Kórónuveiran í Færeyjum

19. janúar 2021

Kórónuveiran í Færeyjum

Kirkja í Færeyjum - Saksun - vígð 1858

Færeyska þjóðkirkjan stendur sterkum fótum í færeysku þjóðlífi og kirkjustarf er þar alla jafna með miklum blóma.

Kirkjan.is sló á þráðinn til Færeyjabiskups, sr. Jógvans Fríðrikssonar, og spurðist fyrir um áhrif kórónuveirunnar á kirkjulíf í eyjunum.

„Veiran hefur haft mikil áhrif á kirkjustarfið hjá okkur,“ segir sr. Jógvan, „og sérstaklega hefur hún truflað guðsþjónustuhaldið.“

Hann segir að í þrígang hafi kirkjunum verið lokað og prestarnir aðeins haft skírnir um hönd, gefið saman og jarðsungið. Í fyrstu hafi fjöldatakmörkunin verið bundin við einn tug og síðar hafi verið rýmkað um og fimmtíu manns leyft að vera við athafnir.

„Nú er það svo að í stóru kirkjunum mega eitt hundrað manns koma saman, miðlungsstórum kirkjum sextíu og í litlum kirkjum fjörutíu manns,“ segir sr. Jógvan.

Um tveggja mánaða skeið á síðasta ári var algjörlega lokað fyrir guðsþjónustur og hafi það verið óneitanlega sérstök tilfinning. Eins hafi ekkert opið guðsþjónustuhald verið fyrr en nú um miðjan mánuðinn.

„Meðan kirkjurnar voru lokaðar voru sendar út sjónvarpsguðsþjónustur og þær teknar upp í einni af stóru kirkjunum,“ segir sr. Jógvan, „samskipti okkar við útvarpið og Færeyska sjónvarpið (Kringvarp Føroya) er afskaplega gott og á hverjum sunnudegi allt árið eru sendar út guðsþjónustur í útvarpinu og sjónvarpinu.“

En hvað með fermingarnar? spyr kirkjan.is.

„Í haust var hámarksfjöldi fermingarbarna í hverri athöfn tíu og sama verður uppi á teningnum nú í vor,“ svarar sr. Jógvan. Vorfermingarnar á síðasta ári voru fluttar fram á haustið.

Í Færeyjum starfa 27 sóknarprestar, þau eru með einn svo kallaðan stiftsprest, einn innflytjendaprest, einn dómprófast og einn biskup.

Sjálfstæð færeysk þjóðkirkja
Sr. Jógvan Fríðriksson, er fæddur 1957 og lauk guðfræðiprófi frá guðfræðideild Árósarháskóla 1985. Hann vígðist til prests 1986 og þjónaði á nokkrum stöðum í Færeyjum. Hann hefur verið biskup færeysku þjóðkirkjunnar frá 2007 en það ár varð hún sjálfstæð kirkja - þ.e.a.s. laus frá dönsku þjóðkirkjunni.

hsh


  • Erlend frétt

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Covid-19

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju