjuggu á Akureyri hafi látið höggva í marmara sams konar skírnarfont Thorvaldsens sem er að finna í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn þar sem skírnarengillinn er myndefnið og hafi þau gefið Akureyrarkirkju þann skírnarfont árið 1952.

Nokkur fleiri verk Thorvaldsens eru til hér steypt í brons þ. á m. er úti fyrir Fossvogskirkju eftirmynd af hinni fögru og frægu Kristsstyttu hans og í Hljómskálagarðinum af sjálfsmyndinni sem lagt var að honum að gera seint á ævinni. Er hún gjöf Kaupmannahafnar til Íslendinga á þjóðhátíðinni 1874, fyrsta stytta á almannafæri í Reykjavík.

Í lokin er rétt að hvetja lesendur sem munu eiga leið um Kaupmannahöfn á nýju ári þegar kórónuveiran verður kvödd að líta við í safni Bertels Thorvaldsens þar í borg. Sú heimsókn svíkur engan. 

hsh


Málverk af Bertel Thorvaldsen frá því um 1820 – Karl Begas málaði


Styttan af Thorvaldsen í Hljómskálagarðinum í Reykjavík - mynd tekin 30. desember 2020. Takið eftir að kransinn sem forseti Íslands lagði við styttuna þann 19. nóvember er þarna enn, hægra megin. Þetta er sjálfsmynd Thorvaldsens og er fyrsta styttan sem sett er upp á almannafæri í Reykjavík


Skírnarfontur Thorvaldsens í Dómkirkjunni í Reykjavík. Undir englunum þremur sem tákna trú, von og kærleika, er áletrunin sem um getið í textanum hér að ofan


Eftirmynd Kristsstyttunnar í Frúarkirkju á altari Sæbólskirkju á Ingjaldssandi - mynd tekin 31. júlí 2020


Hátíðardagskrá um Thorvaldsen sem Listasafn Íslands hélt í í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið

Una Margrét Jónsdóttir sá um þátt í útvarpinu sem hún kallaði Thorvaldsen og tónlistin

Tónlistin samofin lífi Thorvaldsens allt til dauðaKynning Unu Margrétar Jónsdóttur á þættinum fyrir útsendingu (þar er m.a. skemmtileg tilvitnun í Jóhönnu Briem, föðursystur sr. Valdimars Briem sálmaskálds, sem heimsótti Thorvaldsen [samnemanda og vin Gunnlaugs föður hennar og afa sr. Valdimars] í Róm 1826)


  • Frétt

  • List og kirkja

  • Menning

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Fræðsla

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði