Kirkjan íhugar grænt bókhald

8. janúar 2021

Kirkjan íhugar grænt bókhald

Lóa við lágan kirkjugarðsvegg suður með sjó

Þjóðkirkjan hefur látið umhverfismál til sín taka með ýmsum hætti. Hún hefur sérstaka umhverfistefnu, kirkjuþing hefur ályktað um ýmis umhverfismál eins og um orkuskipti í samgöngum á vegum starfsfólks kirkjunnar, viðbragðsástand vegna loftlagsmála, svo nokkuð sé nefnt. Þá má minna á verkefnið um græna söfnuði og skírnarskóga.

Í nokkur ár hafa söfnuðir þjóðkirkjunnar beint sjónum sínum á haustin að umhverfismálum og sköpuninni undir yfirskriftinni tímabil sköpunarverksins.

Prestastefna 2019  samþykkti ítarlega umhverfistillögu.

Einnig má minna á að kirkjuþing unga fólksins 2019 ályktaði með ákveðnum hætti um umhverfismál - til dæmis samþykkti það áskorun á hið almenna kirkjuþing að temja sér pappírslausa starfsemi og skoraði á kirkjuleg yfirvöld að draga úr flugferðum starfsmanna og að kolefnisjafna þær ferðir sem farnar væru.

Þá er skemmst að minnast hinnar viðamiklu  ráðstefnu í Skálholti sem fjallaði um umhverfismál í samvinnu við ýmis trúfélög undir heitinu: Trú fyrir jörðina - fjöltrúarlegar aðgerðir.

Umhverfismálin eru sem sé ofarlega á baugi og kirkjunnar fólki er mjög annt um að standa vörð um sköpunarverkið, lífríkið. 

Fyrir nokkru samþykkti kirkjuráð erindi frá umhverfishópi kirkjunnar sem snýst um að stíga hugsanlega skref í áttina að svokölluðu grænu bókhaldi. Það mun eflaust koma í ljós hvort að grænt bókhald eigi að einhverju leyti við um þjóðkirkjuna því að svo er að sjá á vef Umhverfisstofnunar sem hefur umsjón með innleiðingu græns bókhalds að það eigi einkum við um stórfyrirtæki. Umhverfisráðuneytið gaf út reglugerð um grænt bókhald sem er fróðleg lesning.

Í fundagerð kirkjuráðs 3. desember  s.l. segir:
Kolefnisfótspor kirkjulegrar starfsemi
Lagt var fram erindi umhverfishóps þjóðkirkjunnar, dags. 24. nóvember sl. um tilfærslu fjármuna svo hægt sé að framkvæma kolefnismælingu. Markmiðið er að fá hugmynd um kolefnisfótspor kirkjulegrar starfsemi, en um væri að ræða skref í átt að því að kirkjan taki upp grænt bókhald. Kirkjuráð samþykkti erindið.

En hvað er grænt bókhald?

Grænt bókhald er skilgreint sem efnisbókhald þar sem fram koma upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, aðallega í formi tölulegra upplýsinga.

Grænt bókhald getur nýst fyrirtækjum á marga vegu. Með bókhaldinu eru gefnar upplýsingar um þá þætti sem valda neikvæðum umhverfisáhrifum framleiðslunnar.

Færsla græns bókhalds krefst forgangsröðunar og skipulagningar í anda umhverfisstjórnunar. Þær upplýsingar sem safnast við vinnslu græns bókhalds má nota beint í umhverfisúttekt sem er eitt af fyrstu skrefunum við uppbyggingu umhverfisstjórnunarkerfis.

Til upplýsingar og frekari glöggvunar má sjá hér  lista yfir fyrirtæki sem grænt bókhald getur náð til. 

Þjóðkirkjan er vakandi í umhverfismálum eins og lesa má um hér:

Umhverfisstefna þjóðkirkjunnar
Um orkuskipti í samgöngum á vegum starfsfólks kirkjunnar
Viðbragðsástand vegna loftslagsmála
Grænn söfnuður

hsh
  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Umhverfismál og kirkja

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju