Elvis í Bessastaðakirkju

25. janúar 2021

Elvis í Bessastaðakirkju

Bessastaðakirkja á fallegum degi

Sem fyrr var streymt frá ýmsum kirkjum nú um helgina.

Eitt streymið framar öðrum vakti athygli og það var Elvis Presley-gospel-messa frá Bessastöðum. Kirkjan.is fylgdist með öruggum tökum tónlistarmannanna og góðri hugleiðingu nýja prófastsins, séra Hans Guðbergs Alfreðsson og með honum þjónaði Margrét Gunnarsdóttir, djákni.

Kirkjan.is sló á þráðinn til sr. Hans Guðbergs og spurði hvort svona Elvis-Presley-gospel-stund hefði verið áður hjá þeim í Bessastaðakirkju.

„Já, fyrir tveimur árum vorum við með svona messu,“ svaraði sr. Hans Guðberg og bætti því við að hann hefði alltaf haft gaman af Elvis Presley en eflaust mætti finna meiri Presley-aðdáendur en hann. „Ég hef tiltölulega breiðan tónlistarsmekk og hef gaman af alls kyns tónlist,“ sagði sr. Hans Guðberg, „og mér fannst þetta bara frábær hugmynd hjá organistanum, honum Ástvaldi Traustasyni, að fá vin sinn, hann Bjarna Ara, með okkur í kirkjuna.“ Hann sagði að organistinn og söngvarinn hefðu útsett tónlistina og flutt. Síðast, fyrir tveimur árum, þá var kirkjan troðfull þegar Elvis Presley-gospel-messan var flutt.

En hver skyldi vera Elvisinn?

„Er það ekki Bjarni Ara?“ svaraði sr. Hans Guðberg að bragði með bros á vör.

Og hve mörg skyldu horfa?

„Nýjustu tölur frá organistanum eru að 2500 manns hafi horft,“ svaraði prófasturinn og var ánægður.

Sr. Hans Guðberg sagði að Presley hefði alist upp í hvítasunnukirkjunni og verið duglegur að sækja kirkju. Hann hafi hlustaði jöfnum höndum á hvítt og svart gospel og því var þessi tónlist honum nánast í blóð borin. 

Úr hugleiðingu sr. Hans Guðbergs

„Elvis átti það líka til þegar hann var orðinn stjarna að lauma sér inn í gospelmessur.

Terry Blackwood sem söng inn á gospel-plötur Presleys í kvartettinum The Imperials sagði um Presley: ,Presley elskaði gospelhljóminn og gospeltónlistinn hafði áhrif á allt sem að gerði í tónlistinni.' 

Blackwood man vel eftir því þegar Elvis þá orðinn stórstjarna laumaði sér inn í messur í kirkjunni sem Blackwood söng í, Memphis Tennesee, svo að vera hans myndi ekki trufla viðstadda. Elvis, sagði Blackwood, bar mikla virðingu fyrir helgi kirkjunnar og hann lagði mikið upp úr því að trufla ekki messuna.

Elvis fékk líka Grammy-verðlaun fyrir gospelplöturnar sínar enda var hann þarna á heimavelli og menn greina mikil áhrif gospelsins í tónlist Presleys. Má segja sem svo að rokkið og gospelið hafi hjá honum runnið saman í eitt því að slík eru áhrif gospelsins á tónlist Presleys.“

Sr. Hans Guðberg sagði að Elvis hefði miðlað trú í gegnum lög sín og texta. Mörg þeirra hafa staðist tímans tönn en:

„Það sorglega við Elvis og líf hans var hvað hann varð einmana þegar leið á ferilinn. John Lennon sagði í öllu þessu fári - sem var ekkert lítið - og var að tala um hann og hina Bítlana: ,Við höfðum þó alltaf hver annan við bítlarnir en Elvis - hann var einn.' “

Hver var Elvis Presley? 

Hann fæddist í Bandaríkjunum í borginni Tupelo í Mississippi þann 8. janúar 1935 og lést 16. ágúst 1977. Foreldrar hans voru fátækir og fluttu til Memphis í Tennessee, en sjálfur átti hann eftir að verða auðmaður vegna hæfileika sinna sem tónlistarmaður, hann söng og lék á gítar. Hann náði tuttugu og fimm gullplötum og lék í sextíu kvikmyndum. Hann var fátæki drengurinn sem upplifði ameríska drauminn. En skuggahliðar frægðar og frama geta fellt stjörnurnar eins og sýndi sig með Elvis. Hann lést aðeins 42 ára gamall. 

Hann varð frægur um öll Bandaríkin árið 1954 með laginu That´s All Right Mama. Sagan á bak við lagið var sú að hann vörubílstjórinn, nítján ára gamall, kom í hasti inn í hljóðverið til að láta taka upp lag sem hann ætlaði að gefa móður sinni. Lagið sló í gegn. Síðan átti hin flauelsmjúka rödd eftir að hljóma um heiminn. Hann varð rokkkóngurinn og átti eftir að hafa mikil áhrif á tónlistina. 

hsh

 
Elvis Presley í Bessastaðakirkju


Hér syngur Elvis lagið sem gerði hann frægan í Bandaríkjunum


  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju